Þróunarsjóður sjávarútvegsins

51. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 15:43:20 (2355)


[15:43]

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér heyrist að hæstv. landbrh. sé orðin rökþrota í málinu þannig að ég vil ekki kvelja hann mikið meira. En hann mætti gjarnan reyna að útskýra fyrir okkur hvers vegna hann getur aðeins samþykkt að útlendingar eigi fyrrverandi fiskiskip. Hvers vegna aðeins útlendingar megi eiga fyrrverandi fiskiskip hér á landi en ekki Íslendingar því það er það sem hann er að ráðast gegn. Hann er að amast við því að Íslendingar geti keypt inn til landsins skip sem einu sinni var fiskiskip á Íslandi. ( Samgrh.: Það er engin að tala um að úrelda fyrir útlendinga. Hver er að tala um það?) Hann vill banna að Íslendingar geti það. Hann er með þessu einungis að ganga erinda útlendinga sýnist mér. Ég sé ekki annan tilgang með þessu. ( Samgrh.: Hver er að tala um að úrelda fyrir útlendinga?) Ja, það var það sem ég vildi gjarnan fá hæstv. landbrh. til að rökstyðja fyrir okkur hvers vegna Íslendingar mega ekki eiga skip sem einu sinni var fiskiskip hér á Íslandi? Af hverju hann amast svona mikið við því? Af hverju mega menn ekki eiga sín skip hvort sem þau eru stór eða smá og nota þau í þeim tilgangi sem þeir vilja eins og t.d. að gera þau að skemmtiferðaskipum? Af hverju má það ekki? Það er það sem hæstv. landbrh. er að leggja til. Hann er að segja: Við skulum bæta við því skilyrði að þessi skip verði brennd. Annað má ekki gerast þó þau séu nýleg og mikil verðmæti í þeim og þó menn fallist á að þau séu ekki notuð til veiða það er ekki nóg fyrir ráðherra, hann vill líka brjóta þau og brenna þau. Það er ekki bara að það eigi að taka þau úr umferð sem fiskiskip, það nægir honum ekki. Það skil ég ekki og bið hann endilega að reyna að útskýra það fyrir okkur hvers vegna hann þurfi að flytja þessa öskuhaugahagfræði sína í frumvarpsformi.