Bygging kjötmjölsverksmiðju

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:31:24 (2185)

[15:31]
     Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 289 hef ég lagt fram fsp. til hæstv. landbrh. um byggingu og rekstur kjötmjölsverksmiðju. Fyrirspurn þessi er lögð fram vegna hagkvæmniathugunar sem gerð var á byggingu og rekstri kjötmjölsverksmiðju á Íslandi í septembermánuði 1993. Í þeirri athugun kemur fram sú staðreynd að hér á landi sé svo til allur slátur- og kjötvinnsluúrgangur urðaður.
    Almennt er viðurkennt að urðun úrgangs er ekki fullnægjandi förgunaraðferð og hefur m.a. salmonellusýking í búfénaði verið rakin til ófullnægjandi förgunar sláturúrgangs. Erlendis er víða þekkt að slátur- og kjötvinnsluúrgangur er unninn í kjötmjöl og fitu. Í Evrópu er litið á kjötmjölsframleiðslu sem nauðsynlegan hlekk í framleiðslu kjötafurða jafnvel þó óhagkvæmt sé að framleiða mjölið miðað við verðlag eins og það er í dag. Þá er það ekki spurning um hvort halda eigi henni áfram heldur hvernig best sé staðið að framleiðslunni í framtíðinni.
    Miklar breytingar hafa einkennt vöruframboð á kjötmjöli og fitu á Evrópumarkaði síðustu ár. Þar hefur áhersla verið lögð á vöruþróun samhliða aukinni og bættri tækni á framleiðslu á kjötmjöli. Raunhæfustu möguleikarnar eru að nota kjötmjöl til fóðurframleiðslu hér á landi og nota fitu sem brennsluefni fyrir verksmiðjuna sjálfa. Á Íslandi er mögulegt að markaðssetja 2.690 tonn af kjötmjöli ef allt fóður væri framleitt hér og allir fóðurframleiðendur notuðu það magn af kjötmjöli sem þeim væri unnt. Ef frá er talinn innflutningur eins og hann er nú eru þetta um 2.500 tonn þannig að segja má að mögulegur markaður sé um það bil 2.000--2.500 tonn.
    Sláturúrgangur hefur verið vandamál frá upphafi og urðun úrgangsins hefur tekið til sín vaxandi fjármuni og erfiðara hefur verið með hverju árinu að finna heppilegt land til urðunar. Einnig ber að hafa í huga að úrgangurinn brotnar mjög seint niður hér á landi vegna lágs hitastigs. Það hefur verið lagt mat á magn slátur- og kjötvinnsluúrgangs á öllu landinu á ársgrundvelli og hvar úrgangurinn fellur til. Um er að ræða 7.132 tonn af sláturúrgangi og 2.852 tonn af kjötvinnsluúrgangi. Um 33% af úrganginum falla til á Suðurlandi, 14% í Eyjafirði, 14% á höfuðborgarsvæðinu, um 8% í Borgarnesi og 31% dreifast á önnur landsvæði. Nefndin leggur til að byggð verði ný verksmiðja fyrir sláturúrgang á Suðurlandi. Því spyr ég hæstv. landbrn.:
  ,,1. Hefur landbrn. tekið afstöðu til skýrslu um hagkvæmniathugun á byggingu og rekstri kjötmjölsverksmiðju á Íslandi sem skilað var til ráðuneytisins á síðasta ári?
    2. Telur ráðherra að til greina komi að reist verði slík verksmiðja hér?``