Þróunarsjóður sjávarútvegsins

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 11:58:59 (2400)


[11:58]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvað þetta frv. eigi eiginlega að þýða. Ég hef verið að lesa greinargerð með þessu frv. til laga og sé ekki í þeirri greinargerð að það komi fram hver vandinn er, af hverju nú er talin brýn nauðsyn til að setja ákvæði um að óheimilt sé að flytja inn skip að nýju. Ég vænti þess að það komi fram hver vandinn er, af hverju þetta kemur fram og hvort einhver brögð hafi verið að þessu svo taki um að tala.
    Hins vegar langar mig til þess að ræða aðeins um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og ýmsar breytingar sem hann hefur haft í för með sér. Þróunarsjóður sjávarútvegsins er að sögn til þess að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi og sú arðsemi fæst með því að úrelda skip og fiskvinnslustöðvar. Skipin eru úrelt og ýmist seld úr landi eða söguð sundur eða brennd á báli. Það liggur fyrir núna samkvæmt greinargerð með frv. að það var búið að lofa 87 úreldingarstyrkjum að fjárhæð 1,5 milljarðar kr. 7. nóv. sl., 1,5 milljarða til að eyðileggja skip. Þetta er allmikill peningur. Þar að auki liggja fyrir 63 nýjar óafgreiddar umsóknir og 34 þeirra skipa eru að úreldingarverðmæti um 413 milljarðar og þar að auki eru önnur 29 skip sem ekki liggur fyrir mat á. Hér er því greinilega um að ræða á þriðja milljarð króna til að saga og brenna skip. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvers konar þjóðfélag er það sem stendur að eyðingu verðmæta á þennan hátt.
    Í svari hæstv. sjútvrh. nýlega við fsp. hv. þm. Petrínu Baldursdóttur um Þróunarsjóð sjávarútvegsins kom fram yfirlit yfir þau skip sem hafa verið úrelt. Ég vil vekja athygli á því að fiskiskip eru nokkuð varanleg eign. Það er hægt að róa báti býsna lengi og hafa af honum öll þau not sem til er ætlast. Tíu ára gamall bátur er kallaður nýr eða nýlegur, hann er talinn vera það. Á þessum lista yfir úreldingu skipa sem á að eyða að mestu leyti eru 43 skip tíu ára og yngri sem ríkissjóður er að kaupa til að eyðileggja. Og það sem meira er að 12 skip eru fimm ára og yngri. Fimm ára fiskiskip er glænýtt fiskiskip, þar af er eitt 160 tonna skip. Það hlýtur að vera ástæða til að menn spyrji hvort svona ráðslag sé það sem kallað er þjóðhagslega hagkvæmt. Ég get ekki með nokkru móti séð að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að taka ný atvinnutæki og þar að auki rándýr atvinnutæki til að saga þau í sundur eða senda þau á bálið.
    En hvað leiðir menn út í þessar úreldingar? Hverjir eru það sem eru að úrelda? Mikið af þessum bátum eru aflamarksbátar sem fengu á sínum tíma úthlutað kvóta. Það var byggt á reynslu þeirra sem aflamanna. Ef við lítum á skiptinguna á sínum tíma milli þeirra sem tóku aflamark og þeirra sem tóku krókaleyfið þá er mjög ljóst hjá þeim sem til þekkja að þeir sem tóku aflamark voru mennirnir sem höfðu fiskað, sem höfðu róið, sem höfðu aflað. Þeir tóku aflamarkið og þeim var reyndar gefið ákveðið fyrirheit um að það væri vænlegra fyrir þá, þeir fengju að halda sinni reynslu, þeir fengju að nýta afrakstur af sinni vinnu. Þeir tóku því aflamarkið en ekki krókaleyfi. Nú er staðan sú eins og margoft hefur verið bent á hér að þeir sem tóku aflamarkið eru með um fjórðung þess sem þeir fengju í upphafi. Sá sem var við hliðina á þeim og tók krókaleyfið á nú orðið mun betri möguleika á að bjarga sér en aflamarksbáturinn.
    Með stigminnkandi aflahlutfalli minnka að sjálfsögðu tekjur manna af þessu. Flestir þeir sem tóku aflamark eru einyrkjar, þ.e. mjög margir þeirra sem eru á minni bátum eru einir með bátana sína. Þeir höfðu af þessu tekjur sem dugðu þeim og þeirra heimilum til framfærslu. Þegar fjórðungur er eftir af þeim tekjum sem þeir höfðu við upphaf kvótaúthlutunar þá segir það sig sjálft að þeir geta ekki lifað af þessu. Þeir geta ekki fengi krókaleyfi. Nauðvörnin hjá þeim er að selja bátinn, þ.e. úrelda bátinn, horfa á nýtt fiskiskip kannski fimm ára gamalt sagað í sundur eða brennt og þeir verða að leita sér að annarri vinnu. Þetta er það sem hefur knúið þessa menn til að fara út í úreldingu bátanna. Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið að þetta stuðli að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Ég velti því líka fyrir mér hvort þetta sé atvinnustefna ríkisstjórnarinnar, að láta smíða skip til að greiða síðan fyrir að eyða því. Ef það er atvinnustefna þá er hún með því vitlausasta sem hægt er að hugsa sér.
    Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir tillögur tvíhöfða nefndar á sínum tíma um að aflamark yrði sett á alla báta. Ég er hræddur um að 2--3 milljarðar hefðu dugað skammt þegar aflamarkið síðan fór að rýrna og reyndar var það svo lítið sem hugsað var í upphafi að það hefði engum dugað til framfæris. Þá hefði verið mikið sagað og mikið brennt.
    Ég get ekki með nokkrum móti séð að sú stefna sem birtist í frv. um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sé hagkvæm fyrir þjóðfélagið. Ég fæ ekki séð að þetta sé stefna sem geti skilað okkur áleiðis í því að fá arðsemi í sjávarútvegi.
    Svo ég víki aftur að aflamarksbátunum. Hefði ekki verið skynsamlegra í stað þess að knýja menn til þess að afhenda bátana á bálið eða undir sögina að nota eitthvað af þessum fjármunum til að auka arðsemi í sjávarútvegi þannig að þessir menn héldu vinnunni, byggðarlögin héldu þeim afla sem þeir náðu og kaupa af t.d. frystitogurunum, þessum stóru skipum sem eiga möguleika á að sækja út fyrir landhelgina, kvóta og afhenda þessum mönnum til þess að þeir ættu þá möguleika á að bjarga sér?
    Ég held að menn ættu mjög að skoða hvernig þessum 2 milljörðum er varið, hvort það er hagkvæmt fyrir þjóðarbúið og hvort þetta sé í reynd aðgerð sem stuðlar að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Ég leyfi mér mjög að efast um það og ég ítreka þá spurningu: Hvernig stendur á því að þetta frv. er komið

fram? Hafa verið brögð að því að skip hafi verið flutt inn og skráð hér á landi eða eru menn að búast við að það sé einhver stór vá fyrir dyrum í þeim efnum?