Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:25:16 (2292)


[00:25]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég býst við því og gef mér það að hv. þm. hafi ekki fyrir kosningarnar 1991 sagt skilið við Sjálfstfl. því það er klárt að Sjálfstfl. mótaði þá stefnu á landsfundi sínum þá að fara með tekjuskatt einstaklinganna niður í 35%. Og það að ganga fram undir merkjum Sjálfstfl. í þeirri kosningabaráttu með loforð frá landsfundi hlýtur auðvitað að merkja það að hv. þm. hafi ætlað að standa við gefin loforð sem einn af þingmönnum flokksins þegar inn á Alþingi væri komið.
    Ég vil benda hv. þm. á það að það sem skiptir höfuðmáli þegar menn eru að ræða um skatta og skattastefnu þá getur menn greint á um það hvernig skuli beita skattkerfinu til tekjujöfnunar. Við framsóknarmenn teljum að það eigi að beita því til tekjujöfnunar þannig að það aðstoði þá sem við erfiðustu og lökustu kjörin búa. Það lá fyrir í desember í fyrra úttekt frá Þjóðhagsstofnun á því að sú leið sem við framsóknarmenn vildum fara þá skilaði þeim sem verst voru settir meiri kaupmætti en sú leið sem valin var. Nú er það hins vegar staðreynd að sú leið sem við framsóknarmenn vildum fara var ekki farin og sett tvö þrep í virðisaukaskattinn og það er ekki okkar tillaga nú að hækka virðisaukaskattsþrepið aftur. Aftur á móti viljum við núna leita annarra leiða í gegnum vaxtabótakerfið, barnabótakerfið, skattleysismörkin til þess að jafna lífskjörin í landinu og höfum mótað skýra stefnu um það.