Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:14:26 (2347)


[15:14]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt aftur að láta í ljós undrun mína yfir því að þessi hv. þm. skyldi ekki hafa greitt atkvæði á móti 8. gr. þegar þetta mál var til atkvæðagreiðslu í vor eins alvarleg og efnisatriði þessarar greinar eru nú og hafa það jafnvel í för með sér að undarlegir dallar eru fluttir til landsins. Ég hef nú að vísu gaman af því þegar verið er að persónugera skip, sum skip hafa sál og ég er síður en svo á móti því.
    Annars snýst þetta mál einfaldlega um það hvort við erum að tala um úreldingu á fiskiskipum og úreldingu á skipum og markmiðið sé að taka skipin af skrá hér á landi eða ekki. Ef hugmyndin er ekki sú að taka skipin af skrá þá er verið að tala um sérstakan styrk, sérstakar greiðslur til þeirra útgerðarmanna sem selja allan sinn kvóta. Það er um þetta þrennt að ræða. Auðvitað er hægt að hætta þessum styrkgreiðslum og mér heyrist á hv. þm. að þeir hafi nokkurn áhuga á því. Í öðru lagi er hægt að gera eins og lögin kveða á um, að ætlast til þess að skipin verði tekin af skrá og þetta verði úreldingarstyrkur. Í þriðja lagi er hægt að taka ákvörðun um það að greiða öllum þeim sem selja sitt aflamark styrk. Það er það sem fyrir hv. þm. vakir, að verja þessum fjármunum ekki til þess að minnka flotann heldur til þess að verðlauna þá sem vilja halda skipunum áfram til haga innan lands til sportveiði og ýmissa annarra hluta en þeir eigi það þó sammerkt að hafa selt kvótann sinn og skuldbundið sig til að kaupa ekki kvóta á nýjan leik til sama skips. Um þetta snýst málið.