Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:03:50 (2263)


[23:03]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að ég svaraði ekki þessari fyrirspurn einfaldlega vegna þess að ég hygg að henni hafi verið svarað, a.m.k. hafi verið reynt að svara henni í mjög langri umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar um SR-mjöl á sínum tíma. Það var farið vandlega í gegnum þetta mál þá og því var lýst hvernig upphaf þessa máls um SR-mjöl mátti rekja aftur fyrir þann tíma sem reglurnar voru settar í ríkisstjórninni. Ég get alveg viðurkennt það að ég hefði kosið að sjútvrh. hefði afhent einkavæðingarnefndinni þetta mál til frekari úrvinnslu. Niðurstaðan varð hins vegar sú að hann kaus að setja sérstaka sölunefnd yfir þetta mál og hafa forræði málsins enn frekar í sinni hendi heldur en ella hefði orðið og þess skal getið að auðvitað hafa viðkomandi ráðherrar forræði mála yfir þeim fyrirtækjum sem þeim er trúað fyrir samkvæmt stjórnsýslureglum og ýmsum lögum. Ég hefði kosið það og ég tel að það hefði orðið affarasælla vegna þess að í einkavæðingarnefndinni og á hennar vegum eru starfandi aðilar sem höfðu þá ýmsa reynslu. Hins vegar voru í sölunefndinni menn sem höfðu ágæta reynslu af þessum málum og ég held að eftir á að hyggja sé hægt að segja að tiltölulega vel hafi tekist til um þessa sölu. En ég er alls ekki að halda því fram að hvert og eitt einasta tilvik hafi verið með þeim hætti að við mundum endurtaka það nákvæmlega eins í dag. Við erum að læra í þessum efnum. Hver einasta sala, ekki síst stór sala eins og þarna átti sér stað, verður þess valdandi að við fáum nýja reynslu, reynslu sem við söfnum í sarpinn og myndar enn betri verklagsreglur morgundagsins.