Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 14:55:59 (2342)


[14:55]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka upp umræður um sjávarútvegsmál almennt. Við bíðum með það þangað til hæstv. sjútvrh. kemur en ég efast ekki um að starfandi hæstv. sjútvrh. geti svarað þeim spurningum sem liggja fyrir um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.
    Það vekur auðvitað athygli að nú þegar er talin ástæða til að breyta þessum nýju lögum um Þróunarsjóðinn. Um þetta frv. um Þróunarsjóðinn varð mikil umræða á sl. þingi. Það er eðlilegt að það hafi verið því að hér voru miklar breytingar boðaðar og þar var verið að taka fyrsta skrefið varðandi auðlindaskatt. Hv. þm. stjórnarandstöðunnar bentu á marga þá vankanta sem þegar hafa komið í ljós á lögunum um Þróunarsjóðinn sem ég ætla ekki að rekja hér, en menn geta lesið um það í þingtíðíndum. Það eru margar síður um það í þingtíðindum og ég sé að hæstv. starfandi sjútvrh. er þegar byrjaður á því og farinn að vitna í þær ræður.
    Á þessi lög þó ung séu er komin nokkur reynsla og hefur fiskiskipum nú þegar fækkað nokkuð. 87 eigendur fiskiskipa hafa nú þegar fengið grænt ljós á úreldingu og 49 eigendur fiskiskipa bíða eftir að fá grænt ljós á slíka úreldingu. En það hefur komið fram að það eru ýmsir vankantar á þessari þróun. Það hefur nefnilega komið í ljós að það er öfug þróun varðandi þennan Þróunarsjóð.
    Hér er boðuð sú breyting að sé skip á annað borð selt úr landi þá muni það aldrei koma hér aftur á íslensk mið. Það er verið að loka fyrir þá smugu sem menn sáu að það sé mögulegt að kaupa þessi skip aftur inn til landsins. Nú langar mig að spyrja hæstv. starfandi sjútvrh. af því að ég veit það ekki: Eru dæmi þess að skip sem selt var úr landi og greiðsla fékkst úr Þróunarsjóði fyrir úreldingu hafi komið aftur til landsins? Mig langar að fá vitneskju um það. En aftur á móti er það alveg hárrétt sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði áðan að það er náttúrlega einkennilegt að loka alveg fyrir þá möguleika að kaupa aftur skip til landsins sem hafa verið úrelt á sama tíma og verið er að kaupa ryðkláfa, kvótalausa ryðkláfa til að fara í Smuguna, eldgömul stór fiskiskip.
    Já, það er ýmislegt annað sem veldur því að menn eru ekki sáttir við þessi lög eins og þau koma fyrir og hafa reynst og ég benti á að það er öfugþróun sem hefur átt sér stað og sérstaklega sú öfugþróun að það er ekki verið að úrelda gömul skip þó það sé til í dæminu, þá er fyrst og fremst verið að úrelda glæný skip. Það er verið að úrelda skip sem eru 3--4 ára gömul vegna þess að eigendur þessara skipa eru í miklum vandræðum og eina ráðið sem þeir finna út úr sínum fjárhagsörðugleikum er að úrelda þessi skip. Það er auðvitað óskapleg sóun svo að ekki sé nú meira sagt að það sé verið að eyðileggja glæný fiskiskip í stórum stíl og menn geta ekki sætt sig við það. Mig langar að spyrja hæstv. starfandi sjútvrh.: Finnst honum að það sé öfugþróun að taka gjald af útgerðinni til að úrelda glæný skip? Ég er ekki í vafa um að fyrst á annað borð er búið að opna fyrir það að breyta þessum nýju lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins þá verða lagðar fram í hv. sjútvn. fleiri breytingar sem eru nauðsynlegar á þessum lögum vegna þess að það getur ekki verið eðlilegt að miða eingöngu við vátryggingarverð skipanna þegar verið er að úrelda. Það hljóta að þurfa að koma fleiri þættir inn í það mál. Það hlýtur að þurfa að líta á fleiri þætti þannig að ekki sé eingöngu verið að úrelda lítil og ný skip að heldur komi líka til úreldingar á stærri og gömlum skipum. En ég hef þegar lagt fram spurningu til hæstv. starfandi sjútvrh. og vænti svara.