Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 15:12:20 (2217)


[15:12]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég kann afar vel við vin minn hæstv. fjmrh. í þessum ham þegar hann er kominn aftur á kaldastríðsárin og málefnaleg rökræða af hans hálfu er í þessu formi sem hún var hér áðan. Vitnaleiðslur hæstv. fjmrh., eins og hann þurfi sérstaklega að standa í yfirheyrslum á vitninu Steingrími J. Sigfússyni til þess að fá fram hversu fornaldarlegar skoðanir hann hafi í viðhorfum til opinbers rekstrar og einkarekstrar, þær eru harla kostulegar. Staðreyndin er sú, hæstv. fjmrh., að ég hef hingað til getað talað fyrir mig sjálfan og ekki þurft hjálp til, hvorki frá hæstv. fjmrh. né öðrum. Ég leyfi mér að stinga upp á þeirri verkaskipting hér eftir sem hingað til að hæstv. fjmrh. svari fyrir sig og ég fyrir mig, hæstv. fjmrh. reyndi að verja sínar gerðir og ég standi fyrir mínum skoðunum. Það skal ég gera.
    Staðreyndin er auðvitað sú að það er kjaftæði að ég hafi verið einhver sérstakur andstæðingur einkavæðingar sem slíkrar. Ég tók m.a. fram í næstu ræðu á undan þeirri heimskulegu sem hæstv. fjmrh. hélt hér áðan að ég hefði ekkert athugavert séð við það að viss fyrirtæki væru einkavædd eins og Jarðboranir og Gutenberg og Ferðaskrifstofa Íslands þess vegna. Það hef ég margsagt og það liggur fyrir. Þetta eru því ekki merkileg vísindi sem hæstv. fjmrh. uppgötvar hér. En ég hef spurt í hverju tilviki, til hvers? Ég tel að það ráðist af eðli starfseminnar hvort skynsamlegt sé að hún sé rekin af einkaaðilum í ágóðaskyni eða ekki. Ég er á móti einkavæðingu í velferðarþjónustunni, það er rétt. Ég mun ekki samþykkja að t.d. einkaaðilum verði hleypt inn í viðkvæma þjónustu við almenning í velferðarkerfinu til þess að græða á því. Það stríðir gegn lífsskoðunum mínum. Það á ekkert skylt við einhvern afdankaðan kommúnisma eða miðstýringu ,,a la`` Evrópubandalagið eða eitthvað því um líkt. Það er bara mín grundvallarskoðun að ekki eigi að gera sér slíka hluti eins og heilbrigði fólks eða menntun að féþúfu. Og það skulum við ræða á þeim grunni og með rökum, hæstv. fjmrh., en ekki þessari afdönkuðu Heimdallarútúrsnúningatækni sem hér var uppi áðan hjá hæstv. fjmrh.
    Svo bið ég um orðið, hæstv. forseti, því ég hef mikinn hug á því að ræða þetta frekar við hæstv. fjmrh.