Framlagning skattafrumvarpa og störf þingsins fram að jólahléi

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 13:35:58 (2199)


[13:35]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í dag er 6. des. og samkvæmt starfsáætlun þingsins þá telst mér til að það séu níu til tíu dagar eftir fram að jólahléi. Staðan hér í þinginu er þannig að 2. og 3. umr. um fjárlög eru eftir og nú hefur 2. umr. fjárlaga verið frestað um heila viku. Það eru eftir 2. og 3. umr. um lánsfjárlög. Það eru eftir 2. og 3. umr. um aukafjárlög. Og síðast er það að nefna að skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar eru ekki komin fram og við höfum enn þá ekki séð frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem oftast kemur fram á fyrstu dögum desembermánaðar. Ég vil spyrja hæstv. forseta hverju þetta sæti, hvaða skýring er á því að skattafrumvörpin eru ekki komin fram og hvernig stjórn þingsins sér fyrir sér að störfum verði háttað fram til jóla miðað við þessa slæmu stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Ég held að þó oft hafi verið knappur tími, alla vega á þeim árum sem ég hef setið hér, þá hafi staðan sjaldan verið svartari en núna og við hljótum að spyrja hvernig stjórn þingsins ætlar að leysa þetta mál og hvaða skýring er á þessu ástandi. Er þetta fast í ríkisstjórnarflokkunum eða hvað er að gerast?