Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:12:18 (2268)


[23:12]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það fer nú fyrst og fremst eftir því hversu rismikill metnaður manna er hvað þeir sætta sig við að fá í einkunn. Ekki væri ég ánægður með það farandi með vandasamt mál af þessu tagi að rétt skríða á prófinu. Og hæstv. ráðherra veit nú hvað það þýðir ef ríkisstjórn fær falleinkunn. Það er tæplega til nema einn lýðræðislegur skilningur á því hvað gerist ef ríkisstjórn fellur á prófi, þá fer hún frá. Enn sem komið er hefur nú þjóðinni ekki hlotnast sú gæfa að ríkisstjórnin hyrfi frá.
    Ég hins vegar tel að það sé út af fyrir sig ekki ástæða til að þrátta um það að menn séu eitthvað að reyna að læra af reynslunni. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því í sjálfu sér að ríkisstjórnin sé eftir ítrekaðar ákúrur og harða gagnrýni vegna þess hvernig hún hefur staðið að mörgum málum að reyna að betrumbæta þau vinnubrögð. Ég segi nú bara skárra væri það nú, skárra væri það nú þó menn reyndu að láta ekki hluti gerast eins og þá sem áttu sér stað í sambandi við söluna á SR-mjöli og fleiri slík mál sem hér hafa verið til umræðu. Þannig að ég ætla að sjálfsögðu ekki að gera lítið úr því eða vefengja það að ríkisstjórnin sé með þessum verklagsreglum og öðru slíku á grundvelli athugasemda og aðfinnslna frá Ríkisendurskoðun og fleiri aðilum að reyna að lappa upp á vinnubrögðin í þessum málum. Ég segi bara skárra væri nú, ég endurtek það. Ég vek athygli á því að í raun og veru er verið að reyna að smíða þá hluti eftir á. Fyrst er vaðið af stað í einkavæðingarvitleysuna, að vísu ná menn litlum árangri, svo reka menn sig á veggina, stanga þá, og verða uppvísir að því að vinnubrögðin eru engan veginn nógu vönduð og þá er eftir á farið úr í það að reyna að búa til einhverjar verklagsreglur, setja sér markmið og enn þarf að bæta þar ýmislegt eins og Ríkisendurskoðun bendir á í sínum athugasemdum. Þannig að ég veit ekki hvort það er hægt að segja ríkisstjórn til hróss að hún sé undir lok kjörtímabils á síðustu lífdögum sínum sem betur fer að reyna að taka sig eitthvað saman í andlitinu í þessum efnum. Ég tel það ekki mikið til að hæla sér af.