Áætlun um að draga úr áfengisneyslu

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:52:08 (2234)

[16:52]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér til þess að lýsa yfir stuðningi við tillöguna eins og hún er sett fram þó að mér finnist ýmislegt í greinargerðinni orka tvímælis. Mér finnst tillgr., og það er hún sem skiptir máli, vera þess efnis að það er sjálfsagt og eðlilegt að styðja hana. Ég vil meina það að þó að e.t.v. sé hægt að sporna gegn áfengisneyslu eða minnka neysluna með því að fækka útsölustöðum eða veitingahúsum með vínveitingaleyfi sé það e.t.v. ekki rétta leiðin. Það er ekki rétta leiðin að auka boð og bönn, heldur fyrst og fremst fræðslu. Forvarnastarfið og fræðslan, 3. liðurinn sem nefndur er á bls. 3 í greinargerð finnst mér skipta langmestu máli því að áfengið sjálft er ekki endilega bölvaldur ef farið er með það á réttan hátt. Það er hins vegar með hvaða hætti við neytum áfengis og þær drykkjuvenjur sem tíðkast meðal unglinga og fullorðinna sem eru vandamálið.
    Fyrir skömmu heimsótti ég stofnun sem er hvorki stór né viðamikil, því miður kannski, en ég held að hún eigi eftir að vinna mjög gott og þarft verk ef Alþingi veitir stuðning til þess, það er Fræðslumiðstöð um fíkniefnavarnir sem staðsett er á Grensásvegi. Þar er unnið að því að skipuleggja forvarnastarf og fræðslu um skaðsemi vímuefna ýmiss konar. Ég kom þarna í fyrsta skipti og fannst starfsemin afar áhugaverð. Við höfum sett tiltölulega litla peninga í forvarnastarf. Mig minnir að áfengisvarnanefnd eða áfengisvarnaráð hafi fengið í kringum 20 millj. Það getur skakkað einhverjum milljónum til eða frá, en það er eitthvað nálægt því. Það segir sig sjálft að ef áfengisvarnaráð á að sinna forvarnastarfi m.a. í skólum landsins verður ekki mikið gert fyrir þessa upphæð enda hefur reynslan orðið sú að foreldrar hafa tekið höndum saman, myndað samtök eins og samtökin Vímulaus æska. Stöðvum unglingadrykkju, átakið sem þar er farið í gang, er að langstærstum hluta fjármagnað eftir öðrum leiðum en með framlögum frá ríkinu. Mér skilst að það sé þannig að t.d. við átakið Stöðvum unglingadrykkju sé einn starfsmaður og hann verði að sjá alfarið um það sjálfur að afla tekna til þess að hægt sé að greiða laun eða greiða fyrir auglýsingar eða annað sem þetta átak lætur frá sér fara.
    Ýmis félagasamtök eins og templarasamtökin hafa fengið einhverja smástyrki á hverju ári og auðvitað önnur æskulýðsfélög, sem hafa unnið mjög gott starf í forvarnastarfinu og í fræðslu um skaðsemi áfengis og annarra fíkniefni. Ég held að við ættum að einbeita okkur að því að setja þessa starfsemi alla á einn stað t.d. hjá Fræðslumiðstöð um fíkniefnavarnir, skipuleggja starfsemina um allt land þannig að hægt sé að afla þeirra upplýsinga sem til þarf. Þær liggja ekki fyrir og hefur reynst afar erfitt að fá að vita hvert raunverulegt ástand er. Hefur drykkja meðal unglinga aukist mjög mikið á undanförnum árum? Eru einhverjar tölur til? Eru einhverjar skýrslur til? Og þá byrjar gangan á milli stofnana til þess að fá þessar upplýsingar staðfestar og það er afar erfitt. Starfsmenn fræðslumiðstöðvar sögðu mér að það sem þeir væru að gera núna og hefðu verið að gera sl. ár væri fyrst og fremst að safna saman þeim upplýsingum sem liggja á hinum ýmsu stöðum m.a. um áfengis- og fíkniefnaneyslu unglinga.
    Ég tek undir tillöguna og tel hana mjög þarfa. Úr þessu verður líklega ekki hægt að afgreiða hana fyrir afgreiðslu fjárlaga en það þarf jafnframt að taka ákvörðun um að setja fjármagn í forvarnastarfið, í fræðslustarfið, því ef við byrjum strax að fræða unglingana og vinna með þeim held ég að þetta verði ekki það vandamál sem áfengið er í dag. Við höfum eytt gífurlegum fjármunum og þó ekki nærri nógu miklum í meðferðarstarfið á undanförnum árum og það sýnir okkur hve vandamálið er stórt. Til þess að koma í veg fyrir að vandamálið stækki enn meira og helst að það verði minna ættum við að leggja fyrst og fremst áherslu á að fræða unglingana og veita til þess fjármagn. Sem betur fer, og mig langar bara til að segja það hér þó að ég telji það aldeilis ekki til fyrirmyndar, ég tek það fram, af því að hv. flm. var að segja frá því að ekki mætti selja vín við hraðbrautir í Frakklandi, þá kom mér það mjög á óvart er ég var í Danmörku nú í haust og kom inn á bensínstöð að þar fór fram kynning á rauðvíni. Um leið og menn voru að taka bensín á bifreiðar sínar gátu þeir fengið að smakka rauðvín. Þá hugsaði ég einmitt að þó að við séum alltaf mjög óánægð með ástandið eins og það er hér er það ekki orðið svona slæmt og þetta er náttúrlega ekki til fyrirmyndar. En þessir siðir virðast vera uppi hjá nágrannaþjóðum okkar og alls ekki til fyrirmyndar.