Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:06:43 (2377)


[11:06]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta eru allt hin merkilegustu mál. Jafnvel hin ómerkilegu sem verða merkileg með þeim ummælum hv. formanns landbn. að hann lái mönnum ekki þó þeir nenni ekki að mæta eða vera viðstaddir afgreiðslu á slíkum pappírum eins og átti sér stað fyrr á fundinum. Ég verð að segja eins og er að mér fundust þetta nokkuð óvenjuleg samskipti milli hæstv. ráðherra og hv. formanns landbn. Hér eru á ferðinni brtt. sem samstaða er um frá nefnd, afar einfaldar í efninu, svo kemur hæstv. ráðherra hér upp og óskar eftir að þær séu dregnar til baka án þess að gefa á því nokkrar skýringar og þegir svo þunnu hljóði þegar umræður fara fram um það hvað liggi að baki óskum hans.
    Ég held að hæstv. ráðherra eigi nú að upplýsa við 2. umr. hvað honum gengur til þannig að menn viti það áður en þessari umræðu lýkur af hvaða ástæðu þessi ósk er fram borin. Ef einhver efnisleg rök eru fyrir þessari frestunarbeiðni hæstv. ráðherra þá tel ég alveg tvímælalaust skylt að þau rök komi hér fram. Þetta hlýtur að leiða til þess að málið fari aftur til nefndar, það er óhjákvæmilegt. Úr því að hér er kölluð til baka brtt. að ósk ráðherra þá hlýtur það að þýða sjálfkrafa að landbn. komi á nýjan leik saman til að fjalla um þetta mál. Og ég tel að til þess að það megi verða á eðlilegum grundvelli þá eigi hæstv. ráðherra að gefa skýringar á því af hvaða ástæðum beiðnin er fram borin.
    Það hefur verið upplýst að það er ekki eins og mér fannst kannski fyrst miðað við framsöguræðu formanns að það sem leiddi af breytingunni á 3. mgr. væri að 1. apríl ár hvert væri lagður niður. Það mun ekki vera svo heldur á að hætta við það fyrirkomulag að binda gildistíma skipunar Framleiðsluráðs við 1. apríl ár hvert þannig að þeir aðilar sem tilnefna í Framleiðsluráð hafi það í sínu valdi að ákveða hvenær ársins nýtt ráð tekur við. Fyrir því eru ýmis rök. Ef tilnefnt er í nýtt ráð á fundi heildarsamtaka landbúnaðarins, sem tilnefnir ef ég man rétt alla fulltrúana nema þá sem landbrh. tilnefnir, t.d. í febrúar eða mars, er rétt að það nýja ráð taki í beinu framhaldi til starfa með endurnýjað umboð. Nú vilja menn kannski gera breytingar, það verða breytingar á fulltrúum sem koma frá landssamtökum einstakra faggreina og þá er eðlilegt að þær breytingar gangi eins fljótt og við verður komið fram en menn sitji ekki uppi með útelta skipan sem kannski er ekki lengur í takt við þá mönnun sem orðin er í einstökum búgreinum einhverja mánuði í viðbót að óþörfu, einn eða tvo eins og þetta gæti verið.
    Ég held að efnislega séð sé breytingin mjög eðlileg og sömuleiðis sú sjálfsagða að fella út þessi orð ,,nýrra heildarsamtaka`` sem er nú bara hugsunarleysi að hafa inni og augljóst mál að þessi samtök munu eldast eins og önnur fyrirbæri og að því mun koma að lokum að þau teljast ekki ný samkvæmt málvenju.
    Hæstv. forseti. Ég óska eindregið eftir því að hæstv. landbrh. gefi okkur skýringar á þessari beiðni sinni.
    Svo er það annað, hæstv. forseti, sem ég hefði haft áhuga á að fá svolitla umræðu um af því að við höfum góðan tíma og daginn fyrir okkur eins og sagt er. Það er ósköp einfaldlega að ég fengi svolitlar upplýsingar um það hver sé stefna núv. ríkisstjórnar í málefnum landbúnaðarins og þá sérstaklega hvað varðar hlutverk Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Mér finnst það satt að segja nokkuð athyglisvert í ljósi ýmissa ummæla sem til að mynda hæstv. landbrh. hefur á köflum haft og ekki síður í ljósi þeirra viðhorfa sem Alþfl. hefur haft til landbúnaðarmála á Íslandi og stundum farið mikinn í þeim efnum að hér skuli koma fram stjórnarfrv. sem staðfestir óbreytt hlutverk Framleiðsluráðs landbúnaðarins inn í framtíðina. Því hér eru ekki gerðar neinar breytingar á ákvæðum um hlutverk og tilgang Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
    Hvers vegna er það athyglisvert? Jú, það er athyglisvert vegna þess að stundum hafa sumir hverjir talsmenn þeirra látið þannig að þeir vildu meira og minna breyta þessu öllu og henda, afnema framleiðslustjórnun í landbúnaði o.s.frv. Hæstv. landbrh. hefur jafnvel haft við orð að hann vilji heimila bændum að selja framleiðsluna heima á sínum bújörðum og leiðir af sjálfu að það jafngilti ákvörðun um að afnema alla framleiðslustýringu því hún yrði gjörsamlega óvinnandi vegur og óframkvæmanleg við þær aðstæður.
    Nú er að vísu afar illa mætt hjá Alþfl. í þingsölum, þ.e. ekki í þeim skilningi að þær fáu hræður sem tilheyra þeim flokki og hér eru séu ekki hinir ágætustu þingmenn heldur eru þeir fremur fáir eins og þeir eru reyndar út í þjóðfélaginu líka samkvæmt skoðanakönnunum, alþýðuflokksmenn. Hér eru engir hæstv. ráðherrar Alþfl. þannig að ég veit ekki hvort flokkurinn er þess vanbúinn að gefa einhverjar upplýsingar um viðhorf sín til þessara mála en mér finnst það vera fullkomið tilefni, hæstv. forseti, til að óska eftir því að fulltrúar stjórnarflokkanna a.m.k. upplýsi hér og svari því: Jafngildir þetta frv. um óbreytt hlutverk og óbreytta skipan Framleiðsluráðs landbúnaðarins inn í framtíðina yfirlýsingu um það af hálfu núv. stjórnarflokka að þeir séu ánægðir með þetta fyrirkomulag og þeir ætli sér að standa vörð um það til frambúðar? Má ganga út frá því sem gefnu í kjölfarið að Alþfl. hafi skrifað upp á þetta framleiðslustjórnunarkerfi og það hlutverk sem Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur. Staðreyndin er sú að ef ekki kæmi til það hlutverk sem Framleiðsluráðið hefur fyrst og fremst í tengslum við stjórn framleiðslunnar, það lögbundna hlutverk þess að fylgjast með framleiðslunni á hverjum tíma og reyna að stuðla að því að hún sé fullnægjandi í samræmi við þarfir landsmanna, þá hygg ég að að flestu leyti væri eðlilegra að koma öðrum þáttum starfseminnar annars staðar fyrir, svo sem þeirri upplýsingasöfnun og ýmsu öðru sem þarna fer fram, án þess að ég sé að segja að það sé mín stefna eða mín viðhorf að leggja eigi niður Framleiðsluráð landbúnaðarins, nei, þvert á móti. Ég tel það hina þörfustu stofnun og hafa þjónað mikilvægum tilgangi. En hitt finnst mér athyglisvert að stjórnarflokkarnir skuli vera hér með á ferðinni stjórnarfrv. um óbreytt hlutverk og óbreyttan tilgang og í raun og veru óbreytt fyrirkomulag þessara mála.
    Við höfum jafnan af því mikla ánægju þingmenn, ekki satt, hæstv. forseti, þegar stjórnarflokkarnir ræða um landbúnaðarmál sín í milli og út á við. Ég teldi þess vegna tilefni til að fá að heyra aðeins um viðhorf ríkisstjórnarinnar í þessum málum og þá nýju stefnumótun sem hér er þá á ferðinni. Fyrst og fremst óska ég eindregið eftir því að þessari umræðu ljúki ekki öðruvísi en að hæstv. landbrh. geri grein fyrir sinni ósk um frestun á því að þessar brtt. komi til atkvæða.