Framleiðsla og sala á búvörum

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:23:44 (2383)


[11:23]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt, það er nauðsynlegt að greiða götu þessara sameiningarmála í gegnum þingið. Það tel ég reyndar að sé verið að gera samanber að það var afgreitt hér áðan með örstuttri umræðu sjálft sameiningarfrv. og hefði nú kannski einhvern tíma þótt ástæða til þess að af því spryttu nokkrar umræður í þingsölum, jafnmiklum tímamótum og í því felast. En svo var ekki og ég lít svo á að hér hafi legið á bak við m.a. það að þingmenn vildu greiða götu þess máls.
    Það er síðan í öðru lagi hárrétt að stjórnarflokkunum er náttúrlega til einskis treystandi í landbúnaðarmálum, það hefur reynslan sýnt þannig að auðvitað væri það ekki til bóta að fara að láta þá sem slíka hafa meiri eða minni afskipti af þessu. En ég leyfi mér að segja að þessi litla breyting hér á frv. eða lögunum um Framleiðsluráð er í raun og veru svona afleidd breyting sem engum sköpum skiptir að gangi í gegn meira að segja. Um leið og sjálft sameiningarfrv. er orðið að lögum þá liggur það þannig að hin nýju heildarsamtök landbúnaðarins taka við öllum réttindum og skyldum þeirra aðila sem þar eru að sameinast. Það liggur í hlutarins eðli og leiðir reyndar líka af ákvörðun laganna, það er tekið sérstaklega fram með jákvæðum hætti þannig að af því mundu í sjálfu sér ekki hljótast nein vandræði þó að til að mynda orðalagsbreyting á ákvæðunum um Framleiðsluráð í búvörulögum biði betri tíma vegna þess að það mundi sjálfkrafa verða þannig að ný búnaðarsamtök tækju yfir hlutverk Stéttasambandsins sem hefur tilnefnt í Framleiðsluráð og þar af leiðandi er þetta meira svona lagasnyrting ef svo má að orði komast að breyta orðalaginu þannig að heildarsamtök bænda komi í stað þess þar sem áður stóð Stéttarsambandið í ákvæðinu um Framleiðsluráð landbúnaðarins í búvörulögum. Það er ekki efnisbreyting í reynd vegna þess að hin nýju samtök taka við þessu hlutverki. Að því leyti til mætti svo sem verða umræða um þetta mál svo fremi sem sameiningarfrv. sjálft verði að lögum og það þarf auðvitað að gerast nú fyrir jól til þess að hin nýju samtök geti hist í byrjun næsta árs.