Tengsl ferðaþjónustu við íslenska sögu

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:20:42 (2180)

[15:20]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi að beina þessari fsp. til hæstv. samgrh. sem þekktur er af áhuga sínum og alúð gagnvart íslenskri tungu. Fsp. varðar það tungumál sem stöku starfsstéttum er gert að nota um fjarskiptakerfi, í þessu tilviki Inmarsat C fjarskiptakerfinu. Þar er um að ræða fólk sem starfar á sjó og hefur að vísu nokkrar aðferðir til að hafa með sér fjarskipti og þar á meðal þetta kerfi. Það liggur fyrir að þar er ekki hægt að nota íslenska bókstafi og fyrir vikið verður úr þessum skeytasendingum milli skipa hið furðulegasta hrognamál. Ef ég má taka eitt dæmi er orðið fiskveiðiþjóð skrifað á þessu undarlega tungumáli ,,fiskvaedithjod`` og lesi nú hver sem vill. Þetta er sem sagt fiskvaedithjod eftir því sem ég kemst best í gegnum þennan undarlega texta en þarna eru hvorki meira né minna en fimm stafir eða stafasett sem eru algjörlega út í hött miðað við íslenskan málskilning. Við höfum ágætis stafi fyrir þetta, það er æ, þ, ó og ð og er auðvitað skaði að ekki skuli vera hægt að nýta það í þessu kerfi. Nú mun þetta vera tæknilega vel mögulegt að bæta þessu inn í settið en þá er það spurningin um kostnað. Ég veit ekki betur en við borgum fyrir aðgang að kerfinu og þar af leiðandi getum við gert ákveðnar kröfur. Ég vil líka halda því til haga að töluverð vinna hefur verið lögð í þetta og tekist mjög vel upp varðandi það að halda séríslenskum stöfum inni í því stafasetti sem er til grundvallar í því tölvuumhverfi sem nú er mikið unnið í. Þar höfum við skákað jafnvel Tyrkjum sem hafa mjög sótt á að hafa sína stafi þar inni þannig að við tilheyrum grunnkerfinu sem tölvumenn hafa getað unnið með og það þykir mjög gott fyrir íslenska tungu.
    Ég vil líka halda því til haga að einum skipherra hjá Landhelgisgæslunni hefur verið heimilað að eigin ósk að víkjast undan því að nota þetta hræðilega tungumál sem hann segir að gagnvart málvitund sinni geti hann ekki varið að nota. Ég held að hér sé full ástæða til að skoða málið og spyr hæstv. ráðherra á þskj. 265 um þetta mál.