Áætlun um að draga úr áfengisneyslu

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:49:47 (2233)


[16:49]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í greinargerðinni segir að umboðsmenn, seljendur, hafi runnið á peningalyktina varðandi auglýsingar á sterkum drykkjum. Í svari hv. þm. kemur fram að hann á við það þegar rætt er um mataruppskriftir og mælt með ákveðnu víni sem passar við tiltekinn mat, þetta við kæfu, annað við fisk og hitt við kjöt og eitthvað slíkt. Hann nefndi einnig bækur og væntanlega hefur hann þá hugann við blöð líka. Ég get engan veginn séð hvernig menn ætla að komast fyrir þessa hluti. Þetta er eðlileg fræðsla hjá fólki og það var einmitt það sem ég hóf mál mitt á hér áðan að það ætti einmitt að fræða fólk um það hvernig það á að nota áfengi. Auðvitað er ekki hægt að stöðva það að hér séu skrifaðar upplýsandi greinar t.d. um sögu ákveðinna drykkja. Þetta er bara fræðsluefni, þetta er kennt hér í t.d. í veitingaskólunum og á auðvitað ekki að vera nokkrum manni skaði að því að kynna sér slíka hluti. Ég held að á þennan hátt komumst við aldrei fram hjá því sem ég vil kalla fræðslu og hætta fordómum gegn áfengi heldur kenna fólki frekar hvernig það á að umgangast áfengi.
    Auðvitað er rétt hjá hv. þm. að þær tölur sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins gefur út um neyslu eru bara tölur um selt áfengi á Íslandi og reyndar vantar töluvert upp á það því að það vantar það sem er selt til sendiráða t.d. og til skipanna. En það er líka rétt hjá hv. þm. að inn í þessa tölu vantar stóran lið sem er auðvitað brugg og annan lið sem er smygl. Þetta tvennt eru stórir þættir og þess vegna er myndin, sem dregin er upp af neyslunni, auðvitað ekki rétt. En það er líka athyglisvert að á sölu- og neyslutölum frá ÁTVR er miðað við aldur sem er langt undir lögaldri hvað varðar áfengisneyslu. Það er auðvitað íhugunarefni hvaðan þeir fá þá slíkar tölur.