Áætlun um að draga úr áfengisneyslu

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:27:19 (2230)

[16:27]
     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 137 flyt ég ásamt þm. Birni Bjarnasyni, Petrínu Baldursdóttur, Önnu Ólafsdóttur Björnsson og Jóhanni Ársælssyni eftirfarandi till. til þál. um áætlun um að draga úr áfengisneyslu:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera nú þegar markvissa áætlun um hvernig megi ná markmiði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem ríkisstjórnin samþykkti árið 1986, um að draga úr áfengisneyslu um 25% frá þeim tíma til ársins 2000.``
    Á fundi ríkisstjórnarinnar 20. mars 1986 var eftirfarandi tillaga Ragnhildar Helgadóttur þáv. trmrh. um íslenska heilbrigðisáætlun samþykkt en hún hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin samþykkir að vinna að landsáætlun í heilbrigðismálum með hliðsjón af stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem nefnd er heilbrigði allra árið 2000 í þeim tilgangi að stórauka forvarnir gegn sjúkdómum og slysum ásamt örorku og ótímabærum dauðsföllum af þeirra völdum. Áætlunin skal taka mið af vörnum gegn langvinnum sjúkdómum og því að búa hinn vaxandi fjölda aldraðra undir gott heilsufar í ellinni. Forgangsverkefni í áætluninni skuli miðast við íslenskar aðstæður. Áhersla verður lögð á að kynna og efla heilbrigða lífshætti eftir því sem unnt er með stjórnvaldsaðgerðum og er óskað samstarfs við önnur ráðuneyti um framkvæmd verkefnisins. Heilbrrh. mun leggja drög að áætluninni fram í ríkisstjórninni innan tíðar.``
    Hér samþykkti þáv. ríkisstjórn að vinna að heilbrigðismálum á grundvelli stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, en eins og áður hefur komið fram var eitt af grundvallaratriðum hennar að stefna að því að draga úr áfengisneyslu um 25% frá því ári og fram til ársins 2000.
    Í framhaldi af þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar skipaði þáv. heilbr.- og trmrh., Ragnhildur Helgadóttir, starfshóp til þess að gera tillögur um aðgerðir sem væru aðkallandi og svo kostnaðarlitlar að unnt væri að hrinda þeim í framkvæmd mjög fljótlega. Á grundvelli þeirra tillagna lagði ráðherra fram skýrslu um íslenska heilbrigðisáætlun fyrir þinglok árið 1987. Þessi skýrsla var ekki lögð fram í formi þáltill. en sett fram þau markmið sem ríkisstjórnin taldi að rétt væri að stefna að í fyrsta áfanga. Þar er m.a. fjallað um skaðleg áhrif áfengis og segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Enda þótt heildarnotkun áfengis á Íslandi sé minni en í flestum löndum er það staðreynd að óæskileg heilsufarsleg áhrif áfengisneyslu eru mikil á Íslandi. Þess vegna verður að vinna að því að minnka heildaráfengisneyslu og útrýma ofneyslu.``
    Síðan var í lok næsta kjörtímabils, á þingi 1990--1991, lögð fram og samþykkt þingsályktun um íslenska heilbrigðisáætlun. Þessi samþykkt var gefin út árið eftir, 1992, til dreifingar fyrir almenning og segir svo í 9. tölul. þessarar heilbrigðisáætlunar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Draga þarf úr almennri neyslu áfengis og útrýma ofneyslu.
    Leggja skal sérstaka áherslu á upplýsingastarfsemi og hefja áróður gegn slæmum drykkjusiðum.
    Upplýsa þarf um heilsufarslegar afleiðingar áfengisnotkunar og auka ráðgjöf, m.a. til að greina áfengisvanda á byrjunarstigi.
    Stofna þarf til samvinnu milli heilbrigðisyfirvalda og félagasamtaka með það að markmiði að draga úr áfengisneyslu.
    Verð áfengra drykkja ætti að hækka stig af stigi næstu fimm ár umfram almennar verðhækkanir.``
    Í þessu plaggi eru einnig upplýsingar um ástand mála þá, í júlí 1992, og þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Margt má betur fara.
    Kannanir sýna að um 30% fullorðinna Íslendinga reykja samanborið við 40--50% fyrir fáum áratugum og um 80% neyta áfengis.`` Og enn fremur: ,,Sjúkrahús landsins eru um 40 talsins og þar eru rúm fyrir 3.700 manns. Ár hvert dveljast um 70 þúsund manns á sjúkrahúsum og meðallegutími eru 18 dagar. Eru þá ekki meðtalin um 950 rúm á áfengismeðferðarstofnunum og stofnunum fyrir þroskahefta.``
    Ég veit ekki af hverju þarna eru teknar saman áfengismeðferðarstofnanir og stofnanir fyrir þroskahefta, en sennilega mun rúmafjöldi skiptast nálægt því til helminga þar á milli, a.m.k. lágu fyrir upplýsingar um það fyrir nokkrum árum að fjöldi rúma á áfengismeðferðarstofnunum væri a.m.k. 400. En það á ekki síður við í dag en 1992 það sem stendur í yfirskriftinni að margt megi betur fara í þessum málefnum. Það ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um það við hv. alþm. því að í svo mörgum myndum blasir það slæma ástand við. Því kynnast m.a. þeir þingmenn sem sitja fundi fjárln. því að á hverju hausti koma fulltrúar margra félagasamtaka þangað, fulltrúar sem hafa á stefnuskrá sinni að hjálpa þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu eða hafa orðið undir í lífsbaráttunni. Erindi þeirra er að óska eftir misjafnlega háum upphæðum frá ríkisvaldinu til stuðnings því mikla sjálfboðastarfi sem þeir vinna fyrir hugsjónir sínar. Og þar er stór hópur þeirra sem á einhvern hátt er að glíma við afleiðingar áfengis- og fíkniefnaneyslu.
    Það gera sjálfsagt ekki nærri allir sér grein fyrir því hversu margþættar þær afleiðingar eru. Væri fróðlegt, og nauðsynlegt reyndar, að taka saman glöggt yfirlit yfir þær og jafnframt það fórnfúsa sjálfboðaliðastarf sem unnið er til bjargar. Það bætist við þá opinberu starfsemi sem unnin er m.a. í þeim fjölda á sjúkra- eða meðferðarstofnunum sem ég nefndi áðan.
    En ef dregin væri upp nægilega skýr mynd af þessum raunveruleika, þó erfitt sé sjálfsagt að koma honum fyrir í samþjöppuðu formi, þá væri ótrúlegt að margir hefðu kjark til að halda því fram að það væri bara gróði fyrir þjóðfélagið að auka áfengisneysluna. Þegar bent er á hinar geigvænlegu afleiðingar sem blasa við í þjóðfélaginu, svo sem vaxandi ofbeldi, margvísleg slys með limlestingum á öllum stigum og jafnvel dauðsföllum, upplausn heimila, sundruð hjónabönd þar sem afleiðingarnar bitna þyngst á börnum, þá segja flestir: Auðvitað viljum við gera allt sem við getum til þess að draga úr þessum voða, en því miður varir það hjá of mörgum aðeins þangað til kemur að því sem mestu máli skiptir, þ.e. að sýna þann vilja sinn í verki.
    Það hljóta allir að viðurkenna að börnin ráða því ekki í hvaða heim þau eru fædd eða alin upp á

bernsku- og unglingsárum. Að sjálfsögðu eru það foreldrarnir sem skapa hið nánasta umhverfi barnsins og unglingsins. Því miður virðist það vera mikill meiri hluti foreldra sem telur það allt of mikla fórn fyrir börnin sín að sýna þeim í verki að þeir telji áfengisneyslu til tjóns með því að neyta þess ekki. En reyndar er það ekki einhlítt að foreldrar geri slíkt. Það kom m.a. fram hjá ungum manni sem kom fyrir skömmu á fund fjárln. og lýsti þar þrautagöngu sinni vegna áfengisneyslu í fáum orðum. Foreldrar hans neyttu ekki áfengis en samt sökk hann svo djúpt af neyslu vímuefna að hann var á barmi örvæntingar. Hann sagðist auðvitað hafa byrjað á áfengi en síðan tóku önnur vímuefni við líka og allar tilraunir til að losna varanlega undan því oki urðu árangurslausar þangað til trúin kom honum til hjálpar.
    Í þessu sambandi er fróðlegt að geta þess að það eru ekki aðeins fíkniefni sem fylgja í kjölfar áfengisneyslu barna og unglinga. Í könnun sem gerð var í 8.--10. bekk 49 grunnskóla í nóvember 1991 kom fram að það reykja aðeins 1% þeirra nemenda sem aldrei drekka áfengi, 7% þeirra sem örsjaldan drekka, 28% þeirra sem drekka við og við og 54% þeirra sem drekka vikulega. Þessi skýra staðreynd sýnir hvern þátt aukin drykkja barna og unglinga síðan bjórsalan hófst á í vaxandi reykingum þeirra.
    Að sjálfsögðu er það fleira en meðferð áfengis á heimilum sem hefur áhrif á afstöðu barna og unglinga til þess. Utan heimilis er það félagsskapurinn sem þau lenda í og er gjarnan mótaður af tíðarandanum. Það kemur m.a. fram í nýlegri könnun sem gerð var á vegum skólarannsóknarstofnunar. Og fáum blandast hugur um að dýrkun áfengisneyslu er mikil í samfélaginu. Fjölmiðlarnir ganga oft svo langt að segja að þeir séu að skemmta sér sem lenda í þeirri ógæfu að fremja voðaverk, enda er tíðarandinn gjarnan sá að það sé ekki hægt að koma saman á mannamót, hvort sem þau eru fámenn eða fjölmenn, án þess að áfengi leiki þar aðalhlutverkið. Frá upphafi til loka þarf það að vera í boði.
    Það munu líka allir hafa orðið varir við það að þeir sem neyta áfengis vilja að aðrir geri það einnig og oft býr líka gróðasjónarmið og hagnaðarvon að baki áróðri og sölumennsku. Það virðist ekki hafa mikil áhrif til varnaðar þó skýrt komi fram að áfengisneyslan fer ekki í manngreinarálit þegar um er að ræða hverjir verða þar undir. Við sjáum oft myndir í blöðum af frægum leikurum og öðrum listamönnum sem sagt er að hafi beðið þar lægri hlut með sundruðum hjónaböndum og margháttuðum slysum og sama gildir einnig um aðra á öllum stigum þjóðfélagsins. Það er því óhætt að fullyrða að ekkert eitt sem í mannlegu valdi stendur að hafa áhrif á veldur eins miklum þjáningum og neysla áfengis og annarra vímuefna sem í kjölfarið fylgja.
    En hvað er þá til ráða? Eigum við að gefast upp og segja að áfengisneyslan sé aðeins eins og hvert annað náttúrulögmál sem við getum engin áhrif haft á? Fáum eða engum mun detta í hug að með lagasetningu þýði að banna áfengisneyslu. Hins vegar getur komið fram í lagasetningu á margvíslegan hátt hvort ríkisvaldið vill að einstaklingar taki þátt í þeirri rússnesku rúllettu sem áfengisneysla tvímælalaust er þar sem allt of margir verða sárir eða falla í valinn.
    Á síðustu árum hefur víða risið svonefnd heilsubylgja þar sem fólk er í vaxandi mæli að hugsa um áhrif þess sem neytt er á heilsu sína. Hérlendis er líka farið að tala um að þarna gefist okkur nýir möguleikar með framleiðslu hollra afurða og möguleikar á að bjóða fólki að koma hingað til endurnæringar á lífi og sál.
    Það er með þessum rökum sem ég hef nú nefnt sem þáltill. um að minnka áfengisneyslu er flutt og í þeim tilgangi gert að Alþingi lýsi yfir vilja sínum til að draga með öllum tiltækum ráðum úr þeirri vá sem vímuefnin valda hvort sem það markmið næst að áfengisneyslan árið 2000 verði 25% minni en árið 1986 eins og þá var sett fram.
    Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. heilbr.- og trn.