Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 18:18:51 (2240)


[18:18]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Annað atriði sem ég vil gera athugasemd við í ræðu hv. þm. snertir sölu á hlut

ríkisins í Íslenskri endurtryggingu. Ég trúi því að sjálfsögðu sem hv. þm. sagði um bækur hv. heilbr.- og trn. en það kemur mér mjög á óvart að ekki skyldi liggja fyrir vitneskja í nefndinni um sölu fyrirtækisins þegar um söluna höfðu farið fram blaðaskrif í desember strax og salan átti sér stað og skýrslur lágu fyrir um þetta efni. Það segir mér kannski fyrst og fremst að menn hafi ekki fylgst nægilega með því hvað var að gerast og það undrar mig reyndar stórkostlega að nefndin skuli ekki hafa spurst fyrir um það því að auðvitað var stjórnarmönnunum öllum, ráðuneytinu sem fór með málið, heilbr.- og trmrn., og einkavæðingarnefndinni og öllum sem stóðu að frv. ljóst að búið var að selja fyrirtækið rétt fyrir jól og í stóru viðtali við Morgunblaðið er þetta eitt af helstu atriðunum sem þar kemur fram að það sé búið að selja fyrirtækið og það var reyndar gert með vitneskju Ríkisendurskoðunar því formaður einkavæðingarnefndar hringdi í ríkisendurskoðanda og það er allt til skjalfest frá báðum aðilum og ræddi við hann um það hvernig hægt væri að ganga frá sölunni áður en Alþingi hefði samþykkt frv. Þess vegna kemur mér þetta mjög á óvart þó ég rengi alls ekki hv. þm.