Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 18:14:16 (2238)


[18:14]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst eitt atriði sem ég vil nefna og ítreka enn á ný. Það varðar skilning á því hvenær og hvernig mátti breyta lögum til þess að ná fram heimild til sölu á helmingi hluts í Lyfjaverslun Íslands sem eftir stóð þegar búið var að selja fyrri hlutann.
    Í svari mínu sem hv. þm. nefndi sagði ég að á þeirri stundu sem það svar var gefið hefðu engin áform verið uppi um sölu á fyrirtækinu, hvorki fyrri partinum né síðari partinum. Ég hygg að ég hafi endurtekið þetta síðar í annarri ræðu af sama tilefni því ég hef lesið þessar umræður. Það er hins vegar rétt að hv. þm. Halldór Ásgrímsson orðaði sína hugsun en þótt hann segi það hér í ræðustól má ekki skilja það svo að ég sé bundinn af henni og það hefði orðið einhver samningur á milli okkar um það að ég hafi skuldbundið mig til þess að ríkið ætti fyrirtækið í tiltekinn tíma. Það var ekki hugmyndin. Mitt svar laut eingöngu að því að segja: Við samþykkjum að leita eftir heimild Alþingis þegar selja þarf síðari hlutann og það eru engin áform uppi um það hvernig að þeirri sölu, né fyrri hlutanum, verður staðið, enda hefði ég ekki talið það vera siðlegt að það hefði legið fyrir á þeim tíma án þess að ég segði nákvæmlega frá því.
    Varðandi dóm héraðsdóms vil ég eingöngu segja þetta: Í þeim dómi, sem fjallaði reyndar um sérstakt deilumál á milli tveggja aðila, er eingöngu vikið að einu atriði af átta sem gerðar voru athugasemdir við vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það sem ég segi er þetta: Ég tel að Ríkisendurskoðun skuldi einkavæðingarnefndinni og sölunefndinni skýringar á ýmsu því sem fram kom í þeirri skýrslu hennar og þess vegna var ég hissa á að sjá niðurstöðuna óbreytta í þessari nýju skýrslu.