Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:15:24 (2270)


[23:15]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég verð að segja að síðustu orð hæstv. ráðherra fundust mér afar ómakleg gagnvart 4. þm. Norðurl. e., því eins og við vitum hefði hann hefði hann haft nokkur tök á viljað eiga tækifæri á að verja sinn formann og fyrrv. fjmrh. Þannig að hér var ómaklega að málum staðið, hæstv. ráðherra. ( Gripið fram í: Við bíðum spennt eftir nýju tækifæri.) Já, tækifærin koma væntanlega. Eitt vil ég upplýsa þá hv. þm. Alþb. sem hafa talað um handskipaða stjórnarmenn framsóknarmanna í stjórnum núv. ríkisstjórnar að það hefur væntanlega farið fram hjá þeim, mér er óhætt að segja það hér held ég, ég held að það sé ekkert leyndarmál að Geir Gunnarsson var handskipaður í vor í stjórn Áburðarverksmiðjunnar eftir að henni var breytt í hlutafélag svo að ekki eru það nú eingöngu framsóknarmennirnir tveir sem hafa fengið að fljóta þarna með. Enda maðurinn þekktur af því að vera hæfur fjármálamaður og góður stjórnandi þannig að það var ósköp eðlilegt að hann fengi að fljóta með.
    En það voru nokkur atriði í ræðu hæstv. fjmrh. sem ég vildi gera athugasemdir við. Það er fyrst þegar hæstv. ráðherra fór því betur, það sýnir að hann fylgist með, að vitna í flokksþing okkar framsóknarmanna og í þá atvinnustefnu sem við settum þar fram. Þar sem málið er þeim sem hér stendur nokkuð skylt þar sem ég stýrði þeirri nefnd sem vann að þessu á flokksþinginu þá langar mig til að fá nánari útskýringar hjá hæstv. ráðherra á því sem hann átti við. Hæstv. ráðherra sagði að það gilti einu ef lífeyrissjóðirnir færu nú að verja hugsanlega einhverjum 5% af sínu ráðstöfunarfé til kaupa á hlutafé þá gilti einu hvort þeir keyptu ríkisfyrirtæki sem ríkið væri að selja eða hvort þeir fjármunir færu í uppbyggingu á nýrri atvinnustarfsemi. Ég vil eiginlega gera þarna eilítinn greinarmun á milli og spyr þá hæstv. ráðherra hvort hann hugsi dæmið þannig ef þetta skiptir engu að þeir fjármunir sem ríkissjóður mundi þá spara á sínum rekstrarreikningi samkvæmt þeim uppgjörsreglum sem við búum enn við og munum því miður búa við áfram, hvort þeim fjármunum yrði þá varið beint til nýsköpunar í atvinnulífinu. Á hann við það að þeir mundu þá koma til nýsköpunar í stað þess sem annars kæmi frá lífeyrissjóðunum? Ég geri mér að vísu fulla grein fyrir því að þarna losnar um ákveðna peninga en ég hef nú skilið hæstv. ráðherra þannig að þá fjármuni hafi ráðherra ætlað sér að nota til að spara í ríkisrekstrinum og það sé ekkert gefið að þeir peningar sem þannig sparast færu allir óskiptir í nýsköpun. Ég skildi því eiginlega ekki samhengið þarna á milli að fullu eða hvort trúin á einkavæðinguna er svona algjör.
    Aðeins varðandi Ríkisendurskoðun og þegar hæstv. ráðherra ræddi um að hér töluðu menn um Ríkisendurskoðun eins og guðlega áru. Það gerum við nú ekki hér. Mér hefur hins vegar fundist að hæstv. ráðherra hafi lesið upp úr áliti Ríkisendurskoðunar og lagt út af því eins og menn leyfa sér stundum að leggja út af guðspjöllunum. Hæstv. ráðherra lagði út af áliti Ríkisendurskoðunar út af þeim þáttum sem voru honum þóknanlegir. Svo ef einhverjir falla í þessa gryfju hér þá á hæstv. ráðherra það alveg sammerkt með þeim. Því miður hefur það gerst dálítið varðandi viðhorf ríkisstjórnar og einstakra ráðherra til álita Ríkisendurskoðunar að það hefur verið á þessa bókina lært að það eru gripnir upp einstaka kaflar sem eru þeim þóknanlegir úr skýrslunum og þeim er hampað og sagt það er í lagi og gott en annað er slæmt. Og á öðru ætti Ríkisendurskoðun nánast að biðjast afsökunar.
    En það sem varð aðallega þess valdandi að ég kom hér upp voru orð hæstv. ráðherra í þá veru að það væri blindur maður sem sæi ekki að á þessu kjörtímabili hefði verið breyting varðandi vinnubrögð við sölu ríkisfyrirtækja. Það væri illa komið fyrir hæstv. ríkisstjórn ef ekki hefði orðið á breyting einfaldlega vegna þess að á þessum árum höfum við verið í sameiningu á Alþingi að betrumbæta og smíða upp á nýtt þau tæki sem þurfa að vera til í þjóðfélaginu til þess að einkavæðing geti farið fram á þann hátt sem hæstv. ráðherra var að ræða um, hér væri einhver fjármagnsmarkaður fyrir hendi sem gæti gert það að verkum að hlutabréf tækju verð á almennum markaði. Þetta er ekkert nýtt í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar. Grunnurinn að þessu mestöllu var lagður af hálfu fyrri ríkisstjórna. Það hefðu því verið meiri ósköpin ef núv. hæstv. ríkisstjórn hefði ekki getað fikrað sig eftir þeirri braut áfram. Það var eitt af meginverkefnum efh.- og viðskn. Alþingis á tveimur fyrri árum þessa kjörtímabils að smíða upp á nýtt allar verklagsreglurnar um verðbréfamarkaðinn og Kaupþingið og allt þetta bixerí. Það væri illa komið fyrir ríkisstjórninni ef ekki hefði verið ákveðin þróun hvað þetta snertir á þessum árum. ( Gripið fram í: Að ógleymdum samkeppnislögunum.) Að ógleymdum samkeppnislögunum.
    En það sem upp úr stendur er að ríkisstjórnin hefur nánast ekki náð nokkru af þeim markmiðum sem hún setti sér í upphafi kjörtímabilsins varðandi einkavæðingu. Ég segi kannski því betur vegna þess að því miður hefur það orðið eins og ég sagði í dag og kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ríkisstjórninni hefur algjörlega mistekist að skilja á milli þeirra tilfella þar sem væri ástæða til að selja ríkisfyrirtæki og þeirra þar sem væri ástæða til að breyta forminu, gera það nútímalegra og sveigjanlegra sem hefur gert það að verkum að hæstv. ríkisstjórn er ekki treyst í málinu.
    Allir stóru þættirnir standa eftir sem þó hafa verið einhvern tímann á kjörtímabilinu höfð um stór orð um að breyta. Þar nefni ég ríkisbankana, Póst og síma og fjárfestingarlánasjóðina. Um allt þetta hafa hæstv. ráðherrar, einstakir ráðherrar og forsrh., haft uppi stór orð að ætti öllu saman að breyta í hlutafélag, þeir hafa að vísu sjaldnast verið sammála, ráðherrar ríkisstjórnarinnar, og að selja allt bixeríið líka. Það eru stóru mistök hæstv. núv. ríkisstjórnar, að hafa ekki náð að gera skörp skil, eins og ég sagði áðan, á milli þess sem eru fullar efnislegar ástæður til að selja og hins sem geta verið fullar efnislegar ástæður til að breyta rekstrarformi á en vera þó ekkert að flýta sér með sölu, hafa það í huga að ríkið ætti þær stofnanir áfram. Þær þeirra sem menn teldu að ætti að einhverju leyti að selja, að því á að standa þannig að mínu mati að byrja á því að setja lítinn hluta af bréfum í viðkomandi fyrirtækjum á markað og láta þau mynda verð. Nægilega mikið magn samt til þess að þau nái að mynda verð á markaði og þá komumst við fram hjá þessari stöðugu deilu um það hvort það sé verið að gefa eigur ríkisins.

    Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er á stundum einföldun að taka nafnverð hlutabréfa versus eigin fé. En ef menn vilja fá hið raunverulega verð þá er ekkert annað til ef menn trúa, sem ég reyndar geri, að hér þróist verðbréfamarkaður eða hlutabréfamarkaður en að láta þau mynda þar verð. Þá komast menn fram hjá þessum stöðugu deilum. Í því máli sem hér er verið að ræða er það mín bjargfasta skoðun að hagsmunum allra aðila sé best gætt með því að láta staðar numið, láta duga að selja helminginn, og því betur er það mjög dreifð eignaraðild, og sjá síðan til í framhaldinu hvaða verð þessi bréf fá á markaðinum og gefa sér þá um leið tíma til að átta sig á því hvort ástæða er til, sem ég tel reyndar nokkur rök fyrir, að ríkið eigi áfram í einu lyfsölufyrirtæki innan lands. Það væru verklagsreglur sem mér fyndist að væri fullur sómi að. Ekki það að hella sér út í að selja allt saman núna bara vegna þess að fyrri helmingurinn seldist vel sem getur, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni í dag, gefið vísbendingar um það, í það minnsta eru það hin venjulegu tákn sem menn telja sig sjá að góðar viðtökur, mikil sala og biðröð eftir bréfum þýði að hægt væri að selja viðkomandi eign á hærra verði. En í stað þess á að hella sér út í það einn, tveir og þrír að selja afganginn.