Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 17:40:51 (2237)


[17:40]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það er sannarlega ýmislegt sem ég tel að þurfi að taka til umræðu í tengslum við það frv. sem er nú til umræðu um heimild til sölu á hlutabréfum ríkissjóðs í Lyfjaverslun Íslands hf. Ég vil fyrst segja það almennt að ég tel að það sem menn verði að huga að og horfa til þegar ríkisfyrirtæki eru seld eða fyrirtæki í eigu opinberra aðila sé að menn hafi skýra markmiðssetningu í því efni og það sé alveg ljóst hvert stjórnvöld stefna, hvað þau ætla sér þegar fyrirtækin eru seld ef menn telja á annað borð að það sé skynsamlegt að gera það.
    Við framsóknarmenn höfum fjallað og ályktað um það sem oft hefur verið kallað einkavæðing. Við gerðum það á flokksþingi okkar og þar mótmæltum við m.a. þessum fljótfærnislegu ákvörðunum ríkisstjórnarinnar sem hafa einkennt að verulegu leyti málsmeðferð hennar, hæstv. ríkisstjórnar, við einkavæðingu á þessu kjörtímabili. Hins vegar teljum við að einkavæðing geti verið réttlætanleg og geti átt sér stað sé markmiðssetningin skýr og séu aðstæður þannig í þjóðfélaginu að þær leyfi að ríkisfyrirtæki séu seld.
    Eitt af því sem við teljum að þurfi sérstaklega að hafa í huga í því sambandi þegar gengið er til slíkrar einkavæðingar er að hagsmuna þjóðarheildarinnar sé gætt sérstaklega og þess sé einnig gætt að allir aðilar njóti sambærilegrar þjónustu. Mig langar í sambandi við það að nefna sérstaklega það sem ríkisstjórnin hóf sína einkavæðingu á, ef hægt er að kalla einkavæðingu, að leggja niður Skipaútgerð ríkisins og hæstv. fjmrh. hældi sér nokkuð af hér áðan og taldi það hafa gefist vel. Náttúrlega er fyrst til að taka í því sambandi að við sölu á þeim eignum sem urðu eftir á rústum þess fyrirtækis þegar búið var að leggja það niður stóðu eignirnar ekki einu sinni fyrir skuldbindingunum og þeim skuldum sem á þessum eignum hvíldu sem ríkið þurfti að fá inn í kassann við þá einkavæðingu.
    Auk þess sýnist mér samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar að út af standi um 90 millj. kr.
    Í öðru lagi ræddi hæstv. fjmrh. um það hér áðan þegar hann mælti fyrir frv. í upphafi að það væri gríðarlegur sparnaður af hálfu ríkisins að losna við þann kostnað sem ríkið hefði auðvitað haft af rekstri skipaútgerðarinnar á ári hverju eða greitt með þeirri starfsemi. Þá má auðvitað segja það eins og með svo margt annað í opinberum rekstri að hægt er að spara með því að leggja niður þjónustu. Auðvitað er hægt að spara í skólum með því að loka þeim. Það er hægt að spara á sjúkrahúsum með því að loka eða hætta þjónustunni. Gott dæmi er um það núna í sambandi við sparnaðaraðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í sjúkrahúsamálunum þar sem menn hæla sér af því að það náist líklega að reka St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði með halla upp á 6--7 millj. í staðinn fyrir 17 eða 20 eða jafnvel 30 sem áætlað var í ársbyrjun. Og hvernig er það gert? Það er með því að hætta starfseminni, með því að banna læknum að vinna. Það er auðvitað ákaflega einfalt að hagræða og spara í opinberum rekstri með því móti. Þetta dæmi er raunhæft varðandi sjúkrahúsin og liggja fyrir skjalfestar upplýsingar um það hjá fjárln. að þannig hafi sparnaðurinn t.d. náðst í sjúkrahúsinu í Hafnarfirði að draga úr þjónustunni.
    Aftur að Skipaútgerðinni. Þar er náttúrlega alveg ljóst að þjónusta hefur gerbreyst og þjónusta hefur minnkað við þá landshluta sem áður nutu þjónustu Skipaútgerðarinnar. Mig langar aðeins að nefna sem dæmi um það að á norðausturhorninu þar sem Skipaútgerðin veitti nokkrum smærri stöðum mjög góða þjónustu hefur þjónustan flust til. Hún hefur flust af sjónum á vegina. Þar er nú mikill þungaakstur stórra vöruflutningabíla sem flytja vörur til og frá útflutningshöfnunum. Það þýðir náttúrlega að vegirnir eru að eyðileggjast. Þá hefði kannski verið rétt að nota eitthvað af þessum sparnaði sem hæstv. fjmrh. er að hæla sér af til þess að laga svolítið vegakerfið svo að það geti tekið við þessari þjónustu. En það er ekki heldur svo. Við erum í þeirri klípu að við stöndum frammi fyrir gífurlegum kröfum um uppbyggingu þjóðvegakerfisins. Sparnaðurinn er því ekki alveg einsýnn ef það þýðir að þjónusta er verri á einhvern annan hátt eða dregið er úr henni og þá ekki heldur mætt þeim nýju vinnubrögðum sem á að nota í staðinn fyrir þá þjónustu sem áður var veitt.
    Ég tel að þetta sé það sem við þurfum að huga fyrst að þegar gengið er til einkavæðingarinnar eða að því að selja opinberar stofnanir, að fyrir þeim sjónarmiðum sem ríkið hefur tekið að sér og verið að þjóna með rekstri þessara stofnana áður sé sæmilega vel séð áfram. Við þurfum líka að gæta að því að nægjanleg og eðlileg samkeppni sé fyrir hendi á hinum frjálsa markaði. Það hafa svo sem vaknað spurningar varðandi sölu á því fyrirtæki sem hér er til umræðu um hvernig séð yrði fyrir þjónustunni og samkeppninni og hvort það yrði tryggt að Lyfjaverslun ríkisins færi ekki í hendur þeirra aðila, einstaklinga eða fyrirtækja, sem hafa verið samkeppnisaðilarnir á markaðinum áður.
    Í þriðja lagi höfum við framsóknarmenn lagt áherslu á það í okkar ályktunum að starfsfólkinu séu gefnir möguleikar á því að gerast eignaraðilar að þeim fyrirtækjum sem ríkið er að selja eða losa sig við og í fjórða lagi að markaðsaðstæður séu þannig að eðlilegt verð fáist fyrir eignirnar og sem minnst röskun verði á annarri atvinnuuppbyggingu. Það er kannski stóra spurningin núna. Eru í þjóðfélaginu í dag, eins og við vitum að ástandið hefur verið á undanförnum árum, markaðsaðstæður og aðstæður einstaklinga og almennings til þess að gerast eignaraðilar að slíkum fyrirtækjum réttar eða eru þær fyrir hendi eins og þær skyldu bestar vera? Ég leyfi mér að efast um að svo sé og ég leyfi mér að óttast það líka að þeir aðilar sem geta keypt ríkisfyrirtæki, ég tala nú ekki um þegar kaupverðið er farið að skipta mörg hundruðum millj. kr., sé ekki almenningurinn, séu ekki starfsmennirnnir, séu ekki einstaklingarnir í þessu þjóðfélagi heldur tiltölulega fámennur hópur sterkra fyrirtækja eða fjársterkra einstaklinga. Í því felst einkavæðingin sem við stjórnarandstæðingar höfum stundum leyft okkur að kalla einkavinavæðingu hæstv. ríkisstjórnar.
    Þetta eru dæmi um nokkur atriði sem ég tel að þurfi að vera undirstöðuatriðin og lögð til grundvallar þegar rætt er um einkavæðingu eða sölu ríkisfyrirtækja.
    Ef lesið er og gluggað í hvítbók hæstv. ríkisstjórnar, stefnuyfirlýsingu hennar, þá eru markmiðin sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi fyrst og fremst að bæta afkomu ríkissjóðs og bæta skuldastöðuna, draga úr skuldunum. Kannski hefur það tekist að einhverju leyti með sölu á Ríkisskipum þó að það dygði samt ekki til þess að losna við allar skuldirnar og ríkið stæði uppi með halla í því uppgjöri þegar öllu var til skila haldið. Það eitt að bæta afkomuna er náttúrlega ekki merkilegt markmið ef það er gert á þann hátt sem ég var að lýsa áðan að fyrst og fremst er dregið úr þjónustu en ekki þá séð fyrir því að þjóðfélagsþegnarnir búi við sambærileg skilyrði eftir sem og áður og að hagsmunum þjóðarheildar sé gætt.
    Síðan virðist það koma inn í forsendur hæstv. ríkisstjórnar þegar haldið er áfram að vinna við þessa sölu ríkisfyrirtækjanna að það sé meginmarkmiðið að ríkið dragi sig út úr atvinnurekstri og það beri að dreifa eignaraðildinni eða koma fleiri aðilum að þessum fyrirtækjum. Það kann að vera gott markmið líka út af fyrir sig ef gætt er heildarsjónarmiðanna. En það er ekki endilega sjálfgefið og nauðsynlegt að ríkið eigi að draga sig út úr atvinnurekstri, það sé prinsippið ef ekki eru önnur sjónarmið höfð í heiðri sem ég hef drepið á hér á undan.
    Ríkisstjórnin og sú nefnd sem unnið hefur að einkavæðingunni setti sér verklagsreglur og í þeim er út af fyrir sig ýmislegt gott að finna. Þar eru ákveðin markmið sett fram og heitið ákveðnum vinnubrögðum til þess að fylgja við sölu fyrirtækjanna en spurningin er hins vegar sú: Hefur þessum verklagsreglum verið fylgt og hvenær voru þær settar? Ætli það hafi ekki verið búið þá þegar að selja æðimörg af þeim fyrirtækjum sem nú þegar hafa verið seld þegar verklagsreglurnar voru settar og samþykktar í ríkisstjórninni 12. okt. 1993? Það er ekki fyrr en þá sem hæstv. ríkisstjórn staðfestir þessar reglur sem eiga að vera viðmiðið og eru m.a. eitt af því sem Ríkisendurskoðun gagnrýndi í sinni skýrslu og öðrum skýrslum sem Ríkisendurskoðun hefur frá sér sent um sölu einstakra fyrirtækja, að verklagsreglurnar hafi ekki verið skýrar og kannski ekki alltaf farið nægjanlega vel eftir þeim.
    Síðan má einnig nefna að það virðist svo sem á stundum sé hrapað nokkuð skyndilega að því að selja fyrirtækin og þá ráði meira einhverjar dagsetningar en það markmið að fá út úr fyrirtækinu það mesta fé og þá bestu skilmála sem ríkið ætti að sætta sig við. Okkur virðist að hægt sé að finna ýmis dæmi þess, ekki kannski síst söluna á SR-mjöli hf. Þá hafi dagsetningar, t.d. áramótadagsetningar, skipt máli til þess að geta staðið við einhver stefnumið ríkisstjórnarinnar um að geta sagt að svo og svo mikið hafi náðst að einkavæða á viðkomandi ári og sé þá fyrst og fremst selt sölunnar vegna en ekki með það að í huga að gæta sem ýtrast hagsmuna ríkissjóðs og þá auðvitað hagsmuna skattgreiðendanna og almennings í landinu. Það er að sjálfsögðu óásættanlegt að standa þannig að málunum.
    Nú virðist því miður einu sinni enn eiga að hrapa að sölu. Nú er uppi eitthvert ógurlegt kapphlaup um að það sé lífsspursmál að selja, helst fyrir áramót, það sem óselt er af hlutabréfum ríkisins í Lyfjaverslun Íslands hf. Langar mig þá aðeins að koma nánar að því frv. sem hér er til umræðu.
    Ég hefði, virðulegi forseti, gjarnan viljað að hæstv. fjmrh. gæfi sér tíma til þess að fylgjast með þessum umræðum þó að ég viti að hann hefur sjálfsagt í mörgu að snúast, en ef honum er svo mikið kappsmál eins og virðist vera og hæstv. ríkisstjórn að losna við þetta fyrirtæki og selja þau hlutabréf sem ríkissjóður á eftir í Lyfjaversluninni, þá finnst mér að hann ætti að sýna þeim hv. þm. sem eru að ræða þessi mál og hafa skoðanir á þeim og hafa kannski athugasemdir fram að færa við það hvernig að málum er staðið þann heiður að hlýða á mál okkar. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að ráðherra komi skjótlega í salinn aftur. Ég sé reyndar að hann er hér í hliðarherbergi.
    Ég ætla þá aðeins að ræða um þetta frv. nánar og efnisatriði þess. Hér er því t.d. haldið fram og fullyrt í greinargerð að gengi hlutabréfanna væri 1,34, það var sú viðmiðun sem hlutabréfin skyldu seld á. Ef tekið er tillit til þess hvernig salan fór fram og hvernig skilmála ríkið veitti þeim sem voru að kaupa, þá skilst mér að segja megi að gengið sé nær því að vera 1,20 en ekki 1,34 því að um það bil 90% þeirra sem keyptu þau hlutabréf sem boðin voru til kaups fengu þau á skilmálum þar verulegur hluti kaupverðsins var lánaður á vaxtalausum lánum sem hlýtur að þýða að þetta gengi hlutabréfanna, sem var þó gert ráð fyrir í verðmætamati Kaupþings, skilar sér ekki. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. um það hvort hann telji að þeir einstaklingar sem eru að leggja fjármuni í kaup á Lyfjaverslun ríkisins séu endilega með það að markmiði að efla og styrkja atvinnulífið og að þetta sé gert af áhuga fólksins til að taka þátt í atvinnurekstri og hvort nauðsynlegt sé að hvetja svo til sölu á hlutabréfum í fyrirtæki sem menn telja kannski að geti haft nokkra hagnaðarvon í för með sér að ástæða sé til þess að gefa þeim einstaklingum sem þarna eru að kaupa kost á skilmálum af því tagi sem þarna var boðið upp á. Ég leyfi mér að efast um að það sé almennt ásættanlegt að lána kaupverð hlutabréfa með þessum hætti til tveggja ára án vaxta. Það á alveg eins við um söluna á SR-mjöli sem mér skilst að hafi verið hliðstæð. Þar var, ef ég man rétt, einnig meginhlutinn af söluandvirðinu lánaður til allt að tveggja ára vaxtalaust og hæstv. fjmrh. leiðréttir mig þá ef það er rangt munað hjá mér að þannig hafi verið að því máli staðið.
    Síðan aðeins nánar um málsmeðferðina þegar verið var að fjalla um breytinguna á Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag og afstöðu okkar framsóknarmanna til þess máls. Ég lýst því yfir við 1. umr. um málið að út af fyrir sig værum við tilbúnir til þess að taka þátt í þessari umræðu og vinna að því að fyrirtækið yrði gert að hlutafélagi ef tilteknum ákveðnum skilyrðum yrði fullnægt. Við yrðum fullvissaðir um að staðið yrði við þann öryggisþátt, sem hæstv. fjmrh. var reyndar að lýsa áðan, að gert yrði samkomulag um það við þetta fyrirtæki hvernig það gegndi sínum skyldum og uppfyllti þær kröfur sem við höfðum áður gert til þess og það héldi áfram að vera þátttakandi í því að tryggja t.d. lyfjaafgreiðslu á tímum þegar Almannavarnir þyrftu að grípa inn í og það gegndi áfram sínu mikilvæga hlutverki á því sviði. Einnig að þetta fyrirtæki næði ekki einokunaraðstöðu gagnvart t.d. sjúkrahúsunum í landinu varðandi framleiðslu á lyfjum sem það framleiddi eitt og ekki önnur fyrirtæki. Síðar kom svo upp reyndar hugmynd um að hugsanlega mætti breyta starfsemi Lyfjaverslunarinnar þannig að það væri aðeins hluti af henni seldur eða lagður niður, þ.e. sá þátturinn sem var beinlínis í samkeppni við aðra aðila á lyfjamarkaðinum. Það varð hins vegar ekki niðurstaðan heldur var ákveðið að breyta fyrirtækinu í hlutafélag eins og menn þekkja og raun ber vitni og lögin um það samþykkt með ákveðnum skilyrðum sem við framsóknarmenn töldum vera grunn að því að við gætum stutt söluna. Það var m.a. að ekki yrði seldur nema helmingur hlutafjárins öðruvísi en leita samþykkis Alþingis fyrir sölunni að nýju. Einnig var ákvæði til bráðabirgða í lögunum sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra skal leggja fyrir Alþingi skýrslu um hvernig birgðahaldi fyrir Almannavarnir ríkisins, sem Lyfjaverslun ríkisins annaðist, verði háttað eftir stofnun hlutafélagsins skv. 1. gr. þannig að fullnægjandi öryggissjónarmiða sé gætt.``
    Hæstv. ráðherra gerði reyndar grein fyrir því hér áðan að það hefði þegar verið gerður samningur við fyrirtækið nýlega, núna í októbermánuði sl., en þinginu ekki enn verið gerð grein fyrir því og hefði það þó verið eðlilegt, en vonandi verður úr því bætt og þá komi skýrt fram hvað þar var á ferðinni og hvort Alþingi eða þeir sem studdu frv. með þessum skilyrðum telji að fullnægjandi sé frá því gengið.
    Reyndar var það nú svo að sumum þingmönnum sem tóku til máls um þetta mál í vor fannst að þó að frv. hefði e.t.v. skánað aðeins í meðferðinni þá væri svo sem ekkert tryggt um framhaldið og gæti verið að fljótlega yrði ráðist í það að selja afganginn af fyrirtækinu eða seinni helming hlutafjárins. Hv. þm. Páll Pétursson lét m.a. þau orð falla í umræðum í vor að ekki væri ólíklegt að því yrði lætt inn í 6. gr. fjárlaga kannski þegar um næstu jól og virðist hv. þm. hafa tekist að spá nokkuð um framtíðina hvað það varðaði að hæstv. fjmrh. hugsaði sér að gera aðra herferð að málinu. En það var alveg örugglega ekki skilningur okkar sem að þessu máli stóðum og leyfi ég mér að vitna m.a. til ræðu hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, sem hann flutti við 2. umr. um frv. í vor þar sem hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Gengið var til móts við þær skoðanir að ekki væri rétt að selja meira en helming hlutabréfa í fyrirtækinu og að frekari sala væri háð samþykki Alþingis. Ég vil taka það skýrt fram að ég skil það svo og vildi gjarnan heyra útskýringar hæstv. fjmrh. í því sambandi að engin frekari áform séu um það á þessu

stigi að leita eftir heimildum Alþingis til frekari sölu.``
    Síðar í ræðu sinni nefndi hann að rætt hefði verið um að við mundum sjá til um nokkurn tíma hvernig til tækist og hvernig hinu nýja félagi mundi vegna eftir sölu þess hluta hlutafjárins sem heimilað var samkvæmt gildandi lögum og reynsla yrði fengin á starfsemina áður en lengra yrði gengið. Með þessu frv. sem hér er flutt teljum við að nokkuð hafi verið gengið á svig við þessi viðhorf og þetta sjónarmið sem kom skýrt fram hjá ýmsum þingmönnum í umræðunni í fyrra og m.a. í þessari ræðu sem ég var að vitna til. Við hljótum því að verða að lýsa því yfir hér og nú að við urðum fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig hæstv. fjmrh. hugsar sér að standa að málinu núna og getum ekki lýst yfir stuðningi við þessa málsmeðferð eins og hún er sett fram í ljósi þess sem við sögðum í fyrra og vonuðumst til að staðið yrði við af hálfu hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórnar.
    Virðulegur forseti. Mig langar þá að fara örfáum orðum um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins sem ég er reyndar aðeins búinn að nefna áður í ræðu minni og hefur verið nefnt af nokkuð mörgum hv. þm. sem tekið hafa til máls á undan mér. Var boðað af okkar hálfu að við mundum gjarnan vilja að þau mál yrðu rædd einnig í tengslum við þetta frv. Ég verð að segja að ég get ekki alveg verið sammála hæstv. fjmrh. um að skýrsla þessi sé fyrst og fremst stimpill á það hversu vel hafi tekist til við einkavæðingu hæstv. ríkisstjórnar þó svo að kannski sé ekki sagt að allt sé ómögulegt og allt hafi gengið miður hvað það varðaði en vissulega er hér að finna ýmsar athugasemdir við framkvæmd málsins og við framkvæmd á sölu einstakra fyrirtækja.
    Ég hef þegar farið nokkrum orðum um söluna á Ríkisskipum, það var nú reyndar ekki sala á fyrirtækinu sem slíku heldur reyndar sala á eignum þess fyrirtækis eftir að rekstur þess hafði verið lagður niður og langar að nefna nokkur önnur dæmi hér sem eru dregin fram þar sem ég tel að ekki hafi verið staðið að málinu eins og æskilegt hefði verið og í samræmi við þær verklagsreglur sem ríkisstjórnin samþykkti þó seint væri eða í október 1993. Þar má t.d. nefna Þróunarfélag Íslands. Það er getið um að þar var alls ekki náð þeim hugmyndum um verðlagningu fyrirtækisins sem menn höfðu ímyndað sér og meira að segja framkvæmdanefndin sjálf hugsaði sér að verð gæti verið á bilinu 135--140 millj. kr., fyrirtækið er metið á 150--165 millj. en söluverðið ekki nema 130 millj.
    Það má kannski segja að þetta sé bitamunur en ekki fjár, hér sé ekki um stórar upphæðir að ræða sem ber í milli en þó er í verklagsreglunum talað um það varðandi söluna að meta skuli hvert tilboð og hafna þeim tilboðum sem ekki eru talin fullnægjandi og hlýtur það að verða að skoðast í hvert skipti hvort eignaraðilarnir þá og ríkisstjórnin sem fer með það umboð geti sætt sig við það og geti réttlætt það fyrir þjóðfélagsþegnunum, fyrir eigendum þessara fyrirtækja, að þau séu seld á því verði sem um er að ræða hverju sinni.
    Mig langar einnig að fara örfáum orðum um fyrirtækið Íslenska endurtryggingu hf. sem Ríkisendurskoðun gerir nokkrar athugasemdir við hvernig staðið var að málsmeðferð þar. Ég vil láta það koma hér skýrt fram að þegar frv. um að breyta Íslenskri endurtryggingu í hlutafélag var til umræðu á hv. þingi þá gerði ég grein fyrir því að ég gæti fylgt þeirri stefnu að gera fyrirtækið að hlutafélagi og þá þar með að gera það markaðshæft. Ég lýsti því einnig yfir að ég hefði fylgst með málinu í gegnum stjórnarmenn í því fyrirtæki. Hitt vil ég láta koma skýrt fram að í þeirri umræðu var engin umræða uppi um sölu þess fyrirtækis eða að fyrirtækið hefði þá þegar verið selt og kemur það skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég hef ekki sjálfur farið yfir þau gögn eða lesið mér til í þingtíðindum en það kemur skýrt fram að það hafi ekki verið rætt um það þegar verið var að samþykkja lögin í aprílmánuði 1993 að sölusamningur hafi þá þegar verið gerður, að vísu með fyrirvara um það að lögin yrðu staðfest.
    Ég hef í dag aflað mér upplýsinga úr gögnum heilbr.- og trn. um það mál. Þar kemur ekki heldur fram að það hafi nokkurn tímann komið fram í nefndarstarfinu að búið væri að selja fyrirtækið, með þó þessum fyrirvörum, áður en lögin voru samþykkt. Í umsögnum sem nefndinni bárust um málið sem flestar voru jákvæðar og tóku undir að það væri eðlilegt að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag er hvergi nokkurs staðar minnst á það að búið sé að selja fyrirtækið og eru þó þessar umsagnir allar skrifaðar í mars og apríl 1993 en fyrirtækið var selt í desember 1992. Svoleiðis að þó að hér í umræðunni hafi verið lýst fylgi við þá skoðun og þá stefnu að gera þetta að hlutafélagi og þá síðar trúlega að selja það á markaði, þá var það hvergi komið fram að það kynni að vera uppi álitamál um það hvernig að sölunni var staðið og ágreiningur um verð eða a.m.k. uppi mikið álitamál um það verð sem fyrir þetta fyrirtæki fékkst.
    Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti, og eyða í örfáum mínútum vegna þess að ég tók þátt í þeirri umræðu og lýsti stuðningi við að fyrirtækið yrði gert að hlutafélagi og er það út af fyrir sig alveg í samræmi við það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að við framsóknarmenn höfum í ýmsum tilvikum fylgt því að ríkisstofnanir væru seldar. Við teljum að það sé ekki aðalmálið heldur það hvernig staðið er að slíkri sölu og þeirri tímasetningu sem valin er til þess að selja ríkisfyrirtækin.
    Þá má auðvitað einnig fara nokkrum orðum um söluna á SR-mjöli þó það sé e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn því svo oft áður hefur verið rætt um það ágæta fyrirtæki í þingsölum. Mig langar þó að bæta við þá umræðu aðeins því að eftir að dómur féll í málinu fór Ríkisendurskoðun yfir dóminn og bar hann saman við þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun hafði á sínum tíma látið frá sér fara og fengið alvarlegar ákúrur fyrir hjá hæstv. fjmrh. sem, m.a. í umræðum á Alþingi, lýsti því yfir að hann hefði áhyggjur af trúverðugleika stofnunarinnar og teldi jafnvel að stofnunin hefði með þeirri skýrslu skaðað sig verulega eða stórkostlega eða hvernig sem hann tók nú til orða á þeim tíma. En þá er það nú svo að æðimörgum athugasemdum Ríkisendurskoðunar er fylgt eftir og þær eru í raun staðfestar í þeim dómi sem féll um málið í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þessarar sölu. Ég ætla ekki á þessu stigi, virðulegur forseti, að eyða tíma í að lesa það upp en er með skjal fyrir framan mig sem Ríkisendurskoðun sendi Alþingi 6. júní 1994 og dró þar einmitt saman þær athugasemdir sem hún hafði gert við söluna og málsmeðferð og hvernig að því var staðið og bar þær saman við niðurstöður dómsins.
    Ég vil aðeins að lokum leyfa mér að árétta það aftur að ég held að það sé afar mikilvægt þegar við stöndum frammi fyrir svokallaðri einkavæðingu eða sölu á ríkisfyrirtækjum að þá sé þess gætt að unnið sé samkvæmt almennum sanngjörnum leikreglum og þess sé gætt, sem reyndar kemur hér fram í verklagsreglum ríkisstjórnarinnar og einkavæðingarnefndarinnar, að fyrirtækin séu ávallt auglýst, almennar aðferðir séu viðhafðar við söluaðferðina, að sölu sé ekki skilyrðislaust tekið hvernig svo sem verðið er og markmiðið sé ekki að selja eða einkavæða, markmiðið sé að gera betur en áður hafi verið gert og markmiðið sé að þjónusta betur þjóðfélagsþegnana og að við veljum réttan tíma þegar svona einkavæðingaráform eru viðhöfð. Veljum þá þann tíma þegar við teljum að aðstæður séu bestar í þjóðfélaginu.
    Ég leyfi mér að efast um það að það ástand hafi ríkt nú að undanförnu að fjármunum fjármagnseigenda í þjóðfélaginu hafi alltaf verið best varið með því að kaupa ríkisfyrirtækin. Þeim hefði e.t.v. verið betur varið með því að efla ýmsa aðra atvinnustarfsemi og skapa ný og fleiri atvinnufyrirtæki í landinu.