Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 10:56:50 (2370)

[10:56]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu og verðlagningu á landbúnaðarvörum var lagt fram á þskj. 192 og nál. landbn. er á þskj. 311. Breyting á búvörulögunum sem hér er lögð til að verði kemur til af þeirri breytingu sem rædd var undir síðasta lið dagskrárinnar vegna sameiningar bændasamtakanna. Þar með breytist skipan Framleiðsluráðs landbúnaðarins en eins og kunnugt er þá starfar Framleiðsluráð landbúnaðarins á grundvelli búvörulaganna.
    Efnislega var frv. skýrt við 1. umr. og er vísað til skýringa hæstv. landbrh. á tilurð þessa frv.
    Landbn. gerði tvær smávægilegar breytingar við frv. sem í rauninni skýra sig sjálfar. Þær eru við a- og b-lið 1. gr. en þar er lagt til að í 2. mgr. falli niður orðið ,,nýrra`` og verði þar talað um stjórn heildarsamtaka bænda því það kemur náttúrlega að því að þau samtök verða ekki alltaf ný. Eins er í 3. mgr. gerð tillaga um að brott falli ,,frá og með 1. apríl ár hvert`` þar sem verið er að kveða á um . . .  ( SJS: Á að leggja 1. apríl niður eða hvað?) Ástæðan fyrir því er sú að það er gert ráð fyrir því að bændasamtökin haldi sitt búnaðarþing í marsmánuði og þar með liggur það að sjálfsögðu ljóst fyrir að Framleiðsluráð verður kjörið á því þingi og tekur til starfa þegar kjör þess hefur átt sér stað.
    Landbúnaðarnefndarmenn eru sammála um afgreiðslu þessa máls en fjarverandi voru Árni M. Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson og Ragnar Arnalds og höfðu þeir allir fjarvistarleyfi.
    Ég legg til hæstv. forseti að þessu máli verið vísað til 3. umr.