Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 21:00:28 (2252)


[21:00]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er eitt gott við þetta frv. Það er leitað opinskátt eftir heimild Alþingis til þess að selja þessi hlutabréf og það er út af fyrir sig lofsvert. Alþingi veitir sennilega þessa heimild. Meiri hlutinn hefur þingræðislegan rétt til þess að hafa rangt fyrir sér og þar af leiðandi hefur ríkisstjórn sem styðst við þingmeirihluta náttúrlega góða von um að koma frv. eins og þessu í gegnum þingið. Þó að það væri svo að efi læddist að einhverjum af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar þá reikna ég með því að það færi fyrir þeim eins og þegar þeir létu hafa sig til þess að taka ábyrgð á öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar með því að vísa frá vantrausti á þá. Þetta er orðið agað lið nema rétt einstaka maður.
    Einkavæðingarsaga hæstv. ríkisstjórnar er í sannleika sagt alveg hroðaleg. Ráðherrar hafa purrkunarlaust afhent útvöldum eignir almennings á spottprís og oft án þess að leita heimildar Alþingis. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 247 frv. til laga um bann við sölu á eignum ríkisins án lagaheimilda. Þar segir í 1. gr. að fjmrh. eða viðkomandi ráðherra sé óheimilt að selja eftirtaldar eignir ríkissjóðs, ríkisstofnana eða sjóða í ríkiseign nema samkvæmt heimild í almennum lögum eða fjárlögum: a. fasteignir, b. hlutabréf eða eignarhluti í félögum, c. skip eða flugvélar, d. listaverk, listmuni eða söfn sem geyma menningarverðmæti, e. aðrar eignir sem hafa verulegt verðgildi.
    Þetta frv. er byggt á 40. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.``
    Nú eru þær sölur sem viðgengist hafa á undangengnum árum án lagaheimilda náttúrlega miklu stórfelldari en þó einhverjar fasteignir séu afhentar þannig að það er sannarlega þörf á þessu lagafrv. Ég vonast eftir að það verði gert að lögum í vetur. Því er hins vegar ekki til að dreifa eins og ég sagði um þetta frv. Hæstv. fjmrh. er sá maður að leita eftir lagaheimild í sérstökum lögum til að mega selja þessi hlutabréf. Enda var náttúrlega svo frá gengið við lagasetninguna í fyrra að fjmrh. yrði að leita samþykktar Alþingis ef hann vildi selja meira en helming af bréfunum. Ég bjóst reyndar við að þessi heimild yrði fengin á 6. gr. fjárlaga í ár. Ég vitna til Alþingistíðinda frá 26. okt. 1993. Eins og hæstv. 1. þm. Norðurl. e. rifjaði upp þá fór ég um það nokkrum orðum að ég byggist við að sjá á heimildargreininni annað haust heimild til að selja þessi bréf, þrátt fyrir það að stjórnarandstaðan hleypti þessu lagafrv. í gegn í trausti þess að þessi bréf yrðu áfram í eigu ríkisins. Ég þekkti nefnilega vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar. Þau ganga í stuttu máli fyrir sig með þeim hætti að fyrst er ríkisfyrirtæki breytt í hlutafélag. Það er ekki gert til að fá betri stjórn á hlutafélagi, nei það er síður en svo þó að stundum sé látið að því liggja með mjög ósæmilegum hætti af hálfu hæstv. ráðherra og talsmanna þessarar einkavinavæðingar að stjórnendur verði eitthvað betri ef þeir eru stjórnendur hlutafélags heldur en ríkisfyrirtækis. Þar með er náttúrlega ráðist með mjög ómaklegum hætti á fjölmarga ágæta forstöðumenn ríkisfyrirtækja sem hafa stjórnað þeim með mikilli prýði og þeim er gert það að þeir séu svo eigingjarnir og sérgóðir að ef þeir eigi hlut í fyrirtækinu sjálfir eða séu stjórnendur hlutafélags þá fari þeir að stjórna miklu betur. Þetta eru kaldar kveðjur til ágætra og prýðilegra stjórnenda.
    Nei, þegar ríkisstjórnin er að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög þá er það í fyrsta skrefi einkum gert til þess að stjórnarflokkarnir geti yfirtekið stjórnarsætin, ráðið stjórnum fyrirtækjanna alfarið. Í öðru skrefi eru hlutabréfin seld sérvöldum gæðingum hæstv. ríkisstjórnar og oftast á spottprís og síðan er ráðist á næsta fyrirtæki.
    Það hefur verið gerð skýrsla af Ríkisendurskoðun um sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins. Hæstv. fjmrh. var nú bara nokkuð ánægður með þessa skýrslu hér fyrr í dag í ræðu sinni. Þetta er nú svona ámóta og þegar hæstv. fyrrv. heilbrrh., Guðmundur Árni Stefánsson, var að skoða skýrslu Ríkisendurskoðunar um sitt siðferði og sín mál, þá var hann bara prýðilega ánægður með hana. Þetta eru nú menn sem kunna að bera sig vel. Auðvitað er þessi skýrsla, þó hún sé hógværlega orðuð hjá Ríkisendurskoðun, samfelldur áfellisdómur á framkvæmd einkavæðingar á vegum ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í.) Já, litlu verður Vöggur feginn.
    Reynslan af einkavæðingunni er náttúrlega hroðaleg. Það er að vísu ekki eingöngu við núv. hæstv. ríkisstjórn að sakast. Það hafa verið gerð tilhlaup til einkavæðingar fyrr, m.a. af ríkisstjórnum sem ég hef stutt og það er ekkert til að vera stoltur af. Ég nefni einkavæðingu Útvegsbankans. Það var nú ansi fjármálalega sniðug aðgerð fyrir ríkið hjá hæstv. fyrrv. viðskrh., Jóni Sigurðssyni. Ég nefni einkavæðingu Bifreiðaeftirlitsins. Ansi hefur það nú komið vel út fyrir fólkið í landinu að einkavæða Bifreiðaeftirlitið. Ég nefni söluna eða öllu heldur gjöfina á Þormóði ramma sem gerðist skömmu fyrir síðustu kosningar og Ríkisendurskoðun gerði um ágæta og sannverðuga skýrslu. Það er ekki til þess að vera stoltur af eða hvetja til frekari einkavæðingar.
    Hér hefur borið á góma Skipaútgerð ríkisins. Að vísu slapp ríkið væntanlega við einhver fjárútlát upp í taprekstur Skipaútgerðar, en jafnframt var líka minnkuð þjónustan, jafnframt var líka aukið álagið á þjóðvegakerfi landsins. Ég er ekkert viss um að það hefði verið óskynsamlegra fyrir samfélagið að borga ofurlítið með strandsiglingum Ríkisskipa heldur en að eyðileggja Skipaútgerðina. En einn aðili hagnaðist á því að leggja Ríkisskip niður og það var Eimskipafélag Íslands og það má kannski meta það nokkurs fyrir ríkisstjórnina.
    Það var ráðist á Síldarverksmiðjur ríkisins. Hér liggur fyrir okkur skýrsla um sölu ríkisins á SR-mjöli. Það væri náttúrlega efni í langa ræðu að fjalla um hvernig farið var að í því máli og það er ljót saga og sýnir hvað ranglátir ráðsmenn ríkisins geta farið illa að ráði sínu. Ég nefni Rafmagnseftirlitið, ég man ekki hvort nokkur hefur tekið Rafmagnseftirlitið til umræðu hér í dag. ( Gripið fram í: Það hefur alveg gleymst.) Þar var farið að hjálpa einkaframtakinu. Rafmagnseftirlit ríkisins var lamað og sett upp skoðunarstofa til að menn gætu þénað á að skoða rafföng og sinna hluta af því starfi sem Rafmagnseftirlitið átti að sinna og sinnti áður. Með þessu tókst að lama Rafmagnseftirlitið í landinu þannig að það hefur skapast af því raunverulega stórhætta. Svona getur einkavæðingarbrjálæðið gengið langt.
    Ég man ekki hvort menn hafa minnst á skipasölur hér í dag. Nýverið var afhent skip, Geir goði, með alveg einstökum kjörum á Suðurnesjum. Þar var útvalinn viðtakandi sem fékk skipið fyrir ekkert eða svo gott sem. Það fylgdi því töluverður kvóti. Menn hafa verið að tala hér um endurtrygginguna og málefni dagsins er náttúrlega Lyfjaverslun ríkisins.
    Ég sagði áðan að ég hefði séð það fyrir í fyrra og látið þess getið við 1. umr. málsins um Lyfjaverslun ríkisins hvernig mundi fara, þ.e. að heimildar yrði leitað fyrir næstu áramót til að selja það sem eftir væri af bréfunum. En það var eitt sem ég hafði ekki hugarflug til að sjá, ímyndunarkrafturinn var ekki nægur til þess að sjá fyrir mér greiðslukjörin, söluskilmálana. Það er nánast borgað með þessum bréfum. Það er út af fyrir sig ekkert undarlegt þó þau seljist þegar ríkið lánar fyrir þeim með þeim hætti sem gert var um daginn og það er nánast að það sé borgað með þessum bréfum. Þó er þarna um arðbæra eign að ræða sem hefur verið lagt í stórfé af almannafé að byggja upp á síðustu tímum.
    Mér leikur nokkur forvitni á að vita hvað eignir kolkrabbans hafa vaxið á stjórnartíma hæstv. ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Ég hygg að þar sé ekki um neinar smásummur að ræða og það kann að vera að það væri rétt að leggja vinnu í að að rifja það upp. Sjálfsagt eru aðstandendur kolkrabbans ánægðir með þessa ríkisstjórn og tilbúnir að leggja einhverja aura í kosningasjóð fyrir þá ríkisstjórn sem hefur fóðrað þá svona vel.
    Hæstv. fjmrh. er nú lífsreyndur maður og þegar hann var að ryðja sér til rúms í íslenskri pólitík þá talaði hann um ekki einasta leiftursókn gegn lífskjörunum heldur vildi hann líka báknið burt og enn er hann við kolann. Hann var svona á sinn máta nokkuð eins og Jóhannes skírari, hann var svona fyrirrennari og upphafsmaður að þessu með . . .  ( Gripið fram í: Ekki hálshöggvinn enn.) nei, en hver veit nema . . .  Ja, hét hún ekki Salome sem dansaði? og þá kynni nú að verða hálsliðum hætt hjá hæstv. fjmrh.
    En það sem ég var að segja var það að Jóhannes skírari var svona fyrirrennari meistarans og kannski koma enn þá svakalegri menn í stól fjmrh. á næstunni, þó ég voni að svo fari ekki. ( Gripið fram í: Ekki bera þá saman við Messías.) Ja, nei, en báðir boða trúarbrögð, báðir eru trúarbragðahöfundar, og sækja af mikilli hörku að útbreiða sína trú. Ég er ekki að spá því að Hannes Hólmsteinn lektor lendi í hlutverki meistarans.

    En ég legg sem sagt til, frú forseti, að þetta frv. verði ekki afgreitt á þessu þingi. Að vísu, eins og ég sagði í upphafi, þá hefur meiri hlutinn þingræðislegan rétt til þess að hafa rangt fyrir sér. En ég held að það væri öllum fyrir bestu að þetta frv. dagaði uppi á þessu þingi, hér kæmi ný ríkisstjórn með vandaðri viðhorf til þess sem henni er trúað fyrir, sem færi betur með eignir almennings heldur en þessi gerir. Og ég reikna ekki með því, ef sú lukka væri yfir okkur, að þannig ríkisstjórn yrði mynduð hér í landi að hún mundi ganga til að selja það sem eftir er af hlutabréfum ríkisins í Lyfjaverslun Íslands, því ég tel það mjög skynsamlegt að ríkið hafi einhver tök á lyfjaverslun í landinu.