Þróunarsjóður sjávarútvegsins

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 12:14:30 (2402)


[12:14]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hefði gaman af að vita, hæstv. forseti, hvar hæstv. sjútvrh., 1. þm. Suðurl., er á vegi staddur. Það er nú svo að þó að maður taki því, með fullri virðingu að sjálfsögðu, að annar starfandi ráðherra fari með þau mál í fjarveru hæstv. ráðherra þá væri það að mörgu leyti mjög æskilegt ef hæstv. sjútvrh., 1. þm. Suðurl., gæti verið viðstaddur einhvern hluta þessarar umræðu og svarað fyrir um þau mál þannig að ég vil byrja á því að leyfa mér að spyrja forseta hvort eitthvað sé hægt að upplýsa um það.
    ( Forseti (SalÞ) : Að því er forseti veit best þá mun hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, vera erlendis í opinberum erindum.)
    Og ekki væntanlegur heim á næstunni? ( Gripið fram í: Hann kemur í dag.) Hæstv. forseti. Ég vissi að hæstv. sjútvrh. hafði verið erlendis því það kom fyrr fram í umræðunni að hæstv. sjútvrh. væri að kenna Chilemönnum á kvótakerfið en ég hafði ástæðu til að ætla að hann væri á heimleið því síðan fréttist af honum í Brussel og ég verð að segja það alveg eins og er að ég hefði að mörgu leyti . . .  ( Gripið fram í: Búinn að útskrifa þá í Chile.) Það er búið að útskrifa þá í Chile í öllum klækjum kvótakerfisins og guð veri með lýsingnum og öðrum stofnum sem þeir veiða þar. En hitt væri að mörgu leyti mjög þénugt ef hæstv. sjútvrh. gæti orðið viðstaddur því í sjálfu sér er það þannig að það gefast e.t.v. ekki önnur tækifæri til að ræða stöðu þessara mála, þar með talið framkvæmdina á þessum úreldingarmálum við hinn

eina og sanna sjútvrh. Og tek ég þá skýrt fram að þetta ber ekki að skoða sem vantraust á nokkurn hátt á starfandi sjútvrh. en ef hitt væri í vændum að sjávarútvegsráðherraskipti ( Samgrh.: Það eru nýmæli.) færu fram í dag þá hefði það auðvitað verið æskilegt.
    Hæstv. forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð er alveg ótrúlegt frv., arfavitlaust frv. satt best að segja. Þó að það sé í sjálfu sér ómerkilegt og e.t.v. ekki ástæða til að gera úr því stórt mál þá er það fyrst og fremst alveg ævintýralegt að þetta skuli vera það sem hæstv. ríkisstjórn telur mesta þörf á að leggja fyrir þingið um málefni sjávarútvegsins. Það er einhver taugaveiklun út af því að það er hugsanlegt að fáeinar trillur kynnu að verða á íslenskri skipaskrá sem hefur verið borgað fyrir úr Úreldingarsjóði gegnum það að menn mundu skrá þær í Færeyjum í smástund og síðan kaupa þær hingað aftur. Það er slík vá fyrir dyrum í sjávarútvegsmálum að ríkisstjórnin rýkur upp til handa og fóta og flytur sérstakt frv. um þá ósvinnu. Svo þegar er spurt hvort að þessu séu mikil brögð þá er lítið um svör. Að vísu er e.t.v. um að ræða eitt tilvik að mér skilst, þ.e. að það liggi ein beiðni fyrir um skráningu á báti. Það er allt og sumt. En þá grípur um sig slík taugaveiklun og hræðsla að það má ekki minna kosta en að hingað komi inn sérstakt stjórnarfrv. um það mál.
    Það sem hins vegar vekur sérstaka athygli er það að með þessu er verið að lýsa því yfir að ríkisstjórnin ætli ekki að grípa til neinna ráðstafana eða breyta í einu eða neinu reglunum um úreldingu eða stefnu sinni á þessu sviði. Nú liggur það fyrir samkvæmt gögnum sem hér hefur verið dreift á þinginu að í raun og veru er fyrst og fremst verið að úrelda bátaflotann og smábátaflotann og þeir skipta hundruðum bátarnir sem eru að hverfa úr íslenska flotanum þessa mánuðina og er þá alls ekki ólíklegt að eftir sé skriða umsókna sem lagðar verði inn fyrir áramótin. Því miður er það svo, hæstv. forseti, eins og afkoman er í þessari grein og ástandið er í báta- og smábátaútgerðinni þá er alls ekki hægt að útiloka það að skriða umsókna sé væntanleg inn núna fyrir áramótin m.a. vegna þeirrar hótunar sem stjórn Þróunarsjóðs lætur hanga í loftinu að úreldingarprósentan, greiðsluprósentan, verði lækkuð á næsta ári.
    Hæstv. forseti. Eins og ég vakti athygli á fyrr í umræðunni þá er það þeim mun sérkennilegra að þetta skuli eiga að halda svona áfram sem það liggur fyrir að ríkisstjórnin hefur algjörlega gefist upp við að móta nokkra stefnu um þessi mál. Það er engin stefna um skráningu skipa, fiskiskipa á Íslandi. Hún er eins handahófskennd og vitlaus og nokkuð getur verið, þ.e. samkvæmt lögum er enn bannað að flytja inn fiskiskip og skrá þau hér þótt veiðileyfalaus séu að sjálfsögðu önnur en þau sem búið var að gera kaupsamninga um fyrir 30. apríl sl. Eins og kunnugt er afgreiddi þingið það mál þannig á sl. vori til að bjarga þeim málum sem þá lágu fyrir að þau skip má skrá á íslenskan fána, svonefnt hentifánaskip sem keypt höfðu verið til landsins á mánuðunum og missirunum þar á undan. En þar var dregið við strik í trausti þess að hæstv. ríkisstjórn mundi síðan móta einhverja stefnu í framhaldinu um það mál. Það hefur ekki verið gert. Það liggur ekkert fyrir um það. Svo að til að mynda aðilar sem núna vilja kaupa 16 ára gamalt mjög vel búið og öflugt frystiskip til veiða á Reykjaneshrygg eða til veiða í fjarlægum heimsálfum í samstarfsverkefnum við aðra en á íslenskum fána geta það ekki. Hins vegar geta þeir íslenskir útgerðarmenn, sem eru að endurnýja skip sín, skráð gömlu skipin sem missa veiðileyfið fyrir hið nýja skip á Íslandi. Þannig getur í sjálfu sér orðið til á næstu mánuðum eða árum þess vegna býsna stór floti íslenskra skipa sem verður á íslenskum fána, skráður á Íslandi en án veiðileyfa í íslensku efnahagslögsögunni. Hugsum okkur að þannig komi til til að mynda til viðbótar við þau skip sem nú þegar geta gert þetta, bæði þau sem hafa komið úr íslenska flotanum á undanförnum árum og eins hin sem keypt voru til landsins erlendis frá fyrir 30. apríl sl. Og gefum okkur nú að innan tveggja ára verði komin í þennan útgerðarflokk veiðileyfalausra skipa í skilningnum íslenska efnahagslögsagan svona 30--40 skip. Það eru engar takmarkanir á því. Þess vegna gætu orðið endurnýjaðir hér á næstu tveimur árum 20--30 ísfisktogarar, stór nótaskip eða jafnvel frystiskip og öll fengið skráningu áfram á Íslandi en án veiðileyfa í íslensku lögsögunni. En hver er þá orðinn munurinn á því að leyfa einhverjum úreltum skipum að vera sömuleiðis á þessari skrá? Ég leyfi mér að spyrja: Hver er þá orðinn munurinn? Hann er auðvitað enginn annar en sá að í öðru tilvikinu hefur verið borgað fé úr Úreldingarsjóði fyrir skipin en í hinu tilvikinu ekki. Ef til að mynda um er að ræða það sem því miður blasir við að í mörgum tilvikum er úreldingarsjóðurinn að borga fyrir nýleg skip og sú þróun er auðvitað alveg áberandi í smábátunum að menn eru að úrelda nýjustu skipin þá er þetta náttúrlega enn fáránlegra eins og menn geta séð í þessu skriflega svari við fyrirspurn um þá báta sem hafa sótt um eða fengið úreldingu á undanförnum árum. Þar úir og grúir af bátum frá árunum 1987, 1988, 1989 og 1990. Það eru sem sagt nýir bátar sem þarna er verið að úrelda í stórum stíl. Þá er þetta auðvitað ekki þannig að það sé skynsamleg hagræðing í gangi í þeim skilningi að elstu og óhagkvæmustu skipin séu að hverfa úr flotanum, nei, öðru nær. Það er neyðin sem er að reka eigendur jafnvel nýjustu bátanna til að úrelda þá og henda þeim og eyðileggja þá en síðan halda menn áfram að gera út gamla báta. Mér er meira að segja kunnugt um dæmi þar sem menn hafa úrelt tiltölulega nýlegan bát, þriggja, fjögurra ára bát og sett í gang á nýjan leik 35 ára gamalt hró til að róa á. Af hverju gera þeir þetta? Af því að þeir fá miklu meira út úr úreldingunni á nýja skipinu. Er nú einhver glóra í þessu? Halda menn að það væri ekki gáfulegra að veiðileyfið væri tekið af gamla hróinu og borgað fyrir að koma því úr rekstri en nýrra og hagkvæmara skip sem mikil verðmæti liggja í gæti haldið áfram?
    Niðurstaðan er sú að af þessu klúðri öllu saman í sambandi við endurskoðun fiskveiðistefnunnar og málefni þessa úreldingar- eða samdráttarsjóðs, afturfararsjóðs sjávarútvegsins að smábáta- og bátaútgerð á Íslandi er í stórum stíl að þurrkast út, veiðiheimildirnar flytjast á frystiskip á haf út og það er að verða þarna breyting á samsetningarmynstrinu í íslenskum sjávarútvegi sem að mínu mati er stórháskaleg. Fram hjá þessum hlutum sem þarna eru að gerast ætla menn sem sagt algjörlega að horfa og hafa ekkert annað þarfara við tímann að gera en að eyða honum í umræður um arfavitlaust frv. af þessu tagi sem hér á í hlut. Þetta er sem sagt innlegg hæstv. ríkisstjórnar til málefna sjávarútvegsins á þessum vetri.