Áætlun um að draga úr áfengisneyslu

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:47:24 (2232)


[16:47]
     Flm. (Jón Helgason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu tek ég undir með hv. 5. þm. Reykv. að það er gleðilegt að eitthvað dregur úr áfengisneyslu. En því miður hafa komið of margar fréttir um það að ekki muni öll áfengisneysla koma fram í skýrslum. Það var athyglisvert sem kom fram í sambandi við þá könnun, sem ég var að tala um að hefði verið gerð á neyslu unglinga, að unglingar sumir hverjir eru ekki farnir að telja áfengt öl sem áfengi. Þegar það stendur í ísskápnum við hliðina á mjólk og öðrum matvörum hættir það að verða í augum þeirra sem áfengi. Það hafði komið fram að sumir hverjir litu ekki lengur á áfenga bjórinn sem áfengi.
    Um auglýsingarnar vil ég aðeins segja að ég held að það fari ekki fram hjá neinum að mjög mikið birtist á prenti um áfengi. Það er æ algengara að í blöðum og tímaritum komi lýsingar á því hvaða áfengi eigi að nota og jafnvel gefnar út bækur með leiðbeiningum um það. Auðvitað eru þetta allt saman auglýsingar um áfengi þannig að það fer ekki á milli mála, hversu mikinn þátt sem umboðsmennirnir eiga í þessum útgáfum, að þetta er auðvitað allt í þeirra þágu.