Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:10:41 (2289)


[00:09]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég verð eiginlega að furða mig á úthaldsleysi stjórnarandstöðunnar. Öðruvísi mér áður brá með þessa ágætu þingmenn sem enn eru hér í salnum. Það var nú meiri kraftur í þeim og er nú oftast heldur en hér í kvöld. Ég hefði haldið eins og sagt var hér rétt áðan að það væri kannski tími til kominn að menn færu að æfa sig. Við höfum ekki verið með kvöldfundi í langan tíma en þegar loksins kemur að því þá brestur blessaða hv. þm. úthaldið. En það skortir samt ekki að hér komi þingmenn upp, t.d. hv. þm. Jóhannes Geir talaði fyrir nokkrum mínútum síðan og kvartaði nánast alla ræðuna undan því hvað það væri lítill tími eftir, lítill vinnutími eftir í þinginu. Rétt áður var hörð barátta um það að taka mál út af dagskrá því menn treystu sér ekki í umræður. Rökin voru einhverjir formgallar sem eru ekki staðfestir af hæstv. ráðherra að séu á frv. en sá sem bar fram þá kvörtun hafði klukkutíma eða tveim tímum áður mælt fyrir þáltill. þar sem var farið með gjörsamlega rangt mál. Þetta er auðvitað málflutningur sem er fyrir neðan allar hellur og ekki einu sinni stjórnarandstöðunni samboðið. Síðan er ætlast til þess og ekki hægt að mati stjórnarandstöðunnar eða hv. þm. Jóhannesar Geirs að mæla fyrir 3. og 4. dagskrármáli vegna þess að það vantar frv. frá hæstv. dómsmrh. Ég hef ekki séð það fyrr að tveir ráðherrar geti staðið hér á sama tíma í ræðupúlti Alþingis og mælt fyrir málum en það er einhver ný aðferð sem hv. þm. Framsfl. eru væntanlega að boða.
    Ég ítreka það að mér finnst úthald hv. stjórnarandstæðinga ákaflega lítið í dag og man þá tíma sem þetta þótti snemmt hjá þeim. (Gripið fram í.) Já, úthaldið er greinilega lítið og það ætti kannski að hefja æfingar.
    En ég er hins vegar ekkert hissa á því að hv. þingflokksformaður Framsfl. skyldi hafa komið hér upp og reynt að tefja framgang þessa máls sem hér er á dagskrá vegna þess að það þekkja auðvitað allir afstöðu Framsfl. til virðisaukaskattskerfisins sem er nú við lýði. Þetta er flokkurinn sem berst fyrir því að koma matarskattinum á aftur svo að um leið og flokkurinn heyrir orðið virðisaukaskattur þá má hann ekki einu sinni vera að því að líta á frv., hann hleypur upp í ræðustól og mótmælir. Og hverju mótmælir hann svo? Hann mótmælir leiðréttingu og hann mótmælir því að hagsmunum bænda sé borgið. Svo mikið liggur þeim á, blessuðum hv. þm. Framsfl., í æðiskastinu gegn virðisaukaskattinum, þeim er svo umhugað um það að koma matarskattinum á að þeir gjörsamlega gleyma sér. Þessi líka bændaflokkur. Hér er frv. sem er fyrir hagsmuni bænda en þeir bara gleyma sér. ( SJS: Þetta er rosalegt.) Þetta er rosalegt, hv. þm., en það verður enn þá verra fyrir þá hv. kjósendur sem lenda í því ef þjóðin verður fyrir því óláni að Framsfl. komist til valda að lenda í því að matarverð muni hækka í landinu eftir yfirlýsta stefnu formanns Framsfl. héðan úr stól Alþingis, að hann mundi koma á aftur einu þrepi í virðisaukaskatti. Það eru auðvitað afar slæm tíðindi. Á sama tíma er haldið landsþing eða landsfundur eða hvað sem flokkurinn kallar þetta nú þar sem meginþemað á landsfundinum er bág staða heimilanna í landinu. Á sama tíma boða þeir hækkað matvælaverð. Á sama tíma er fulltrúi þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur að koma á holræsaskatti. Þetta er nú aðstoð Framsfl. við bágstöddu heimilin. Þetta er glæsilegt. Ég bara vara þá við sem hugsanlega eru að hlusta á þessa umræðu, kjósið ekki Framsfl., því ef lítið er í buddunni í dag þá verður ekkert ef þeir komast til valda. Nákvæmlega ekki neitt.
    Hæstv. forseti. Ég vil fagna sérstaklega 4. gr. frv. sem hér er til umræðu því það álag sem lagt hefur verið á virðisaukaskattsgreiðendur sem einhverra hluta vegna hafa ekki getað greitt á gjalddaga hefur verið slíkt að hér á árum áður hefði verið kallað okurvextir og einhverjir aðilar úti í bæ hefðu verið kærðir fyrir. 2% á dag og upp í 20% er ekkert annað en okurvextir. Ég fagna því auðvitað þegar menn taka skref í áttina að réttlætinu þó að mér þyki þetta í rauninni ekki nóg því 1% á dag eru líka okurvextir og þekkjast hvergi nokkurs staðar annars staðar en hjá íslenska ríkinu. Hvergi nokkurs staðar. Hvers vegna í ósköpunum á að refsa mönnum með þessum hætti? Af hverju má ekki almennt vaxtastig í landinu gilda þarna? En ég fagna því engu að síður að menn eru að taka skref í þessa átt og ég vona að hv. nefnd muni íhuga það hvort ekki megi taka aðeins stærra skref og fara t.d. niður í 0,5% og verðum við samt vel yfir vaxtastiginu í landinu.
    Í öðru lagi þá sakna ég þess reyndar að hafa ekki hæstv. fjmrh. hér vegna þess að úr því að við erum að gera breytingar á virðisaukaskattslögunum þá vildi ég gjarnan sjá fleiri breytingar á þeim en mér þykir svolítið erfitt að bera fram spurningar í þá veru án þess að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur. Á meðan ég

doka eftir hæstv. fjmrh. þá er rétt að geta þess varðandi þau mál sem áttu að vera á dagskrá og þann furðulega málflutning sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Helgasyni, eins og ég byrjaði að tala um rétt áðan, að innflutningur á áfengi til Íslands er frjáls. Því verða menn að átta sig á. Hann er frjáls í dag. Í dag getur hver einasti maður sem á annað borð hefur leyfi til að flytja inn og jafnvel fleiri flutt inn áfengi inn í tollvörugeymslu og selt það þaðan inn í veitingahús til einstaklinga. Að vísu í gegnum ÁTVR en það má flytja það inn. Þannig að það er alveg furðulegt að menn skuli vera með þessi miðaldasjónarmið enn þann dag í dag og það var ágætt dæmi sem hæstv. fjmrh. tók hér fyrr á fundinum um eldspýturnar. ( SJS: Hvar koma þær inn í virðisaukaskatt?) Það er tekinn virðisaukaskattur af eldspýtum. Skilur hv. þm. það ekki? Þannig að það er alveg augljóst að það kemur inn í þetta mál. Sá sem selur eldspýtur og ekki greiðir á gjalddaga hann þarf að borga 2% á dag. ( SJS: Þetta er sérstaklega alvarlegt með eldspýturnar.) Já, það er mjög alvarlegt mál.
    Hæstv. forseti, ég fagna komu hæstv. fjmrh. Ég ætlaði að segja það, hæstv. ráðherra, að úr því að verið er að breyta lögunum um virðisaukaskatt þá vildi ég sjá fleiri breytingar gerðar þar á. Það sem ég er með í huga er að þeir aðilar sem greiða virðisaukaskatt eigi að fá að greiða hann þegar greiðsla berst. Í dag er það þannig að aðilar selja vöru á lánskjörum t.d., það getur verið í sex mánuði, eitt ár, eða eitthvað slíkt. En þeim ber að skila virðisaukaskattinum innan tiltekins tíma. Án þess að þeir hafi fengið peningana frá kaupandanum þá ber þeim engu að síður að leggja út þessa fjármuni fyrir hönd kaupandans til ríkissjóðs þannig að ríkissjóður er með allt á hreinu. Nú getur það farið þannig að það verða aldrei skil, það verði aldrei gert upp af hálfu kaupandans, engu að síður ber seljandanum að greiða til ríkissjóðs þessa fjárhæð. Þetta er atriði sem ég vil að sé litið á og mun óska eftir því í hv. efh.- og viðskn. að menn taki til skoðunar. Það er auðvitað ekkert réttlæti í því að seljandi þurfi að reiða af hendi fjármagn til ríkissjóðs sem kaupandi á að reiða af hendi. ( JÁ: Þú átt bara ekkert að lána kaupandanum virðisaukaskattinn.) Ég hef áður heyrt annarleg sjónarmið hv. þm. Jóhanns Ársælssonar úr viðskiptaheiminum þannig að þetta innskot frá þingmanninum kemur mér ekki mjög á óvart og skil ég það ósköp vel að hann hefur kosið það að vera þingmaður frekar en t.d. kaupmaður enda er hann ágætis þingmaður.