Verkfall sjúkraliða

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 13:58:55 (2323)


[13:58]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að staðfesta að samninganefnd ríkisins starfar í fullu umboði og í samræmi við stefnu hæstv. ríkisstjórnar. Það er mjög mikilvægt að sú yfirlýsing liggi afdráttarlaust fyrir í ljósi orða fjmrh. síðustu daga.
    Hæstv. forsrh. sagði að samninganefndin gerði samninga í samræmi við almenna launastefnu. Nú hefur það verið upplýst á Alþingi, hæstv. forsrh., að í svari fjmrh. við fyrirspurn minni í síðustu viku að samninganefnd ríkisins gerði fyrr á þessu ári samninga við hjúkrunarfræðinga sem fela í sér um það bil 15% launahækkun umfram það sem sjúkraliðar hafa fengið. Þannig er það ómótmælanleg staðreynd að þessi

samninganefnd fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur gert slíkan samning. Það tók hins vegar allt of langan tíma að fá þetta staðfest og þurfti sérstaka fyrirspurn á Alþingi til þess að fá það fram. Þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. forsrh. segi það alveg skýrt þegar hann hefur kynnt sér málið --- og ég skal fúslega veita honum tíma til þess, en hann er nýkominn til landsins, --- hvort ekki gildir það sama um þá stétt heilbrigðisstéttanna sem tvímælalaust er lægri í launastiganum en hjúkrunarfræðingar. (Forseti hringir.)
    Hitt þykir mér öllu verra að hæstv. forsrh. svaraði hvorki spurningu minni um yfirlýsingu hæstv. heilbrrh. (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Ef það hefur farið fram hjá hæstv. forsrh. þá er mikilvægt að hann kynni sér það sérstaklega. Hin spurning mín var á þá leið hvort hæstv. forsrh. hygðist gera eitthvað allra næstu daga til þess að reyna að greiða fyrir lausn deilunnar.