Séríslenskir bókstafir í Inmarsat C fjarskiptakerfinu

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:26:20 (2182)


[15:26]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 9. þm. Reykn. fyrir að hreyfa þessu máli og sömuleiðis hæstv. samgrh. fyrir einkar glögg svör í málinu miðað við allar aðstæður. Ég held að þetta sé nokkurt alvörumál vegna þess að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum með okkar eigin bókstöfum skiptir mjög miklu máli. Ég bendi á í þessu sambandi að Iðntæknistofnun hefur verið með í gangi þróunarverkefni sem hefur verið styrkt m.a. af norræna menningarsjóðnum og evrópskum sjóðum þar sem gert er ráð fyrir því að þessir íslensku stafir þ, ð og æ og stafirnir með broddum yfir gangi allir inn í alþjóðlega notkun og hefur verið fallist á það í tilteknu evrópsku tölvusamhengi. Ég tel að það skipti mjög miklu máli að við höldum okkar stöfum inni og reynum að tala íslensku en ekki ,,inmarsatísku`` framar á þessu sviði eins og öðru.