Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 15:06:04 (2214)


[15:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Á bls. 14 í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að Ríkisendurskoðun hafi talað við ýmsa þá sem starfa í fyrirtækjum sem áður voru ríkisfyrirtæki og þar segir að nefnd hafi verið þessi atriði til sögunnar:
    Meiri ábyrgðartilfinning stjórnenda og starfsmanna í sambandi við rekstur og afkomu fyrirtækisins sem þeir starfa hjá. Skjótvirkari ákvarðanataka. Stjórnendur einkavæddra fyrirtækja, sem rætt var við, töldu að ríkisfyrirtæki hefðu liðið fyrir seinvirka ákvörðunartöku sem hefði m.a. valdið stöðnun og leitt til úreltra vinnubragða. Nokkuð var um að stjórnarmenn í ríkisfyrirtækjum væru taldir hræddir við að taka áhættu.
    Meiri sveigjanleiki í starfsmannavali ásamt því að geta umbunað starfsmönnum fyrir vel unnið verk, annaðhvort í formi hærri launa eða annarra hlunninda.
    Allt er þetta talið upp sem árangur þess að menn hafi farið í einkavæðingu á tilteknum fyrirtækjum og þegar lesið er um áhrif og árangur og það sem sagt er í þessari skýrslu eins og t.d. um einkavæðingarnefndina sjálfa á bls. 7 þar sem segir: ,,Að mati stofnunarinnar eru þessar reglur [sem einkavæðingarnefndin starfar eftir] vel til þess fallnar að stuðla að vönduðum framgangsmáta þegar kemur að sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins.`` Þegar þetta er haft í huga ætla ég að spyrja hv. þm. sem er þekktur andstæðingur einkavæðingar, einn af fáum sem er fullur af heilagri vandlætingu þegar um er að ræða einkavæðingu: Er hann sammála þessum viðhorfum sem þarna koma fram? Er hann sammála þeim viðhorfum sem koma fram í skýrslunni að í megindráttum hafi einkavæðingarstefnan gengið vel og skilað árangri eins og þarna er sagt og víðar í skýrslunni?