Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 22:16:47 (2260)


[22:16]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Fáein orð í viðbót í þessari umræðu. Í fyrsta lagi vil ég koma því að hér að ástæðan fyrir því að hér var nefnt í frammíkalli að framsóknarmenn fengju stundum að vera með í vinahópnum þegar verið væri að skipa í þessar stjórnir sem handvalið er í frá hendi ríkisstjórnarinnar er sú að það vakti athygli mína og fleiri að bæði í stjórn SR-mjöls hf. og líka í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins voru valdir framsóknarmenn en ekki menn úr öðrum flokkum nema ríkisstjórnarflokkunum. ( JGS: Það er bara hæfni þeirra.) Hæfni framsóknarmanna er alkunn og nær auðvitað yfir öll mörk þannig að skýringin er þar fyrir hendi. (Gripið fram í.) Já, ég tel reyndar að það séu mörg spor aftur á bak að fara út í það að skipa stjórnir ríkisfyrirtækja með þeim einhæfa hætti sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur gert.
    Mig langar aðeins til þess að nefna það sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á fyrirtækjum í eigu ríkisins á bls. 14 sem reyndar síðasti ræðumaður kom að áðan en þó dálítið með öðrum hætti. Það er nefnilega sagt að Ríkisendurskoðun hafi kannað hvað stjórnendur fyrirtækjanna teldu að hefði breyst og það hefur komið fram í þessum viðtölum, stendur hér í bókinni, að sala á fyrirtækjum hafi leitt til ýmiss konar breytinga og m.a. voru eftirtalin atriði nefnd til sögunnar sem voru hér lesin upp áðan um meiri ábyrgðartilfinningu stjórnenda og starfsmanna í sambandi við rekstur og afkomu fyrirtækisins sem þeir starfa hjá, skjótvirkari ákvarðanatöku, stjórnendur einkavæddra fyrirtækja sem rætt var um, töldu að ríkisfyrirtæki hefðu liðið fyrir seinvirka ákvarðanatöku sem hefði m.a. valdið stöðnun og leitt til úreltra vinnubragða o.s.frv. Nú ætla ég ekki að lesa þetta allt saman en mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh. sem hér er staddur hvort hann sé þeirrar skoðunar að Sementsverksmiðja ríkisins hf., sem er alfarið í eigu ríkisins og hefur ekkert hlutafé í henni verið selt, hvort það sé mjög seinvirk ákvarðanataka og hvort það sé einhver sérstök ástæða til þess að stjórna fyrirtækinu öðruvísi heldur en hefur verið gert á undanförnum missirum. Þar hefur farið fram verulega mikil hagræðing og það hefur ekki verið skirrst við það að láta það koma mjög hart niður á starfsmönnum fyrirtækisins þannig að þeim hefur mörgum verið sagt upp og þeir látnir hætta og ég tel að það sé fráleitt að halda því fram að sú stjórn hafi ekki látið ákvarðanirnar ganga fyrir sig þrátt fyrir að þetta fyrirtæki hafi ekki verið selt og sé í eigu ríkisins. Mig langar til þess að heyra í hæstv. ráðherra með það hvort hann telji að það hafi verið hægt að gera betur en þarna hefur verið gert og hvort hann sjái ástæðu til þess að það hefði verið gengið lengra en stjórn fyrirtækisins hefur þó gert á undanförnum missirum til hagræðingar.
    Síðan gleymdi ég einu í ræðu minni áðan og það var það að ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um það og biðja hann að útlista það betur fyrir þeim hv. þm. sem fylgjast með umræðunni hvernig standi á því ósamræmi sem mér finnst vera í málflutningi hæstv. ráðherra og því sem stendur í helstu niðurstöðum Ríkisendurskoðunar í þessari bók sem við höfum hér undir höndum. Bókin er bara frá því í nóvember í ár en þar heldur Ríkisendurskoðun því fram að það séu u.þ.b. 800 millj. kr. sem ríkissjóður hefur haft upp úr krafsinu af einkavæðingu fram að þessu. Ég heyrði ekki betur en hæstv. ráðherra nefndi miklu hærri tölu áðan og ég bið hann að endurtaka þá tölu eða koma mér með öðrum hætti í skilning um það að samræmi sé milli þess sem hann talar um í þessu sambandi og því sem stendur í skýrslunni. Ég held að ástæða sé til þess að það komi fram ef þarna er einhver mikill ágreiningur á ferðinni milli hæstv. ráðherra og Ríkisendurskoðunar um það sem ríkið hefur haft upp úr krafsinu við að selja ríkisfyrirtæki á þessum tíma.
    Mig langar síðan til þess að nefna svolítið söluna á Rýni hf. Það er eitthvert allra mesta met í hagræðingu sem hefur líklega nokkurn tímann verið slegið. Það er þessi halarófuhagræðing sem ríkisstjórnin gekkst fyrir í sjávarútveginum sem fólst í því að koma á stofn sjö eða átta skoðunarstofufyrirtækjum og starfsmenn þessara skoðunarstofufyrirtækja keyra í halarófu allt í kringum landið og skoða bæði skip, báta, frystihús og fiskvinnslustöðvar um allt heila landið. Auðvitað benti stjórnarandstaðan ítrekað á það þegar þessi mál voru til umfjöllunar að þetta mundi verða glötunarleið sem þarna væri verið að fara, þetta mundi kosta miklu meira fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda og að lokum kæmi að því að við yrðum að setja upp ríkisfyrirtæki til þess að fylgjast með þessum skoðunarstofum til þess að erlendir aðilar mundu sætta sig við stimpla okkar og eftirlit með framleiðslu afurðanna. Hvað hefur komið á daginn? Þegar hafa

komið athugasemdir frá erlendum aðilum um að þessi einkavæddu fyrirtæki væru ekki nægileg trygging fyrir erlendu kaupendurna fyrir því að þessi vara væri nægilega vel skoðuð og menn heimta sem sagt og vilja að opinberir aðilar taki ábyrgð á eftirliti með framleiðslu sjávarafurða sem verið er að kaupa frá Íslandi. Sem sagt, menn eru komnir þarna í hring og nú þarf að fara að setja aftur upp ríkisstofnun til þess að hafa eftirlit með þeirri einkavæðingaruppfinningu sem þarna er á ferðinni.
    Þetta var auðvitað skelfileg glötunarbraut sem þarna var gengin. Hverjir verða svo að borga? Það verður aldrei gengið til baka að öllu leyti í þessu. Ég geri ekki ráð fyrir því að það verði þannig að menn leggi niður þessa einkavæddu starfsemi. Ég á ekki von á því. Ég á von á því að það verði frekar á hinn veginn að einu apparatinu í viðbót verði bætt við á vegum ríkisins til þess að fylgjast með og búið verði að auka þennan kostnað um helming eða meira þegar upp verður staðið og allt verða þeir aðilar auðvitað að borga sem þurfa á þjónustunni að halda.
    Síðan er kapítuli út af fyrir sig hvernig ríkið fór síðan út úr því að stofna þetta fína fyrirtæki sem það ætlaði að reka í samkeppni við einkaaðilana og ævintýrið kostaði litlar 16 millj. bara í útlögðum peningum sem þarna kemur fram. Auðvitað glataðist allt hitt líka sem ríkið var búið að byggja upp í því að reka þessa starfsemi ár eftir ár og lá auðvitað í þjálfun starfsmanna og þekkingu á öllu þessu sviði. Þetta er allt glatað og er ekki reiknað til verðs í skýrslunni.
    En nú er einkavæðingareftirlitsnefnd ríkisstjórnarinnar í gangi og væri gaman að því ef hæstv. ráðherra gæti sagt okkur eitthvað frá því hvar þessi mikla athugun stendur á svokölluðum eftirlitsiðnaði í landinu. Það er nefnd í málinu sem hæstv. forsrh. skipaði og hæstv. starfandi forsrh., sem hefur hlaupið í skarðið á meðan hæstv. forsrh. er í Kína og öðrum löndum að bjarga heiminum, hlýtur að geta sagt okkur hvernig gangi að endurskoða eftirlitsiðnaðinn í landinu og hvort við eigum von á einhverjum nýjum hugmyndum um það hvernig eftirlitsiðnaðinum verði best borgið. Kannski fáum við að sjá einhverja nýja halarófuhagræðingarhugmynd sem kannski eykur hagvöxtinn eitthvað svipað og þessi sem við höfum fylgst með frá því að þessi frv. voru lögð fyrir þingið á sínum tíma.
    Mig langar svo að lokum að nefna dálítið betur en ég gerði í ræðu minni í dag hvernig þessum málum lauk, þ.e. SR-mjöls málinu og þeim lokum málsins sem snúa að Andra hf. Ágreiningurinn var um söluna, stendur á bls. 19 í því skjali sem við höfum hér, sem leiddi til þess að Haraldur Haraldsson höfðaði mál til riftunar á þeim kaupsamningi sem gerður var. Héraðsdómur kvað upp dóm í málinu þann 3. júní 1994. Dómurinn taldi að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hefði ekki í öllum atriðum verið gætt sem skyldi. Hins vegar þótti ekki hafa verið sýnt fram á að frávikin hvert fyrir sig eða í heild sinni hefðu verið svo alvarleg að þau ættu að leiða til ógildingar á söluferlinu. Var því dómkröfum stefnanda hafnað.
    Síðan kemur í lokin: Fallið hefur verið frá áfrýjun málsins.
    Það var ekkert einhlítt í dómsniðurstöðunni sem þarna er verið að segja frá. Mörg atriði voru athugaverð að mati dómsins og forráðamenn Andra áfrýjuðu málinu. Hvað gerðist síðan í framhaldinu? Forráðamenn í Andra sömdu um það við forráðamenn SR-mjöls, sem voru orðnir nýir eigendur SR-mjöls, að falla frá þessum málarekstri. Hvers vegna? Ætli það þurfi að segja nokkrum lifandi manni það að þarna hafi ekki verið kaup kaups með einhverjum hætti? Hvor aðilinn hljóti að hafa fengið eitthvað fyrir sinn snúð? Það þarf ekki að segja mér það a.m.k. Um hvað snerist málið? Það snerist um það hvort það væri hægt að rifta þeirri sölu sem þarna var á ferðinni. Nú er ég ekki að halda því fram að forráðamenn Andra hf. hafi verið eitthvað vissir um það að málinu fengist riftað. Síður en svo. Þeir gátu náttúrlega ekki verið vissir um það úr því að Héraðsdómur féll þeim ekki í vil en þeir höfðu ástæðu til að halda að vafi væri í málinu eftir dóm Héraðsdóms. Málið sneri bæði að þessum nýju eigendum, SR-mjöli hf., sem töldu hagsmunum sínum ógnað ef salan yrði ógilt, og ríkinu og hæstv. ráðherrum sem tóku þá ákvörðun að selja eigendum SR-mjöls fyrirtækið. Ef Hæstiréttur hefði fellt þann dóm að gjörningurinn hefði allur verið ólöglegur hefði það verið mikill áfellisdómur yfir ráðherrunum og hæstv. ríkisstjórn. Mér er nær að halda að sá dómur hefði ekki orðið hæstv. ríkisstjórn í vil. A.m.k. finnst mér allt ferli málsins vera með þvílíkum eindæmum að ekki hefði átt að geta gerst að Hæstiréttur hefði talið að þarna hefði verið í lagi með hlutina.
    Ég geri þá játningu að lokum að ég tel að bæði ég og aðrir sem fjölluðum um þetta mál á hv. Alþingi höfum brugðist í því að bera ekki fram vantraust á ríkisstjórnina og ráðherra hennar, a.m.k. þá sem áttu beina aðild að því að málið fór með þessum hætti, salan á SR-mjöli hf. (Gripið fram í.) Ég tel að við höfum ekki borið fram vantraust á ríkisstjórnina af þessu tilefni sérstaklega og ég tel að það hefði átt að bera fram vantraust á einstaka ráðherra sem tóku þátt í þessum gerningi. Reyndar skrifuðu tveir hæstv. ráðherrar undir þennan gerning. Það voru hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, fyrir hönd fjmrh., þeir ganga í verkin á víxl, og hæstv. sjútvrh. En auðvitað tók ríkisstjórnin öll ákvörðun um að selja fyrirtækið á gamlársdag og spurningin er hvort ekki hefði átt að bera fram vantraust á hana alla vegna málsins. En mér finnst að með þvílíkum eindæmum hafi verið farið með eigur almennings í landinu með sölunni á SR-mjöli hf. að ég tel að ekkert orð sé of mælt til að koma því á framfæri við þjóðina að þarna hafi ekki verið rétt að staðið.
    Ef hæstv. ráðherra væri nú svo vænn að svara spurningu minni frá því í dag um það hvort hann telji virkilega að verklagsreglum einkavæðingarnefndarinnar hafi verið fylgt við söluna á SR-mjöli hf. þá þætti mér mjög vænt um að fá það svar vegna þess að sé það skoðun hæstv. ráðherra þá held ég að það

þurfi að skoða mjög vandlega verklagsreglurnar eða skoða hæstv. ráðherra vandlega.