Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 20:58:47 (2251)


[20:58]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. segir að nú sé hagstætt að selja bréf og þess vegna vilji ríkisstjórnin halda áfram þessari sölu. Ég held að ég hafi séð það í Morgunblaðinu í dag að það væri nokkuð truflandi fyrir hlutabréfamarkaðinn að ríkið væri að beita sér fyrir svona sérstökum ákvæðum við sölu hlutabréfa. Það nánast ruglaði markaðinn vildi forsvarsmaður Landsbréfa halda fram. Hann taldi að þetta ylli miklum sveiflum í sölu hlutabréfa og gæti haft þau áhrif að verðið félli jafnvel mjög mikið eftir áramótin. Ég hefði haldið að það væri ekki það sem hæstv. ríkisstjórn væri að vinna að, að koma í veg fyrir að stöðugleiki ríkti á þessum markaði og hún vildi helst að stöðugleiki ríki í þjóðfélaginu, en það virðist ekki vera samkvæmt því sem forstöðumenn þessara hlutabréfasjóða álíta nú. Þeir álíta að þetta hlutabréfaútboð verði til þess að stöðugleikinn minnki og jafnvel að þessi hlutabréf muni síðan lækka snögglega og jafnvel önnur líka.