Flutningur leikskóla Heyrnleysingjaskólans

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 13:49:08 (2317)

[13:49]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningu til hæstv. menntmrh. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 kemur fram að það á að lækka fjárveitingar til Heyrnleysingjaskólans þar sem leikskóladeild skólans færist nú til dagvistar barna í Reykjavík eins og segir hér í frv. Þarna er um einhliða ákvörðun menntmrn. að ræða, að sjálfsögðu í samræmi við gildandi lög en það vill svo til að þarna er um mjög sérhæfða þjónustu að ræða fyrir heyrnarskert og heyrnarlaus börn þar sem verið er að skapa þeim táknmálsumhverfi, eins og það heitir, sem hefur mjög mikið að segja fyrir allan þeirra málþroska og yfirleitt alla framtíð. Þetta málefni er til skoðunar hjá dagvist barna í Reykjavík og mér heyrist að stjórn Dagvistar barna vilji fresta þessu máli og mér þykir reyndar eðlilegt að þessum flutningi verði frestað, flutningi á þessum forskóla verði frestað þar til grunnskólinn fer til sveitarfélaganna.
    Í þeim lögum sem voru í gildi um Heyrnleysingjaskólann og ég held að hafi verið afnumin 1990 var regla sem kvað á um skólaskyldu heyrnarlausra barna frá fjögurra ára aldri þannig að það er alveg ljóst að þarna er verið að veita mjög sérstaka þjónustu. Spurning mín til hæstv. menntmrh. er sú: Er ráðherrann tilbúinn til þess að fresta þessum flutningi og leggja til nauðsynlega fjárveitingu til reksturs skólans, hann kostar tæplega 4 millj. kr. á ári, og bíða þess að grunnskólinn verði fluttur til sveitarfélaganna svo að hægt verði að skoða þetta mál í samhengi við framtíðarrekstur Heyrnleysingjaskólans?