Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 14:30:05 (2209)


[14:30]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Síðustu orð hæstv. fjmrh. voru mjög athyglisverð þar sem hann sagði að með þessu frv. væri stefnt að því að eignaraðild fyrirtækisins yrði mjög almenn, þ.e. þetta yrði almenningshlutafélag. Og viðbrögðin þegar selt var síðast gæfu tilefni til þess.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann telur að þau kjör sem boðin voru við sölu hlutabréfanna, þ.e. að það væri hægt að kaupa hlutabréf fyrir 250 þús., borga aðeins 50 þús. kr. út nú fyrir áramót, fá við það skattaafslátt í framhaldi af því, hvort það muni ekki fyrst og fremst vera hugsað hjá þeim sem það gera að þurfa ekki að greiða nema 50 þús. út og ná þarna góðum skattafslætti, selja síðan hlutabréfin einhverju fyrirtæki sem verulega hefur hug á því að eiga þessi hlutabréf í framtíðinni. Ég veit að það er yfirlýst og var yfirlýst í frv. sem samþykkt var hér í fyrra að það væri stefnt að dreifðri eignaraðild og það var jafnvel talað um að ríkissjóður mundi eiga þessi hlutabréf eitthvað lengur. Nú er það svo að þetta fyrirtæki var ekki stofnað fyrr en 1. júlí sl. þannig að ríkissjóður er ekki búinn að eiga þetta mjög lengi, en mér sýnist að einmitt með þessum kjörum sem sett eru þarna upp muni það leiða til þess að eignaraðildin verði alls ekki dreifð því að þeir einstaklingar sem þarna eru að fjárfesta munu fljótlega losa sig við þessi bréf.