Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:01:04 (2343)


[15:01]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér er ljúft að svara því. Eins og skráningarlögin eru nú þá er ekkert sem bannar að unnt sé að skrá skip á nýjan leik þó svo að þau hafi hlotið styrk úr Úreldingarsjóði. Það hefur komið fram beiðni um slíkt sem ég veit ekki hvort hefur verið afgreidd en hún hefur komið fram. Við stöndum frammi fyrir því hvort það er fær leið að reyna að minnka skipaflotann með úreldingu fiskiskipa. Um það snýst þetta mál í raun og veru. Það er gagnslaust að hugsa sér að greiða fé úr Úreldingarsjóði til að fækka skipum ef þau eru jafnharðan skráð hér á landi aftur. Það er laukrétt hjá hv. þm. að það er ekkert því til fyrirstöðu að ný og glæsileg skip fái fé úr Úreldingarsjóði en það er takmarkað og maður hlýtur að ætla ef skipin eru svo góð að unnt sé að fá eitthvert verð fyrir þau erlendis að ekki komi til þess að þau verði eyðilögð eða þeim tortímt. Hitt er miklu sennilegra að það eigi fyrst og fremst við um gömlu skipin og hin lélegu. Það sjónarmið hefur komið fram að það sé menningarlegt slys ef þessi leið verði farin. Menn verða annaðhvort að halda eða sleppa, menn geta ekki bæði sett sér það markmið að taka skipin af skipaskrá, hjálpa mönnum til að úrelda þau og láta þau hverfa og haldið því svo opnu að menn geti í sömu andránni sett skipin á nýjan leik inn á skrána. Ég held að menn verði að gera það upp við sig hvað þeir meina með úreldingu flotans og hvernig þeir vilja að því standa. Hér er bent á að það er glufa í lögunum sem nauðsynlegt er að fylla upp í.