Lyfjalög

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:00:08 (2223)


[16:00]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Þar sem þetta mál er flutt af hálfu hv. heilbr.- og trn. var samkvæmt þingsköpum ekki gerð tillaga um að málið færi til nefndar að lokinni 1. umr. og um það var mjög gott samkomulag.
    Í framsögu minni fyrir málinu og í umræðum um málið við 1. umr. gerði ég ítarlega grein fyrir efni þessa frv. Ástæðulaust er að fara yfir það aftur núna. Ég vil samt geta þess að þetta mál hefur nú verið rætt á tveimur fundum hv. heilbr.- og trn. eftir að 1. umr. lauk þrátt fyrir að málinu hafi ekki verið vísað þangað formlega. Ég vil láta það koma fram að þeir hv. þm. sem standa að flutningi frv. með fyrirvara hafa ítrekað fyrirvara sinn þar í þeim umræðum sem þar hafa farið fram. Samt hefur ekkert það komið fram í umræðum og vinnu nefndarinnar sem gefur tilefni til að breyta um innihald frv. Því vænti ég að áfram geti verið góð samstaða að afgreiða þetta frv. sem lög frá Alþingi. Hér er stórt og alvarlegt vandamál við að etja sem verður að finna lausn á. Þetta er flókið mál en það sem er haft að leiðarljósi er að staðfesta í megindráttum þá skipan sem hefur gilt hér á landi um langt árabil um sölu dýralyfja á vegum dýralækna. Ég bind því vonir við að sú skipan, sem frv. kveður á um og við höfum góða reynslu af, og frv. til lyfjalaga í upphafi á síðasta þingi síðasta vetur gerði ráð fyrir, megi verða að lögum að lokinni 3. umr.
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki meira um þetta mál að segja að sinni en óska eftir að að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.