Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 18:47:57 (2243)


[18:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að láta það koma fram hér og nú í þessu andsvari mínu að það er aldeilis rangt sem látið var að liggja í ræðu hv. þm. að eitthvert samband væri á milli þess að Andri hf. hætti við að áfrýja máli sínu gagnvart ríkinu og þess að sjútvrn. eða fjmrn. hefði beðið um slíkt eða að einhver fyrirgreiðsla lægi þar að baki. Þetta er algerlega á ábyrgð og algerlega ákvörðun fyrirtækisins sjálfs. Það kann að sjálfsögðu að vera og ég kannast við það að það geta verið aðstæður á milli þessara tveggja fyrirtækja sem hafa ráðið einhverju um það, þ.e. SR-mjöls annars vegar og Andra hins vegar, en að opinberir aðilar eins og sjútvrn. eða fjmrn. blandist inn í það mál, svo er ekki. Það veit ég og við höfum aðeins fengið að fylgjast með þessu máli þegar okkur var skýrt frá því bréflega að Andri hefði ákveðið að áfrýja ekki málinu þannig að það er aldeilis rangt til getið að halda að ákvörðun Andra byggist á því að sjútvrn. hafi beðið um slíkt eða haft áhrif á þetta og svo eigi að hygla fyrirtækinu með einhverjum hætti síðar. Það er algerlega úr lausu lofti gripið ef skilja má hv. þm. ræðumann með þeim hætti sem ég hef hér gert.