Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 00:54:33 (2300)


[00:54]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tel að frv. sem er til umræðu sé alls ekkert óskýrt. Ég get alls ekki fallist á það. Eftir að hafa lesið framsöguræðu mína, sem hefur fundist, þá er þar bara vísað til athugasemdanna og ef maður les . . .   ( Gripið fram í: Misstum við ekki af neinu?) Nei, ég held að hv. þm. hafi ekki misst af mjög miklu. Það er ljóst af 1. gr. í frv. að málið snýst um skráningarrétt og skráningarskyldu. Það er eitt af grundvallaratriðunum í íslenskum rétti í sambandi við virðisaukaskatt að þeir sem eru með það sem kallað er neikvæðan virðisauka fá ekki að skrá sig. Lítill angi af þessu dæmi er t.d. dæmið sem hv. 5. þm. Reykv. hefur stundum nefnt, þegar menn kaupa einhverja vöru og selja hana á lægra verði og hirða síðan náttúrlega meiri innskatt heldur en útskatt og taka þess vegna frá ríkinu. Það er eiginlega sama hugmyndin sem liggur hér að baki. Lögin eru raunar að sjá við því að það sé verið að svindla á kerfinu. Út á það gengur þetta og þetta er ekkert séríslensk smíð, þetta er líka svona í nágrannalöndunum.
    Vandamálið kemur hins vegar upp þegar verið er að kaupa aðföng sem geta hvort heldur verið til nytja í framtíðarrekstri eða til annarra nota sem venjuleg heimili gera, þ.e. að koma sér upp einhverjum trjálundi sér til skemmtunar og öðrum til yndis. Þetta hefur valdið þessum erfiðleikum og hér er verið að reyna að finna reglu svo hægt sé að taka inn í kerfið þá aðila sem geta sýnt fram á að þeir ætli að stunda ákveðinn rekstur í ábata- og atvinnuskyni. Þetta á sérstaklega við í iðnrekstri, í fiskirækt, ræktun alls konar þar sem framleiðslan tekur mjög langan tíma. Málið er auðvitað sér í lagi viðkvæmt þar sem mjög auðvelt er að blanda þessu saman við venjuleg heimilisnot, heimilisiðju og slíkt, eins og ég nefndi áðan.
    Það sem er síðan talið upp í athugasemdunum við 1. gr. eru þau skilyrði sem verið er að setja, þ.e. að þetta sé atvinnustarfsemi, þetta sé eðlilegt starfsins vegna og að fjárfestingin standi í beinum tengslum við væntanlega sölu hans á skattskyldri vöru og þjónustu. Síðan er gert ráð fyrir því að með rekstraráætlun sé sýnt fram á það að þetta sé alvaran sem standi á bak við skráninguna og þar með heimildina til að taka innskattinn og fá hann greiddan. Þetta er ekki flóknara en það og ég veit að þeir bændur sem ætla að stunda nytjaskógrækt á Íslandi munu að sjálfsögðu hafa einhverjar rekstraráætlanir um það hvenær þeir munu upp skera með sínu skógarhöggi. Meiningin er nú í sjálfu sér ekki flóknari en þessi. Það er sjálfsagt að líta á hvert atriði fyrir sig.
    Vandamálið varðandi það sem hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, nefndi um það hvort þetta ætti að virka aftur fyrir sig, er og mér finnst sjálfsagt að líta á það, en vandamálið er það að ég hugsa að ríkissjóður hafi lagt kannski mestan part fjármagnsins til svo að staðan gæti verið þannig. Ég ætla ekki að fullyrða neitt að þeir bændur sem eru að snúa sér að skógrækt, a.m.k. sums staðar, hafi fengið bein framlög frá opinberum aðilum en síðan er tekinn virðisaukaskattur sem þeir hafa þurft að borga sjálfir. Það kann að vera hluti af þeirri skýringu að menn hafi ekki haft alveg fulla samúð með því að geta síðan tekið virðisaukaskattinn og fengið hann endurgreiddan af því að þarna var keypt fyrir opinber framlög. Auðvitað á það í sjálfu sér ekki að skipta öllu máli, en ég er að nefna þetta af því að þá þarf auðvitað að taka tillit til þess hvernig á hefur verið haldið hingað til og ég bið hv. nefnd og nefndarmenn um að skoða það í leiðinni.
    Í sambandi við 2. og 3. gr. þá er það nú ekki flókið mál því það er einungis verið að bæta tryggingafélögunum við þá sérreglu sem þingið samþykkti í fyrra, þeir hv. þingmenn sem hér sitja, um bílaleigurnar, þ.e. það megi reikna 19,5% rúmlega af söluverði bílanna. Þannig er fundinn út sá hluti söluverðsins sem kalla má virðisaukaskatt, sem í raun og veru skiptir ekki máli þegar um einstaklinga sem eru ekki skráningarskyldir er að ræða því að þeir bera endanlega skattinn, en hefur þýðingu þegar um er að ræða fyrirtæki eins og tryggingafélög og bílaleigu sem stunda viðskipti með bíla og þá þarf að vera ljóst að virðisaukaskatturinn sé hluti af söluverðinu og það þarf að finna það út. Þetta er ekki flóknara en það.
    4. og 5. gr. held ég að séu nú auðskiljanlegar og 7. gr. er, eins og við höfum áður fjallað um, eingöngu til að bæta nýju ári og nýrri upphæð við. Þetta er bráðabirgðaákvæði sem verið er að breyta með þessum hætti.
    Þegar spurt er um kostnaðinn þá er það nú venjulega svo að það er kannski tiltekin einhver tala í almennum athugasemdum, en ég skal reyna að gera mitt besta. Það er ekki verri ágiskun en annarra. Ég geri það og finnst sjálfsagt að reyna það hér. Í 1. gr. er náttúrlega ómögulegt að segja nákvæmlega hver kostnaðurinn er. Það hefur lítið á þetta reynt. Þetta er ný starfsemi. Sjálfsagt kostar þetta ríkissjóð einhverja peninga, en þá þarf eiginlega að mæla það til hvers hefðu peningarnir ella verið notaðir. Þannig að ég held að það sé ekki á vísan að róa, en það er sjálfsagt tiltölulega auðvelt að finna hvað þetta eru mikil kaup. Ég held að þetta séu ekki mjög stórar og miklar upphæðir og ljóst er að þetta mun skila sér síðar, þó eftir kannski 10, 20, 30 ár og þá mun koma í ríkiskassann og veitir sjálfsagt ekkert af fyrir þá sem þá verða hér á hinu háa Alþingi.
    Ég tel að það sé enginn kostnaður í sjálfu sér af 2. og 3. gr. og þegar litið er á 4. gr. um lækkun á álaginu þá verðum við að meta það hvort þeir sem láta yfir sig ganga að fá álag upp í 20% séu þeir sem borga endanlega virðisaukaskattinn eða hvort þeir eru hreinlega farnir á hausinn og borga aldrei hvorki

skattinn né álagið. Sem betur fer hefur ríkinu tekist á undanförnum mánuðum að rukka dálítið inn af þessu þannig að þetta álag hefur skilað sér, en ég held að það væri ekki rétt af okkur að reikna alltaf með því í okkar reikningum að menn séu vanskilamenn. Sjálfsagt getur þetta skipt einhverjum nokkrum milljónum króna en ekkert sem er orð á gerandi.
    Varðandi 7. gr. þá skal þess getið að þar eru 10 milljónirnar alveg tilteknar og við getum álitið sem svo að þær fari allar út, það má búast við því. Þannig að það er örugg tala í þessu. Ef við lítum síðan á 6. gr. þá kann að vera að þar séu einhverjar upphæðir sem þarf að nefna. Þetta er fyrst og fremst gert fyrir ferðaútveginn, þ.e. að útlendingar geti fengið frádrátt frá virðisaukaskatti af þjónustu sem þeir fá hér á landi eftir tilteknum reglum, enda taki þetta eingöngu til virðisaukaskatts af þeim aðföngum sem virðisaukaskattsskyldir aðilar geta talið til innskatts. Þetta er auðvitað gert til þess að hjálpa til við ráðstefnuhald útlendinga hér á landi, svo að ég taki eitt dæmi. Það má segja að við verðum auðvitað fyrir einhverju tekjutapi, en því aðeins verðum við fyrir tekjutapi af þessu að fólkið hefði komið hvort heldur skatturinn er tekinn eða honum skilað. Og við búumst við því að það verði verulegur vöxtur af þessari þjónustu sem ætti þá að skila sér í meiri tekjum annars staðar því að þetta fólk er ekki undir venjulegum kringumstæðum hluti og starfsemi þeirra hluti af íslensku efnahagslífi.
    Því miður get ég ekki frekar nálgast kostnaðinn við þetta, en það er sjálfsagt að nefndin kalli til sín fólk úr fjmrn. og fái fyllri upplýsingar um þessi atriði.
    Ég vil einungis segja hér að lokum að ég er þakklátur fyrir það að þessi umræða gat átt sér stað og málið kæmist til nefndar, en skal viðurkenna það að þetta er frv. sem aðrir hafa fyrst og fremst ýtt á og er frá skattalegu og innheimtulegu sjónarmiði ekki frv. sem ég er að troða í gegnum þingið vegna þess að þetta sé hluti af tekjuáætlun ríkissjóðs og ég sé að afla nýrra tekna, heldur þvert á móti má búast við því að það renni einhverjir peningar úr ríkissjóði. Þess vegna, fyrr í kvöld, sagði ég að mín vegna hefði þetta mátt frestast, en ég held að það sé öllum til góðs að fá þetta mál til nefndar og láta hana skoða það og ég þakka fyrir ágæta samvinnu hér við 1. umr. málsins.