Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:22:08 (2382)


[11:22]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var hárrétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að stöðugar illdeilur stjórnarflokkanna á þessu kjörtímabili um landbúnaðarmál hafa gert það að verkum að í raun hefur sá málaflokkur og framgangur hans meira og minna legið niðri. Þess vegna er það mín skoðun að vegna mikilvægis þessa máls að koma nauðsynlegum lagabreytingum á framfæri til þess að tryggja sameiningu þessara samtaka þá væri skynsamlegast að koma þessu frv. í gegnum Alþingi með sem minnstum atbeina stjórnarflokkanna því að það væri vísasti vegurinn til þess að málið kæmist ekki fram ef ætti að fara að taka upp efnislegar umræður milli stjórnarflokkanna um landbúnaðarmál.
    Við þekkjum það að það eru fleiri málaflokkar þannig, þeir eru í raun strand. Þannig er til að mynda með reglugerðarsetningu varðandi jöfnunargjöld við útflutning, fleiri þjóðþrifamál landbúnaðarins eru strand vegna ósamkomulags stjórnarflokkanna þannig að ég held að það væri nú skynsamlegt í þessu tilfelli að Alþingi sem slíkt leiddi þá hjá sér og viðurkenndi þá staðreynd sem liggur fyrir að flokkarnir sem slíkir sameiginlega, stjórnarflokkarnir, eru ófærir um að taka á málefnum landbúnaðarins.