Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 20:53:17 (2248)

[20:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru eitt eða tvö atriði sem mig langar til að svara strax í þessu andsvari. Í fyrsta lagi efast hv. þm. um að samkeppnin sé tryggð og ég verð að viðurkenna að ég get ekki gefið neina ábyrgðartryggingu fyrir því að svo verði ekki vegna þess að bréfin verða að sjálfsögðu til sölu, en ég vil hins vegar andmæla því að það séu rök í málinu sem gerst hefur í Bretlandi vegna þess að í Bretlandi hefur það gerst sem réttilega er sagt í skýrslunni að bréf hafa lent í höndunum á fjármálastofnunum. Það er oft þannig að stór fyrirtæki og fyrirtæki sem eiga í mikilli samkeppni eru í eigu fjármálastofnana og með því er hægt að tryggja fyllilega samkeppni því að aðalatriðið var að þessi bréf lentu ekki í höndum keppinautanna, þ.e. fyrirtækja sem væru í sömu grein. Þótt að því drægi að fjármálastofnanir keyptu einhver bréf þá er engin hætta í því fólgin. Þvert á móti og reyndar var um það hugsað í upphafi hvort ástæða væri til að selja kannski í heilum pakka ef ekki hefði náðst svona dreifð sala og bjóða þá stóran hluta til fjármálastofnana sem oft er gert þegar svona háttar til, t.d. lífeyrissjóða. Á þetta vildi ég benda.
    Þegar rætt er um hagnað og skatta og þess háttar mega menn ekki gleyma því að í sumum tilvikum er um stórkostlegan sparnað að ræða eins og margoft hefur verið sagt þegar minnst er á Ríkisskip í því sambandi, en á 10 ára tímabili lagði ríkið til í beinhörðum peningum sem svarar 1 milljón á dag alla daga, jafnt virka sem helga eins og áður kom fram í þessari umræðu.