Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 13:54:44 (2208)


[13:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér er í rauninni á ferðinni einfalt frv., frv. til laga um heimild til sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Lyfjaverslun Íslands hf. Þetta er 242. mál þingsins og er að finna á þskj. 283.
    Frv. er afar einfalt, eins og ég sagði fyrr. Frvgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Fjármálaráðherra er heimilt að selja öll hlutabréf ríkissjóðs í Lyfjaverslun Íslands hf.``
    Heyrir nú ræðumaður ekki í sjálfum sér lengur.
    ( Forseti (GunnS) : Forseti óskar eftir því að hv. þm. gefi ræðumanni gott hljóð.)
    Frv. er ekki lengra, Það er gildistökugrein 2. gr., en í athugasemdum við frv. er farið yfir sögu málsins og einkum og sér í lagi lýst hvernig staðið var að sölu þess hluta sem heimilt var að selja af hlutabréfum í þessu fyrirtæki með þeim lögum sem samþykkt voru og eru nr. 75/1994.
    Fyrirtækið Lyfjaverslun Íslands hf. var formlega stofnað hinn 1. júlí og tók þá við rekstrinum.
    Við sölu þeirra bréfa var stuðst við verðmat Kaupþings, en í því verðmati var lagt til að gengi hlutabréfanna yrði 1,34. Sú niðurstaða var yfirfarin af öðru verðbréfafyrirtæki, Handsali hf., sem staðfesti þessa niðurstöðu, og ákveðið var að bjóða hlutabréfin til sölu á því gengi. Ekki þarf að taka fram hvernig sú sala gekk. Hún gekk framar öllum vonum. Í raun höfðu undirbúningsaðilar talið að hægt væri að selja 20--60% hlutabréfanna á tilteknum tíma, en eftirspurn reyndist af ýmsum ástæðum mun meiri, sem trúlega er vegna þess að það skortir slík bréf á hlutabréfamarkaðnum um þessar mundir. Það er einmitt helsta ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég hef óskað eftir því með þessu frv. að heimild verði gefin til að selja það sem eftir er af hlutabréfunum af því að ég tel að ríkið, sem er eigandi bréfanna, muni fá betra verð fyrir bréfin nú heldur en ef dráttur verður á sölunni.
    Það stóð til, eins og kemur fram í fjárlagafrv., að leita eftir heimild í fjárlögum íslenska ríkisins, en þá hefði ekki verið hægt að selja þann hluta bréfanna sem enn er í eigu ríkisins fyrr en eftir áramótin, a.m.k. ekki hægt að staðfesta söluna þótt auðvitað sé hægt að hugsa sér það að selja bréfin með þeim fyrirvara að Alþingi samþykki síðar. Slíkt þekkist af fordæmum frá fyrri tímum.
    Á bls. 3., sem er fskj. með þessu frv., kemur fram skýring Kaupþings á því hvers vegna svo mikill áhugi var á bréfunum. Það var í fyrsta lagi hagstæð greiðslukjör, almennur áhugi á fyrirtækinu og vænting um góða arðsemi. Í þriðja lagi skattafsláttur, sem að sjálfsögðu gildir fyrir öll sambærileg bréf í öðrum fyrirtækjum einnig og loks að fjölmiðlar tóku vel við sér og auglýstu þessa sölu mjög rækilega.
    Ég vil bæta því við að ég hygg að menn leggi nokkurt traust á sölu eins og þessa þegar ríkið er annars vegar og um er að ræða ábyrga aðila eins og Kaupþing og Handsal, sem hafa lagt mat á gengi bréfanna eftir að hafa kynnt sér ítarlega rekstur fyrirtækisins í fortíðinni og nútíðinni og lagt mat á hugsanlega arðgjöf í fyrirtækinu á næstu árum. Auðvitað ber að segja frá því að það er talsverð áhætta fólgin í kaupum á þessum bréfum.
    Ég vil einnig taka fram að sala á þessum bréfum markast af því að verulegu leyti að í lögum nr. 75/1994 er gert ráð fyrir því að fyrirtækið lendi ekki í höndum samkeppnisaðila og ríkisstjórnin tekur að sér samkvæmt lagagrein að koma í veg fyrir að fyrirtækið lendi í höndum slíkra aðila. Til þess að tryggja það sem best var ákveðið að fara þá leið sem farin var að reyna eftir fremsta megni að gera eignaraðild að fyrirtækinu eins breiða og víðtæka og hægt væri.
    Komi til þess að þetta frv. verði samþykkt, sem ég á satt að segja von á að skilningur sé á á hinu háa Alþingi, þá er hugmyndin sú að salan fari fram með þeim hætti að leitað verði eftir áskrift á tilteknum tíma og kannað hve margir óska eftir kaupum og síðan verði ef óskirnar eru mun meiri heldur en framboðið á bréfunum, þá fari salan þannig fram að hver og einn fái hlufallslega það sem í boði er. Þetta fyrirkomulag tíðkast reyndar víða í öðrum löndum og okkur þykir eðlilegt að reyna það hér til þess að tryggja að sem allra flestir fái notið þess að gerast hluthafar í þessu félagi.
    Ég skynja það svo, virðulegi forseti, að ósk um að hafa lengri tíma í þessari umræðu hljóti að helgast af því að menn vilji gjarnan ræða önnur og skyld málefni og þá sérstaklega þá skýrslu sem liggur fyrir og Ríkisendurskoðun sendi nýlega frá sér um störf einkavæðingarnefndar og um sölu á eignum ríkisins á tilteknu árabili, nánar tiltekið árunum 1991 til miðs yfirstandandi árs. Ég fagna því satt að segja að slíkt skuli gert og tel fulla ástæðu til þess. Mér var kunnugt um það að forustumenn Framsfl. höfðu óskað eftir umræðum utan dagskrár um málið. Þeir féllu frá því vegna þess að þessi umræða var fyrirhuguð og ég á von á því að umræða geti þá orðið um þau mál undir þessum dagskrárlið á hv. Alþingi.
    Mig langar til þess að rifja upp, af því að ég hef heyrt þá gagnrýni að undir það hafi verið gengist á sínum tíma að selja ekki þessi bréf strax, og víkja umræðum sem áttu sér stað þegar málið kom úr nefnd á fyrra þingi. Þá kom fram fyrirspurn frá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur um það hvernig ráðherra hygðist bregðast við um framhaldið. Í svari mínu, sem flutt var 29. apríl, kom fram að um það væri ekkert hægt að segja á þeirri stundu því að það lægi ekkert fyrir í einstökum atriðum hvernig ráðuneytið hugsaði sér sölu fyrirtækjanna. Og síðan orðrétt, með leyfi forseta: ,,Þessi lagaheimild kemur og það fyrsta sem verður gert til að undirbúa stofnun hlutafélagsins og um söluna hefur ekki enn þá verið neitt ákveðið enda finnst mér það ekki vera viðeigandi að ég sé á þessu stigi málsins að ræða við einhverja aðila um að undirbúa sölu til ákveðinna aðila. Ég vil að það komi skýrt fram að um það hefur ekkert verið rætt við einn

eða neinn og ég áskil mér þann rétt að það fari fram með þeim hætti sem ég tel vera best viðeigandi, með vönduðum hætti, og þá er ég tilbúinn til þess að sjálfsögðu að svara fyrir það hvernig það mun ganga fyrir sig á hinu háa Alþingi næsta haust ef sala fer fram áður en þingið kemur saman.``
    Þetta var svar bæði um sölu fyrri hluta bréfanna, en í svarinu felst líka að það hafi ekkert legið fyrir um sölu síðari hluta bréfanna. Einungis lá fyrir, eðlilega, að það þyrfti að bera slíkt mál undir Alþingi áður en af sölunni yrði.
    Það er misskilningur og ég hef kannað það að um það hafi verið samið í sjálfu sér að eignaraðild ríkisins skyldi standa einhvern tiltekinn tíma. Niðurstaðan í hv. nefnd var, eftir því sem ég best veit, sú að helmingur bréfanna skyldi seldur strax eða það væri heimild til þess en hinn helmingurinn ekki fyrr en eftir að Alþingi hefði samþykkt þá sölu. Það var ekki tiltekinn neinn ákveðinn tími í því sambandi og ég tel satt að segja að sá tími sé nú kominn vegna þess að í ljós hefur komið að mikill áhugi er hjá almenningi fyrir þessum bréfum. Ég tel afar mikilvægt að þetta fyrirtæki verði frá upphafi almenningshlutafélag í besta skilningi þess orðs. Þess vegna er um það beðið í frv. að afgangurinn megi seljast nú fyrir áramótin.
    Varðandi skýrslu Ríkisendurskoðunar sem mig langar til þess að gera örlítið að umtalsefni vil ég segja að hún er mjög góður dómur um það hvernig tekist hefur til í einkavæðingu ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst, eins og kemur fram í skýrslunni, að gífurlegur munur er á framkvæmd sölu opinberra eigna, ríkiseigna, nú og áður. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er í raun dæmi um þetta enda byggir skýrslan fyrst og fremst á bókunum einkavæðingarnefndar sem hefur haldið mjög góða skrá yfir það sem hefur gerst um sölu ríkiseigna á meðan nefndin hefur starfað. Það er hins vegar rétt að augu fjölmiðla og hugsanlega einhverra hv. þm. hafa beinst að örfáum atriðum sem Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemd við. Þeim atriðum hefur reyndar verið svarað af hálfu formanns einkavæðingarnefndar og ég tel að þau svör hafi verið efnisleg og hafi sýnt fram á að á þeim tíma sem ákvarðanir voru teknar hafi ekki verið hægt að búast við því að teknar væru aðrar og betri ákvarðanir. Við verðum að hafa það í huga þegar rætt er um störf Ríkisendurskoðunar að það er ávallt auðveldara að meta hluti eftir á. Þegar verið er að selja eignir eða ganga frá kaupum og sölum, gera samninga um sölu, þá verða menn að taka ákvarðanir á þeirri stundu sem þarf að gera en Ríkisendurskoðun, eins og aðrir þeir sem leggja mat á hluti síðar, nýtur þeirra forréttinda að sjálfsögðu að geta þá í ljósi þess sem á undan hefur gengið lagt mat á gang mála.
    Það er einkum eitt atriði sem menn hafa deilt um. Það er sala á Íslenskri endurtryggingu. Ég ætla ekki að gerast langorður um það mál, en þar hefur ágreiningurinn fyrst og fremst staðið um það hvort hægt væri að miða söluna við upplausnarbyrði fyrirtækisins, en því hefur verið svarað þannig af hálfu einkavæðingarnefndarinnar að ekki er hægt að bæta við það svar og ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram hafa komið af hálfu forráðamanna nefndarinnar.
    Það er ljóst af lestri skýrslu Ríkisendurskoðunar að vel hefur verið staðið að málum. Auðvitað er það svo að Ríkisendurskoðun sér ástæðu til að benda á nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara og kemur með ýmsar ábendingar sem ég veit að einkavæðingarnefnd mun að sjálfsögðu ræða og taka tillit til ef ástæða er til. Ástæðan fyrir því, eins og ég sagði áður, að Ríkisendurskoðun getur gert svo ítarlega skýrslu er sú að framkvæmdanefndin hefur haldið vel utan um þetta mál. Öll gögn eru til og fundargerðir eru haldnar með þeim hætti að skýrsla Ríkisendurskoðunar er nánast úrdráttur úr fundargerðum nefndarinnar. Framkvæmdanefnd var reyndar gefinn kostur á að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar áður en hún birtist og gerði ýmsar athugasemdir sem flestar voru teknar til greina áður en skýrslan var gefin út. Ég vil þess vegna taka það fram að ég tel að þessi skýrsla sér fyrst og fremst dómur um góð störf einkavæðingarnefndarinnar þótt auðvitað sé það svo í þessu verki eins og öllum öðrum að í einstaka tilvikum megi gera hluti öðruvísi og betur en þeir voru gerðir á sínum tíma. Þá er aðalatriðið að nefndin taki tillit til slíkra ábendinga og lagi framkvæmdina í framtíðinni.
    Í skýrslunni er því haldið fram að sala ríkisfyrirtækja hafi skilað ríkissjóði 826 millj. kr. Hér er um nettótölu að ræða því að þegar heildartalan er gefin, þá mun sala ríkisfyrirtækja á þessu tímabili skila líklega nálægt 2 milljörðum. Þá er tekið tillit til eignasölu ríkisins, söluandvirðis í eignum Ríkisskipa, Menningarsjóðs og þeirra hlutabréfa sem þegar hafa verið seld í Lyfjaverslun Íslands.
    Það vekur dálitla athygli að í niðurstöðum skýrslunnar er ekki getið um það sem hins vegar kemur fram í skýrslunni sjálfri, að ekki ber eingöngu að líta á eignasöluna sem slíka heldur þarf einnig nauðsynlega þegar þessi mál eru til umræðu að skoða það hvað ríkið sparaði mikla peninga á því að selja viðkomandi fyrirtæki. Til þess að taka það dæmi sem oftast er tekið og sýnir þetta mjög vel, þ.e. Skipaútgerð ríkisins, þá rifja ég það upp að á árinu 1991 hygg ég að það fyrirtæki hafi fengið beint úr ríkissjóði líklega um það bil 140 millj. kr. en sé tekið meðaltal líklega tíu árin þar á undan og þau færð upp til núvirðis þá lætur nærri að árlegt framlag ríkisins hafi verið 360 millj. kr. til fyrirtækisins. 1 millj. á dag alla daga ársins, jafnt þá virku sem þá helgu. Það er auðvitað árangur fyrir ríkið að losa sig við útgjöld af þessu tagi og ber auðvitað að telja það til tekna eða lægri útgjalda þegar menn eru að meta áhrif og árangur af starfi eins og starfi einkavæðingarnefndarinnar.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er nokkuð rætt um verklag og verklagsreglur og þar er sagt réttilega að ríkisstjórnin hafi sett sér verklagsreglur, reyndar að tillögu einkavæðingarnefndarinnar, og það er talið mjög til fyrirmyndar. Ég vek athygli á því að Ríkisendurskoðun telur að þær reglur séu afar góðar og

gagnlegt að eftir þeim sé farið. Reyndar skal það tekið fram að Ríkisendurskoðun hélt því fram á sínum tíma þegar hún gagnrýndi sölu á SR-mjöli að ekki hefði verið nægilega vel farið að þeim reglum þá. Ég ætla ekki að rifja þá umræðu hér upp en því var svarað á þeim tíma hvernig á því stóð, enda var undirbúningur þeirrar sölu frá þeim tíma áður en reglan var sett í ríkisstjórninni sem var 12. okt. 1993. Fyrst ég nefni SR-mjöl harma ég það að þrátt fyrir þá hörðu gagnrýni sem Ríkisendurskoðun hefur orðið fyrir vegna skýrslu sinnar um SR-mjöl þá hefur Ríkisendurskoðun ekki séð ástæðu til þess að breyta í neinu áliti sínu á því máli í þessari skýrslu. Mér er þó kunnugt um að ýmsar mjög réttmætar athugasemdir hafi verið gerðar við fyrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á því fyrirtæki. ( Gripið fram í: Varstu ánægður með þá sölu?) Vegna þess að hér er kallað fram í hvort ég sé ánægður með þá sölu þá held ég eftir á að hyggja að fleiri og fleiri viðurkenni það að sú sala gekk mjög vel og á eftir að koma í ljós að hún verður íslenska ríkinu og ríkissjóði til heilla. Það sem helst var fundið að sölunni á sínum tíma var að verðið hefði verið of lágt. Þegar var verið að verðleggja það því haldið fram að verðið væri of lágt þá var miðað við þá loðnuvertíð sem var ein besta loðnuvertíð sem hér hefur komið, þ.e. síðustu loðnuvertíð. Nú er alveg óljóst um framhaldið og menn verða að gera sér grein fyrir því, jafnt hv. alþm. sem aðrir, að um rekstur er að ræða í loðnubræðslu sem stundum gengur vel en stundum afar illa og það verður einnig að líta til skattgreiðslna frá fyrirtækjunum. Þegar rætt er um skattgreiðslur er ekki úr vegi að minnast á skattgreiðslur fyrirtækis eins og Íslenskrar endurtryggingar sem farin er að greiða skatt en gerði það aldrei fyrr.
    Ég ætla ekki að gagnrýna það út af fyrir sig en það vekur athygli þeirra sem þekkja til að í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ekki fjallað um Lyfjaverslun Íslands, þótt ég telji að tækifæri hafi verið til, og það er ekki heldur fjallað um mögulegar breytingar á Brunabótafélagi Íslands sem nefndin vann heilmikið að en það mál fékk aðra niðurstöðu en til stóð á tímabili. Þá er ekki heldur fjallað um undirbúningsvinnu sem Ríkisendurskoðun hafði aðgang að um breytingu á formi Búnaðarbankans og Landsbankans, en ríkisstjórnin ákvað að fresta því máli sem kunnugt er.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er nokkuð fjallað um markmið einkavæðingar og það má helst skilja á Ríkisendurskoðun að það skorti skýr markmið. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þau markmið sem Ríkisendurskoðun setur fram fara nákvæmlega saman við það sem einkavæðingarnefnd hefur sett fram og ríkisstjórnin frá sínum sjónarhóli. Það er ekkert einfalt að setja fram markmið með einkavæðingu því að markmiðið eru mörg og stundum ólík. Það er ekki heldur hægt að gera upp á milli ákveðinna markmiða nema þá skoðað sé hvað sé verið að einkavæða, hvaða eignir sé verið að selja þá stundina.
    Ég vil nefna sem markmið með einkavæðingu að það er verið að draga úr umfangi ríkisins. Ríkisstjórnin er að efla einkaframtak og styrkja samkeppni. Það er verið að bæta fjárhag ríkisins, það er verið að efla hlutabréfamarkað og auka hlutafjáreign almennings og starfsmanna svo að nokkur mikilvæg atriði séu nefnd varðandi markmiðssetninguna. Öll þessi markmið hafa verið höfð í huga í einkavæðingarstarfi ríkisstjórnarinnar.
    Svo að ég taki næst á því að Ríkisendurskoðun hefur bent á að eðlilegt sé í útboðsgögnum að skýra rækilega hvaða sjónarmið ráði ákvörðun við val á kaupendum þá vil ég í því sambandi benda á að ég tek undir þetta og tel að standa eigi að málum með þeim hætti en auðvitað verður sá fyrirvari að vera fyrir hendi að ríkið geti áskilið sér sem seljandi rétti til að hafna öllum tilboðum eða taka hvaða tilboði sem er. Auðvitað er það svo með ríkið eins og alla aðra aðila að það er ekki hægt á öllum stundum að sjá fyrir hið óvænta.
    Ég ætla ekki að fjölyrða hér mikið um Íslenska endurtryggingu. Ég kemst þó ekki hjá því að rifja upp að umræður um þetta fyrirtæki fóru fram á hinu háa Alþingi vorið eftir söluna og nefnd hafði málið til meðferðar þannig að sú nefnd gat auðvitað rækilega kynnt sér kaupin og gerði það reyndar og í umræðum á Alþingi og í nefndarstarfinu er hvergi að sjá að nein óánægja hafi komið upp af hálfu hv. þingmanna um þetta mál. Þvert á móti er ástæða til þess að benda á að sumir hv. þingmenn voru mjög ánægðir með það hvernig að þessum málum hafði verið staðið og lýstu því reyndar yfir að þeir hefðu kynnt sér málið og talað við stjórnarmenn í fyrirtækinu. Það er auðvitað einfalt að koma síðan nokkrum árum síðar og segja: Það hefði átt að standa öðruvísi að sölunni. Þessu hefur öllu verið svarað, á það bent að eftir að sala fór fram af hálfu ríkisins til tryggingarfélaganna, þá var hlutur Eimskipafélags Íslands seldur í þessu fyrirtæki á nákvæmlega sama gengi og ríkið seldi á á sínum tíma. Allt þetta styður það að í raun hafi verðlagningin á hlut ríkisins í fyrirtækinu sem reyndar var sameignarfélag verið rétt þótt auðvitað sé það hins vegar rétt að ágóði fyrirtækisins á því ári sem þá var að líða hafi verið meiri en árin þar á undan. Það er eðli slíkrar starfsemi að stundum er ágóðinn mikill, stundum lítill og jafnvel getur eitt tjón leitt til þess að ágóðinn hverfi út í veður og vind. Og það er ástæða til þess að segja það hér þegar minnst er á endurtryggingarfélög að á sínum tíma starfaði endurtryggingarfélag Samvinnutrygginga. Það félag fór á hausinn á sínum tíma og það hefur ekki enn þá verið gert upp, 10 árum seinna. Fyrir 10 árum síðan fór endurtrygging Samvinnutrygginga á höfuðið og það eru liðin 10 ár síðan án þess að að sé búið að gera þrotabúið upp. Af hverju er ég að rifja það upp hérna? Ég er að sýna fram á hvað það er haldlítið að benda á að það eigi að selja hluti í slíkum fyrirtækjum á upplausnarvirði því að upplausnarvirðið er það að finna út hvers virði hlutur viðkomandi í fyrirtækinu er ef fyrirtækið er leyst upp. Það má ekki heldur gleyma því þegar rætt var um sölu á þessu tiltekna fyrirtæki að þá var það tilgangur sölunnar að tryggja það eins vel og hægt var að fyrirtækið héldi áfram starfsemi sinni og að fyrirtækið starfaði hér á landi.

    Ég segi þetta af því gefna tilefni að í skýrslum Ríkisendurskoðunar og reyndar hefur það komið fram síðar og kannski fremur síðar í orðum ríkisendurskoðanda að það hafi verið líkast til réttara að leysa fyrirtækið uppi og leyfa fyrirtækjunum að beina viðskiptum sínum til annarra og þá væntanlega erlendra aðila. Ég er ekki að gagnrýna ríkisendurskoðanda fyrir þessi sjónarmið. Ég er einungis að benda á að það sjónarmið Ríkisendurskoðunar þurfi ekki að vera það eina rétta. Reyndar hefur umræða orðið talsverð um Ríkisendurskoðun á undanförnum vikum og mánuðum. Því hefur stundum verið haldið fram að ég hafi hætt mér út á þverhnípið í þeim umræðum. Ég tel svo ekki vera. Ég hef haldið því fram að það sé afar brýnt að trúverðugleiki hvíli á þeirri stofnun af því að þetta er stofnun sem tilheyrir Alþingi og Alþingi þarf á því að halda. Ég ætla ekki að ræða um það mál hérna en ég kemst ekki hjá því að nefna viðtöl við tvo ráðuneytisstjóra, bæði ráðuneytisstjóra fjmrn. og ráðuneytisstjóra sjútvrn., Árna Kolbeinsson, sem benda einmitt á það að Ríkisendurskoðun í núverandi mynd undir stjórn Alþingis er ung stofnun og er að fóta sig áfram sín fyrstu skref og það geta þess vegna komið upp atriði sem verður að afsaka sem byrjunarörðugleika og það verður að taka tillit til slíks þegar menn fjalla um stofnunina. Það er í raun og veru mjög fróðlegt að lesa eftir þessa tvo menn sem hafa mikla reynslu í íslenskri stjórnsýslu þegar þeir fjalla um Ríkisendurskoðun. Og ég vil enn og aftur taka það fram að ég er ekki að gagnrýna Ríkisendurskoðun. Ég er einungis að benda á hve erfitt það er fyrir Ríkisendurskoðun að sinna þeim störfum sem alþingismenn, þar á meðal ráðherrar, hafa beðið Ríkisendurskoðun um að sinna og ætla ég nú ekki að fara út í það þegar menn halda að það sé hægt að fá upp á skrifað siðferðisvottorð hjá slíkri stofnun. Í reynd finnst mér að stundum hafi verið gengið allt of langt í þá átt að biðja Ríkisendurskoðun um að kanna, leggja mat á og segja álit sitt á hlutum sem í raun og veru eru ekki útreiknanlegir í orðsins fyllstu merkingu.
    Virðulegi forseti. Ég hef nokkuð rætt hér um skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég tel vera góða, mjög góða, enda byggist hún fyrst og fremst á gögnum frá einkavæðingarnefndinni. Auðvitað er sumt sem má gagnrýna en þegar í heild er skoðað það sem kemur fram í þessari skýrslu þá kemur í ljós að Ríkisendurskoðun leggur blessun sína á störf einkavæðingarnefndar að langmestu leyti.
    Það er kannski ekki úr vegi þegar rætt er um einkavæðingu og sölu fyrirtækja að rifja það upp að sú var tíðin að Ríkisendurskoðun skrifaði skýrslur um sölu fyrirtækja og gagnrýndi slíka sölu mjög harkalega. Við höfum dæmi um slíkt fyrirtæki sem var að hluta til selt í tíð fyrri ríkisstjórnar en að hluta til í þessari ríkisstjórn. Þetta er fyrirtækið Þormóður rammi og áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að ég er ekki að segja það sem ég ætla að segja hér til þess að gagnrýna einstakar persónur. Persónur og leikendur koma reyndar ekki þessu máli við, heldur er ég að sýna fram á hvernig vinnubrögðin hafa breyst í tímans rás vegna þess að það hefur verið tekið skipulegar á málum en áður. Það er athyglisvert að á sínum tíma gagnrýndi Ríkisendurskoðun söluna á Þormóði ramma fyrir það að almennra jafnræðissjónarmiða hafi ekki verið gætt í nægilega ríkum mæli við sölu hlutabréfa ríkisins í Þormóði ramma, m.a. vegna þess að sala hlutabréfanna var ekki auglýst opinberlega. Nú eru öll hlutabréfin í Þormóði ramma að sjálfsögðu auglýst til sölu í dagblöðum. Þetta er mikill munur. Á sínum tíma var jafnframt gagnrýnt af hálfu Ríkisendurskoðunar að það hafi ekki verið opinberlega greint frá þeim skilmálum og skilyrðum sem sett voru fyrir sölunni og í reynd gagnrýndi Ríkisendurskoðun tengsl á milli söluaðila og þeirra sem keyptu. Og þeir sem muna þessa gagnrýni geta einnig rifjað það upp fyrir sér að þá kom fram fyrirspurn um kaup frá 100 einstaklingum á Siglufirði en þeirri fyrirspurn var ekki ansað. Núna var gefin út ítarleg útboðslýsing þar sem allir skilmálar og skilyrði fyrir sölu voru kynntir. Einstaklingum er gefinn forgangur að bréfunum með því að takmarka sölu til hvers aðila um 250 þúsund.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar á sínum tíma kom í ljós að fyrirtækið þá hafði verið selt á 150 millj. kr. til ákveðins aðila á Siglufirði. Það var veittur margra ára greiðslufrestur á mjög lágum vöxtum. Ríkisendurskoðun taldi að virði hlutabréfanna hefði verið 250--300 millj. kr., helmingi hærri upphæð heldur en hlutabréfin fóru á. Og Ríkisendurskoðun gagnrýndi einnig að fjmrh. sjálfur og aðstoðarmaður hans hefðu séð um söluna en ekki einhverjir aðrir aðilar. Þessu hefur öllu verið breytt núna. Það eru löggilt verðbréfafyrirtæki sem sjá um söluna. Hlutabréfin eru verðmetin og öll hlutabréfin í Þormóði ramma voru staðgreidd og það er engin athugasemd gerð núna við sölu á þessum hlutabréfum. Svona mætti áfram telja. Og ég tek það skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna þáv. fjmrh. Ég er aðeins að sýna fram á hvernig í raun vinnubrögðin hafa breyst og sýna fram á það sem í raun stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það er sagt skýrum stöfum að einkavæðingarnefndin hafi staðið sig ágæta vel í sínu starfi. Það er meginniðurstaða skýrslunnar þótt auðvitað sé hægt að benda á nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara ítarlegar í skýrslu Ríkisendurskoðunar þótt ástæða hefði verið til. Ég tel hana mjög góða og gagnlega og ég tel að ýmsar ábendingar sem þar er að finna eigi fullt erindi til ríkisstjórnarinnar og einkavæðingarnefndarinnar og mun beita mér fyrir því að þær ábendingar verði teknar fyrir þar.
    Að lokum vil ég þó koma að því máli sem hér er til umræðu og óska eindregið eftir því að hv. Alþingi samþykki þá breytingu sem lögð er til í frv., þ.e. að heimilt sé að selja hlut ríkisins sem eftir er. Ástæðan er einföld. Hún er sú að ég tel að sú sala geti gengið hratt fyrir sig og hún þjóni þeim tilgangi sem er einn aðaltilgangur sölunnar að um víðtæka eignaraðild sé að ræða að fyrirtækinu. Það verði sett á stofn almenningshlutafélag í bestu merkingu þess orðs.
    Í lok ræðu minnar, virðulegi forseti, og harma ég nú að geta ekki notað allan þennan tíma sem ég

á eftir sem eru 26 mínútur og gef öðrum þann tíma eftir, þá óska ég eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. í trausti þess að hún undir góðri forustu formanns síns afgreiði málið fljótt og vel.