Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:41:47 (2354)


[15:41]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áður að það er fjöldi trillumanna um allt land sem á í erfiðleikum. Þeir hafa horft til þess að geta fengið stuðning úr Þróunarsjóði til að úrelda sín skip. Þetta er hv. þm. vel kunnugt. Honum er einnig vel kunnugt að trillusjómönnum og okkur öllum stafar mikil hætta af því ef sportveiðibátum fjölgar úr hófi fram. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar og það er óhjákvæmilegt að líta á málin í réttu samhengi.
    Það má vera að það sé öskuhaugahagfræði að taka alvarlega umleitanir trillusjómanna, líta á þeirra kjör eins og þau raunverulega eru, það má vera að hv. þm. kalli það öskuhaugahagfræði. Ég vil á hinn bóginn segja að mér finnast það vera hálfgerð öskuhaugasjónarmið sem hann hreyfir hér að við skulum gera hvort tveggja í senn, greiða mikla fjármuni úr ríkissjóði til þess að minnka flotann, leyfa jafnframt að skipin séu áfram í flotanum en gera svo ekkert með lögin. Fleygja þeim á öskuhaugana, gera ekkert með lögin og venja okkur við að lagastafurinn sé einskis virði.