Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:02:04 (2262)


[23:02]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra sífellt víkja sér undan því að svara þeirri spurningu hvort hann telji að það hafi verið staðið að sölu SR-mjöls hf. í samræmi við verklagsreglur einkavæðingarnefndarinnar.
    Ég hef ítrekað spurt að þessu og hef ekki fundið að hæstv. ráðherra hafi svarað. Ég ætla að reyna að endurtaka þessa spurningu einu sinni enn og biðja hæstv. ráðherra að segja okkur það hvort hann telji að það hafi veri fari að reglunum við söluna á SR-mjöli hf. Hæstv. ráðherra er yfir sig ánægður með það hvernig hafi tekist að þróa einkavæðinguna á tíma ríkisstjórnarinnar og það hlýtur að vera hægt að fá þá a.m.k. álit hans á einu máli af því sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að á þessu tímabili og hann getur útlistað það fyrir okkur hvort þar hafi líka vel tekist til. Hann talar um gífurlega byltingu í verklagi og verklagsreglurnar eru það sem ég er að spyrja um. Ég bið hæstv. ráðherra að víkja sér ekki unda því að svara þessu því ég tel að þetta sé stærsta málið sem hefur verið glímt við og það sé full ástæða til þess að hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvort hann telji að þarna hafi verið vel og eðililega staðið að hlutunum.