Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:43:19 (2189)


[15:43]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Fjórða ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna verður haldin í Peking dagana 4.--15. september 1995. Eins og jafnan er háttur á verður ráðstefna frjálsra félagasamtaka samhliða opinberu ráðstefnunni og hún verður haldin 30. ágúst til 8. september. Fyrri ráðstefnur voru haldnar í Mexíkó árið 1975 við upphaf kvennaáratugar, í Kaupmannahöfn árið 1980 og við lok kvennaáratugar árið 1985 í Nairobi. Það er kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna sem sér um undirbúning ráðstefnunnar.
    Þessi ráðstefna telst vera milliríkjaráðstefna og því mjög mikilvægt að þannig sé að undirbúningi

staðið hér á landi að afstaða íslenskra stjórnvalda til réttindamála kvenna einskorðist ekki við íslenskar aðstæður og málefni íslenskra kvenna þó svo að sá þáttur undirbúningsins hljóti alltaf að verða nokkur. En meginverkefni þessarar ráðstefnu er að skoða hvort og að hve miklu leyti tekist hefur að hrinda í framkvæmd ákvæðum Nairobi-skýrslunnar og samþykkja nýja framkvæmdaáætlun þar sem mikill áhugi er á því að gera hana skýrari og meira ákvarðandi um aðferðir og stofnanir samfélaganna þannig að meiri líkur verði á því að hún verði að raunhæfum aðgerðum til handa konum. Ég hef því leyft mér, hæstv. forseti, að bera fram fyrirspurn á þskj. 122 til hæstv. utanrrh. og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hvað hefur verið gert af hálfu utanrrn. til undirbúnings ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking 1995 um málefni kvenna?
    2. Hverjir standa að undirbúningi ráðstefnunnar?
    3. Hvernig verða valdir fulltrúar til setu á ráðstefnunni fyrir Íslands hönd?
    4. Hefur verið haft samráð við stjórnmálaflokka og kvennahreyfingar um undirbúninginn?``