Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 17:38:34 (2236)


[17:38]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég mun geyma flest atriði þar til síðar en það er eitt sem ég kýs að koma með í umræðuna nú þegar og það snertir það öryggi sem hv. þm. ræddi um og samninga milli fjmrn. og Lyfjaverslunar Íslands. Sá samningur var gerður 21. október á grundvelli laganna og liggur fyrir og hann tryggir að það liggi ætíð fyrir þriggja mánaða birgðir af sérstökum lyfjum sem tiltekin eru. Í öðru lagi skuldbindur Lyfjaverslunin sig til að haga framleiðslugetu fyrirtækisins þannig að unnt sé að starfrækja verksmiðjuna á vöktum allan sólarhringinn komi til neyðarástands. Í þriðja lagi er hægt að starfrækja bakvaktakerfið vegna almannavarna og í fjórða lagi tekur Lyfjaverslunin þátt í neyðaræfingum. Fyrir þetta borgar ríkið 2,9 millj. kr. á ári og samningurinn er uppsegjanlegur með eins árs fyrirvara af beggja hálfu. Undir samninginn rituðu fulltrúar Lyfjaverslunar Íslands, fulltrúar fjmrn. og vottar voru fulltrúar Almannavarna annars vegar og heilbr.- og trmrn. hins vegar. Ég tel því að þetta sé í mjög góðum farvegi og ég skal ganga eftir því að samningurinn verði sendur nefndinni þegar málið verður tekið fyrir þar.