Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:26:29 (2271)


[23:26]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem ég átti við þegar ég sagði að það gilti einu hvort fólk keypti opinber fyrirtæki eða lífeyrissjóðir og aðrir settu peninga í fyrirtæki til þess að stofna til atvinnu og búa til störf var að það skiptir mjög miklu máli að fjölga eigendum fyrirtækjanna. Það má ekki gleyma því að það er hægt að nýta féð sem ríkið fær af sölunni til nota fyrir atvinnulífið eins og gert er að hluta til við þá fjármuni sem fást inn núna. Þeir eru notaðir til rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Þar kannski þarf einmitt að eiga sér stað vöxtur til þess að byggja upp það atvinnulíf sem við ætlum síðan að láta færa okkur bætt lífskjör.
    Ég tek undir það, ef ég skil hv. þm. rétt, að það er full ástæða til þess að breyta mörgum opinberum fyrirtækjum í hlutafélög og það er engin ástæða til að selja þau. Við höfum ekki selt Sementsverksmiðjuna, við höfum ekki enn þá selt Áburðarverksmiðjuna. En ég bendi á að á Norðurlöndum starfa yfirleitt öll opinber fyrirtæki, sem eru fyrirtæki eins og þau sem eru á markaði, í hlutafélagsformi. Það er auðvitað ekki út í bláinn sem það er gert, það er gert vegna þess að það hefur þýðingu.
    Þetta vildi ég að kæmi fram sem andsvar ef það má kalla andsvar við því sem kom fram í ræðu hv. þm.