Bygging kjötmjölsverksmiðju

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:39:54 (2187)


[15:39]
     Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin. Ég bendi á að ég tel að æskilegt sé að landbúnaður og umhvrn. vinni að þessum málum saman og að stofnað verði félag um vinnsluna með sem víðtækastri þátttöku hagsmunaaðila. Það eitt er víst að nauðsynlegt er að opinberir aðilar komi að þessu verkefni. Úrgangsverksmiðju er ekki hægt að staðsetja hvar sem er og í skýrslunni leggur nefndin til að þessari starfsemi verði valinn staður á Hellu á Rangárvöllum og slátur- og kjötvinnsluúrgangur á öllu landinu verði unninn á einum stað. Á Hellu eru rekin tvö heils árs sláturhús, annars vegar fyrir stórgripi og hins vegar fyrir alifugla. Einnig er stutt í stór sláturhús og kjötvinnslur á Hvolsvelli og Þykkvabæ og á Selfossi. Það er mikið hagsmunamál bæði bænda og sveitarfélaga að koma slátur- og kjötvinnsluúrgangi í vinnslu og líkur eru á að kostnaður sláturhúsa og kjötvinnsla muni að jafnaði ekki hækka sem neinu nemur. Í dag er kostnaður sláturhúsa og kjötvinnsla milli 2--7 kr. á kg við flutning og urðun á úrgangi þannig að það gjald sem greiða þarf með vinnslunni er rúmlega núverandi kostnaður. Frá umhverfissjónarmiði verður seint metið til fjár ef tekst að stoppa urðun þessa úrgangs.
    Mikið er rætt um það í dag hvort Íslendingar geti haslað sér völl erlendis í krafti hreins lands og ómengaðrar framleiðslu matvæla og mikið er í húfi fyrir land og þjóð ef Ísland getur fengið þann gæðastimpil sem við keppum að. Á næstu árum mun eftirsókn aukast í matvæli sem koma úr hreinu og óspilltu umhverfi og fyrir þau mun fást betra verð. Við verðum því að halda vöku okkar í umgengni okkar við landið. Ef við ætlum að kalla okkur umhverfisvæna þjóð og leggja áherslu á útflutning hágæðalandbúnaðarvara er mikilvægt að við tökum á þessu brýna máli.