Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:22:55 (2291)


[00:22]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson talaði um að ræða mín hefði verið þokukennd um stefnu Framsfl. í virðisaukaskattsmálum. Það má vel vera að honum hafi þótt það, það er stundum sárt þegar komið er við kaunin í mönnum. En stefna Framsfl. í virðisaukaskattsmálum var ekkert þokukennd hér þegar hv. þm. Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, lýsti því yfir að það væri hans stefna og hans vilji að það yrði eitt þrep í virðisaukaskatti. Nú segir hv. þm. að það eigi ekki að hækka virðisaukaskattsþrepið og þá hlýtur að eiga að lækka hitt til móts við þá stefnu sem hv. formaður flokksins hefur að hafa bara eitt þrep og það er þá athyglisvert ef svo er. Þá held ég að Framsfl. sé farinn að lofa heldur betur upp í ermina á sér.
    Ég vil biðja hv. þm. að færa orðum sínum stað hvar ég lofaði skattalækkun. Ég er ansi hræddur um að hv. þm. hafi hlustað oft á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson þegar hann er að vitna í eitthvert blað sem gefið var út í prófkjörsslagi Sjálfstfl. í Reykjavík fyrir síðustu kosningar. Þar voru spurningar um skattana og hvort að þingmenn ætluðu að lækka þá skatta sem vinstri stjórnin hafði sett á. Það voru tveir þingmenn sem svöruðu því á þann hátt, annars vegar ég og hv. þm. Geir Haarde, að við það yrði ekki ráðið. Þannig að ég óska eftir því að hv. þm. færi orðum sínum stað.

    Það er ekki við mig að sakast þó að hv. þingmenn séu svolítið ruglaðir í þessari virðisaukaskattsumræðu. Ég skil það ósköp vel. En ég fæ þær upplýsingar héðan úr ræðustól að landsþing eða landsfundur Framsfl. hafi sennilega komið vitinu að þeirra mati fyrir formann flokksins í þessum málum vegna þess að það muna það allir sem hér eru hvaða yfirlýsingu hann gaf um virðisaukaskattinn. Hún var alveg skýr.