Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:07:57 (2288)


[00:07]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem hér um ræðir eru ákvæði um leiðréttingar varðandi innheimtu virðisaukaskatts, ýmis ákvæði sem hafa komið fram í framkvæmdinni að séu ófullnægjandi og þarf leiðréttingar á. Ég held að hér sé tekið á og hér sé um að ræða réttlætismál, m.a. varðandi endurgreiðslu á aðföngum til skógræktar þar sem er réttlætismál sem þarf fram að ganga. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þetta frv. og tel nauðsynlegt að það nái fram að ganga ásamt öðrum frv. auðvitað sem varða tekjuhlið fjárlaga eða ríkissjóðs.
    Ég vil einnig taka fram að það er náttúrlega alveg út í hött hjá hæstv. fjmrh. að hafa í hótunum og telja að það sé einhver sérstök árás Framsfl. á bændur landsins þótt formaður þingflokks Framsfl. fari fram á að farið sé eftir samningum við þingstörf, það er auðvitað langt í frá. Þetta frv. á ekki að vera neitt deilumál og auðvitað á að vera hægt að afgreiða það og koma því til nefndar með skikkanlegum hætti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við ákvæði þessa frv. Hér er um leiðréttingar að ræða og sumar af þeim eru áríðandi leiðréttingar á misræmi og óréttlæti sem átt hefur sér stað í innheimtu virðisaukaskatts. Ég vona að frv. nái fram að ganga en allar hótanir í tengslum við þetta eru óþarfar og það vil ég láta koma fram við þessa umræðu.