Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 23:28:05 (2272)


[23:28]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sagði að ef ríkið væri að selja sín fyrirtæki og þau væru til sölu á almennum markaði og þaðan kæmi fjármagn, m.a. frá lífeyrissjóðunum, þá gerði það það að verkum að ríkið gæti þá lagt eitthvað til nýsköpunar í staðinn. Það er alveg rétt. Hann nefndi þróunarstarf. --- Virðulegur forseti. Ef ég man rétt þá voru það fyrirheit ríkisstjórnarinnar að 10% af . . .  , var það ekki? (Gripið fram í.) Já, markmiðið var 20% en það markmið byggðist á óraunhæfum væntingum um sölu ríkisfyrirtækja. Það kann rétt að vera. En markmiðið var, ef ég skil og veit rétt, að afgangurinn færi beint til þess að laga stöðu ríkissjóðs þannig að það hefur ekki farið í nýja uppbyggingu í atvinnulífinu.
    Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði einnig um að í nágrannalöndunum væru flest opinber fyrirtæki sem væru í samkeppni á markaði í formi hlutafélaga. Það er væntanlega rétt en í því kristallast það sem ég sagði í ræðu minni áðan, að hæstv. ríkisstjórn hefur algjörlega mistekist að leiða þetta sjónarmið fram því öllum hugmyndum um að breyta í hlutafélag, nánast öllum hugmyndum, hafa fylgt hugmyndir jafnharðan um sölu. Hæstv. samgrh. fékk sérfræðinga til landsins til að gæla við það á hvað væri hægt að selja Póst og síma ef búið væri að breyta því í hlutafélag. Hæstv. ríkisstjórn talaði alltaf um það í sama orðinu að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og selja í það minnsta annan þeirra.
    Þetta segi ég hér því ég held að það hafi efnislega þýðingu í umræðunni að ríkisstjórninni hefur mistekist að greina á milli þessara þátta einkavæðingarinnar: sölu á einstökum þáttum ríkisrekstrarins og hins að í ákveðnum tilfellum væri gott að breyta um rekstrarform.