Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 18:51:36 (2245)


[18:51]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að ítreka það enn á ný að það er ekkert samband á milli þessa máls og einhvers konar aðildar að sjútvrn. eða fjmrn. að einhverri fyrirgreiðslu fyrir SR-mjöl annars vegar eða Andra hins vegar. Við vitum að það er samkomulag á milli þessara aðila um ýmis mál og við vitum að ákvörðun Andra um að aðhafast ekkert og fara ekki í áfrýjun með mál sitt gagnvart ríkinu kann að tengjast því en það þýðir engan veginn það að sjútvrn. eða fjmrn. hafi haft afskipti af því máli eða séu með einhverjar skuldbindingar. Síður en svo. Það er mjög umhendis fyrir fyrirtæki að standa í málaferlum við ríkið, ekki síst þegar það er haft í huga að ríkið er líklegt til þess að vinna málið eins og kom fram í þessu máli sem snerti Andra og ríkisvaldið. Ég tek það skýrt fram, það er mjög erfitt að halda

slíkum málaferlum úti, það kann að vera dýrt og ég hygg að það hafi fyrst og fremst ráðið afstöðu Andra hf. þó að það sé annarra en mitt að segja til um það. Hitt get ég staðhæft að það er ekkert sem ég þekki til, hvorki hjá sjútvrn. né fjmrn. sem hægt er að bendla við þetta mál eins og hv. þm. virðist enn á ný ætla sér að gera.