Verkfall sjúkraliða

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:00:49 (2324)


[14:00]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar vil ég taka það fram að ég tel engin efni til þess að ég grípi með nokkrum hætti fram fyrir hendurnar á fjmrh. í máli þessu sem hefur forsvar málsins þannig að það er svar mitt við þeirri spurningu.
    Varðandi hina spurninguna um launahækkanir til hjúkrunarfræðinga og afleiddar launahækkanir til sjúkraliða þá kom fram hér fyrr á fundinum í svari hæstv. fjmrh. að ef launabreytingar sjúkraliða væru skoðaðar, þá væri þar ekki um slík frávik að ræða að sjúkraliðar hefðu dregist aftur úr. Vandamálið í slíkum samanburði er alltaf viðmiðun, frá og með hvaða tíma eru menn að gera viðmiðun? Eru menn að bæta hjúkrunarfræðingum upp það sem sjúkraliðar hafa fengið frá einhverjum öðrum tíma o.s.frv. þannig að viðmiðunarþátturinn er erfiðari.
    Að öðru leyti mun ég halda mig við að kynna mér þær yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið.